Færsluflokkur: Bækur

Fleygustu orð hrunsins, í samantekt Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar

Ég hef alveg sérstakan áhuga á fleygum orðum, íslenskum tilvitnunum, og hreinum íslenskum húmor.

Upp á bókahillu situr ein bók, sem ég fletti oft í. Bókin er í bókaflokknum: Íslensk Þjóðfræði og heitir "Íslenskar tilvitnanir" sem Hannes Hólmsteinn Gissurarson tók saman, og AB gaf út 1995.

Það eru margar frábærar tilvitnanir í bókinni, sem staðfestir einlægan áhuga höfundar á að safna saman fleygum orðum, eins og hann segir í þessari bloggfærslu í dag. 

Eins og lenska er með þá félaga, þá skrifa þeir úr lokaðri skúffu, og því hvorki hægt að mæra eða ræða skrifin, því verður maður að stofna nýja færslu til að tjá sig.

Fleygustu orð hrunsins, er ábyggilega verðugt viðfangsefni, og ég vona sannarlega að út komi bókaflokkur um þessi fleygustu orð.

Úrtakið sem HHG birtir eru hins vegar svolítið einsleitt, þó ekki sé sanngjarnt að dæma óskrifaða bók, áður en hún er skrifuð.

Skora á höfund að undanskilja ekki eftirfarandi fleyg orð hrunsins: 

"Þeir græða á daginn og grilla á kvöldin"  HHG (man sjálfur hvenær þessu var fleygt)

"Hugsið ykkur bara hvað myndi gerast, ef við myndum nú spýta í" HHG (man sjálfur hvenær þessu var fleygt)

Þessi orð eru fleyg og þrykkt á steintöflur hrunsins og aðdraganda þess, og segja eiginlega miklu meira en orðin sjálf.

Ég viðurkenni fúslega að þetta er fúl færsla, eyðileggja svona móralinn fyrir flottri hugmynd, en þessi fleygu orð mega samt ekki lenda í "skilvindu" prófessorsins, þá hann hefur skráningu bókinni.

Til að létta lund , á þessum langa föstudegi þá eru hér fleyg orð Davíðs Oddssonar, sem eru ótrúlega hnyttin, fyndin og jafnvel hrokafull, en í þessu tilfelli átti hann töluverða innstæðu fyrir hrokanum.

Úr bókinni "Íslenskar tilvitnanir" HHG

"(Albert Guðmundsson:) Ég hlusta nú ekki á svona tal í stuttbuxnadeildinni!

(Davíð:)  Mér finnst það koma úr hörðustu átt, þegar maður talar af lítilsvirðingu um stuttbuxur eftir að hafa haft atvinnu af því að hlaupa um á þeim í áratugi. 

í umræðum í borgarstjórnarflokki  sjálfstæðismanna 1975

Þarna var DO náttlega í Matthildarham,  grenjandi fyndinn og hnyttinn!

 Hér eru svo nokkur ummæli sem höfundurinn HHG hefur tekið saman nú þegar.

  • „Þjóð sem lætur völdin í hendurnar á þjófum og glæpa­mönnum, hlýtur að gera ráð fyrir að einhverju verði stolið frá henni.“ (Bragi Ólafsson, Hænuungarnir, 2010.)
  • „Útrásarorðið er slíkt töframerki, að jafnvel þegar menn virðast gera innrás í opinber fyrirtæki almenn­ings, þá er innrásin kölluð útrás.“ (Davíð Oddsson um REI-málið á morgunverðarfundi Viðskiptaráðs 6. nóvember 2007.)
  • „Þið getið út af fyrir sig sett Björgólf Guðmundsson á hausinn og eruð sjálfsagt komnir langleiðina með það, en þið hafið ekkert leyfi til þess að setja íslensku þjóðina á hausinn. (Davíð Oddsson við bankastjóra Landsbankans á einkafundi í Seðlabankanum snemma árs 2008.)
  • „Við ætlum ekki að borga erlendar skuldir óreiðumanna.“ (Davíð Oddsson um Icesave-málið í Kastljósi Sjónvarpsins 7. október 2008.)
  • „Guð blessi Ísland.“ (Geir H. Haarde í lok ávarps síns til þjóðarinnar 6. október 2008.)
  • „May be I should have“ [done that] (Geir H. Haarde í Hardtalk Breska ríkisútvarpsins 12. febrúar 2009 um, hvort hann hefði ekki átt að mótmæla kröftuglegar yfirgangi breskra ráðamanna.)
  • „Ég á þetta, ég má þetta.“ (Hannes Smárason haustið 2005 um borð í einni flugvél Flugleiða, þegar gerð var athugasemd við framkomu hans.)
  • „Byggist gagnrýni og eftir atvikum rannsókn á þessum fyrir­­tækjum á málefnalegum og faglegum forsendum eða flokkspólitískum? Ertu í liði forsætisráðherrans eða ekki — þarna er efinn.“ (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir í Borgarnesi 9. febrúar 2003 um rannsókn á Baugi Group og fleiri fyrirtækjum.)
  • „You ain’t seen nothing yet.“ (Ólafur Ragnar Grímsson við opnun bækistöðvar Avion Group í Gatwick 24. febrúar 2005.)
  • „Kæri Jón, þú ræður þessu á endanum. Það vita allir. Taktu slaginn með okkur.“ (Róbert Marshall í opnu bréfi til Jóns Ásgeirs Jóhannessonar í Morgunblaðinu 18. september 2006.)
  • „Tær snilld.“ (Sigurjón Þ. Árnason í viðtali við Markaðinn, fylgirit Fréttablaðsins, 14. febrúar 2007 um Icesave-reikninga í Bretlandi.)

 

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband