Undarleg er íslensk þjóð!

Fall 2009 159

Ég var meðal stórmenna í dag, lífs og liðinna.

Sá sem liðinn er,  orti svo;

Undarleg er íslensk þjóð!

Allt, sem hefur lifað,

hugsun sína og hag í ljóð

hefur hún sett og skrifað.

Hlustir þú og sé þér sögð

samankveðna bagan,

þér er upp í lófa lögð:

landið, þjóðin, sagan.

Stephan G. Stephansson Klettafjallaskáld 1853-1927

Stefán Guðmundur Guðmundsson (Stefánssonar), var aðeins 19 ára gamall þegar hann sigldi vestur um haf með fjölskyldu sinni til Wisconsins 1873.  Stefán var sjálfmenntaður, og gerðist  harðduglegur bóndi þegar hann flutti til Markerville, í Alberta fylki í  Kanada í skjóli hinna fögru Klettafjalla 1889.  Það er eiginlega með ólíkindum að Kanada og Alberta fylki, hafi í rúm 100 ár heiðrað þetta mæta ljóðskáld, sem aðeins orti á íslensku, ljóð sem snerta hárfína strengi í hjörtum okkar allra, og ekki síst þeirra sem fetað hafa í fótspor Stefáns.  Með ólíkindum segi ég, vegna þess að Ísland og íslensk tónskáld virðast ekki hafa lagt höfuðið mikið í bleyti við að semja lög við öll þessi dásamlegu, ættjarðarástarljóð Stefáns, nema kannski eitt: 

Þótt þú langförull legðir, sérhvert land undir fót, sem Sigvaldi Kaldalóns gerði víðfrægt.

 Fall 2009 154 Fall 2009 150

Eitt er það sem heillar mig persónulega við Stefán G. Stefánsson að frásögðum fádæmum tökum á íslenskri tungu, sem birtust í aldagömlum ljóðum hans, og gætu allt eins verið samin í gær; Hann bar einlæga virðingu og barðist fyrir jafnrétti kynjanna  (fæddur 1853) og sagði alltaf hug sinn, hversu fjandans óþægilegur hann var fyrir hlustandann hverju sinni.  Segir mér eitt;  að Helga, móðir Stefáns hafi verið væn, víðsýn og skörungur mikill af afburðum, sannarlega. 

 

 

 

Lifandi stórmenni sem ég var á meðal í dag, var minn "gamli" prófessor (hann vill frekar að ég segi ungi) Þorvaldur Gylfason, sem hélt fyrirlestur í gær hjá Leif Eriksson Íslendingafélaginu í Calgary.  Þorvaldur hélt langan og magnþrungin fyrirlestur sem bar yfirskriftina:  " Iceland in Crisis: From Boom to Bust, Big Time." og ekki að óvörum, var ekkert dregið undan.  Sannleikurinn birtist frostkaldur, í ótal gröfum og súluritum sem Þorvaldur studdist við.   Fátt kom svo sem á óvart, enda er ég með þumalinn í fatla eftir áralanga púlstöku á íslensku hagkerfi, þó öllu átakameiri síðasta ár.

Fall 2009 146Súlurit sýnir hvers vegna nauðsyn var að efla gjaldeyrisforða Seðlabankans í samræmi við skammtímaskuldbindingar ísl. bankanna, og hversu viðkvæm íslenska krónan var orðin fyrir skortstöðusnákunum.  Seðlabankinn miðaði hins vegar gjaldeyrisforða sinn við "3ja mánaða innflutning"

Dr. Hallgrímur Benediktsson íslenskur konsúll í Calgary, sem hefur búið í Kanada ásamt Guðrúnu eiginkonu sinni og 4 börnum í rúma tvo áratugi, átti veg og vanda að skipulagningu dagskrárinnar og gat með töfrasprota látið opna "Stefáns hús" sem annars er opið alla daga yfir sumartímann, á þessum frostkalda haustdegi, fyrir stórmenni á borð við Þorvald Gylfason frá Íslandi, sem hefði næstum því orðið Vestur-Íslendingur ásamt föður sínum og bræðrum, ef afi hans, Þorsteinn Vilhjálmur Gíslason (1867-1938) hefði sagt "já takk" og þekkst boð um að gerast ristjóri Íslendingarits í Winnipeg.

Þorvaldur, spilaði frumsamið lag á alkulstillt píanóið í Stefánshúsi, en sagan hermir að Rósa dóttir hans hafi haldið tónleika fyrir sveitunga, í gegnum sveitasímann á veggnum við hliðina á píanóinu. 

 Fall 2009 155

Hallgrímur spilaði síðan lag Sigvalda Kaldalóns við ljóðið; Þótt þú langförull legðir, af miklum mætti.  Það var stórkostlegt að sjá skrifstofu Stefáns, púltið hans og þann heiðursess í húsinu, sem hann lét þessari list sinni í té, samt var hann hörkubóndi sem gekk til verka af krafti og dug, en skrifaði seinna kvölds og fram á nætur.  Stefán G hefur líklega verið B maður, því hann gat vakað heilu næturnar við skriftir.

Ég er þakklát Þorsteini V Gíslasyni að flytja ekki til Kanada, það hefði ekki verið "good move" fyrir Ísland, og fyrir mig allra sízt, sem hef á einn eða annan hátt upplifað son og sonarsyni, sem áhrifavalda í mínu lífi.  Gylfi Þ Gíslason og hans hógværa "tak skal du har", þegar hann tók við handritunum 21 apríl 1971 er meiriháttar dejavu í æskuminningunni. 

Nokkrum árum seinna "meitlaði og skar"  Vilmundur Gylfason örstuttan spillingarþráð í unglingstúlku, sem hreifst með og horfði á hann afhjúpa og fjalla um spillingu þess tíma. 

 

Seinna, löngu seinna naut ég kennslu Þorvaldar í hagfræðikúrsum, sem var skyldufag (sigh)  í macro economics, en opnaði augu og skilningarvit stelpunnar sem ætlaði bara að læra og lærði micro economics.

Fall 2009 143

 

Í kirkjugarðinum þar sem Stefán og afkomendur hans hvíla, eru margar  fagrar grafskriftir:

Ættjarðar böndum mig grípur hver grund

sem grær kringum Íslendings bein   St.G.St

Fall 2009 160

Úr Eftirköst .....  eftir Stephan G Stephansson

Hámenntaða virðum vér

vora lærdómshróka,

sem eru andleg ígulker

ótal skólabóka.

Þitt er menntað afl og önd,

eigirðu fram að bjóða:

hvassan skilning, haga hönd,

hjartað sanna og góða.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ía Jóhannsdóttir

Takk fyrir þennan pistil Jenný!  Þetta hefur verið skemmtilegur dagur með merkum mönnum.

Ía Jóhannsdóttir, 11.10.2009 kl. 21:02

2 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Fróðleg lesning.  TAkk fyrir mig.

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 12.10.2009 kl. 00:28

3 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Hvernig setur maður svona flag counter á síðuna sína?  Mig langar í svoleiðis. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 12.10.2009 kl. 00:41

4 Smámynd: Jenný Stefanía Jensdóttir

Sælar skvísur,

Já þetta var sannarlega góður dagur.

Jóna mín,  ég spurði nákvæmlega sömu spurningar og þú hjá ágætum bloggara á mbl.is, 10 mínútum áður en hann yfirgaf þennan góða vettvang.

Kíktu á þennan link, "ekkitölvunördinum" mér tókst að smyrja "flag counter" með hans góðu leiðbeiningum.  Gangi þér vel.

http://zeriaph.blog.is/blog/zeriaph/entry/959829/#comments

Jenný Stefanía Jensdóttir, 12.10.2009 kl. 08:54

5 identicon

Fann ekki tölvupóstfangið þitt, Jenný, svo að ég fer þá þessa leið til að þakka þér og ykkur Gretti báðum fyrir ánægjulegar samvistir í Calgary og á slóðum Stephans G. Þetta var eftirminnilegur dagur.

Fjárböðunarpistlarnir þínir eru magnaðir, las þá af athygli.

Með beztu kveðjum og óskum,

Þorvaldur.

Þorvaldur Gylfason (IP-tala skráð) 12.10.2009 kl. 20:29

6 Smámynd: Ólafur Th Skúlason

takk fyrir góðan pistill

Ólafur Th Skúlason, 12.10.2009 kl. 23:17

7 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Takk fyrir hjálpina með flag counterinn.  Það er verst að hann birtist í þremur eintökum á mínu bloggi.  Ég reyni að laga það fljótlega eða sendi póst á bloggstjórnendurna.  Þeir brugðust fljótt við síðast þegar ég gerði vitleysu á blogginu mínu.  Það var þegar bloggið mitt varð allt á finnsku. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 13.10.2009 kl. 00:40

8 Smámynd: Jenný Stefanía Jensdóttir

Heiður og sómi kæri Þorvaldur, að fá að eyða með þér þessum dögum, og "pikka heilann" þinn svolítið.  Er samt ánægð yfir hvað við erum "innilega sammála" um marga hluti.

Bestu kveðjur.

Jenný Stefanía Jensdóttir, 13.10.2009 kl. 05:32

9 Smámynd: Jenný Stefanía Jensdóttir

Jóna mín þú ættir að leyfa fleiri flögg en 12, þótti súrt að sjá ekki kanadíska flaggið þarna, því ég, allavega heimsæki þig reglulega.

Jenný Stefanía Jensdóttir, 13.10.2009 kl. 05:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband