Færsluflokkur: Dægurmál

Glænýja ýsu ......

Frá 6 ára aldri gegndi ég mikilvægu innkaupahlutverki.  Á hverjum degi skokkaði ég út í búð(ir) með netið til að kaupa 3 potta af mjólk, eitt og hálft pund af skyri og glænýja ýsu fyrir 20 krónur, loks fransbrauð í bakaríinu.  Ekki flókinn listi, en viðskiptin gátu verið flókin og pirrandi.

Fisksalinn fór sérstaklega í litlu sex ára taugarnar.  Ég bað um glænýja ýsu fyrir tuttugu kall, en hann gat aldrei fundið ýsu á þessu verði.  Tuttugu og þrjár sagði hann spyrjandi og leit á mig, ætli það ekki svaraði ég að bragði.  Svo var ýsunni pakkað inn í gamlan mogga.

Eitt skipti, þegar fiskbúðin var full af fólki átti ég að kaupa saltfisk fyrir 20.  "Glænýjan saltfisk" fyrir tuttugu, sagði ég og hann leit á mig sprakk úr hlátri, og hjörðin í búðinni tók undir.  Ha ha ha viltu fá glænýjan saltfisk já!.  Roðnaði af blossandi reiði gagnvart þessum dóna, sem gerði grín að mér.

Næst þegar ég kom inn í búðina og bað um glænýja ýsu fyrir 20 kall, hóf hann spurningaleikinn,  tuttugu og þrjár?,  "nei tuttugu" hann leit á mig, ég horfði ískalt á móti,  hann tók aðra ýsu;  nítján?,  "nei tuttugu" og andrúmsloftið varð ískalt í fiskbúðinni.  Eftir nokkra leit af hinni fullkomnu ýsu, sagði hann:  "ég er hræddur um að ég eigi ekki ýsu fyrir 20"  þá ætla ég ekki að fá neitt sagði ég, sveiflaði fléttunum dramatískt og strunsaði út.

Þegar heim kom sagði ég að það hefði ekki verið til ýsa.YSA

Eftir þetta fékk ég alltaf ýsu fyrir tuttugu kall hjá dónanum í fiskbúðinni.

Síðan þá, og ennþá  stunda ég ekki viðskipti við dóna.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband