Hví eru andleg ígulker Íslands, svo hógvær og þögul á ögurstundu.

Hef mikið velt því fyrir mér í öllu skruminu, skjallinu og bölinu sem flætt hefur yfir íslenska þjóð s.l. 14 mánuði, hvar hin sönnu andans ígulker landsins dvelja, hvað þau hugsa, hvað þeim finnst, og hvernig þau sjá framtíðina, sérstaklega núna í morgunsár hrunsins mikla. 

Ekki fæ ég séð að þau sitji með garnagaul á Alþingi. 

Sea_urchin_testsAndleg ígulker ótal skólabóka, voru að mati Stephans G Stephanssonar skálds, hámenntaðir lærdómshrókar.  Hann bar ljúfsára virðingu fyrir menntamönnum, því hugur hans stefndi alltaf til náms, en aðstæður og kjör leyfðu ekki slíkan munað.  Hann áttaði sig þó sem betur fer á því, að menntun væri  einskis nýt, ef ekki fylgdi sjálfsprottið afl og önd, með hvassan skilning, haga hönd, og síðast en ekki síst hjartað sanna og góða. Gæfa Stephans G var að vera gæddur öllu þrennu.  Hann hefur trúlega sæst prýðilega við stöðu sína, þegar hann áttaði sig á því að hann stóð lærdómshrókum fyllilega jafnfætis, sérstaklega ef þá skorti hans eiginleika.  

Í kvöld fann ég 4ja ára grein sem birtist í Lesbók MBL 3. desember 2005 eftir Matthías Johannessen og bar yfirskriftina.

 

"Sá sem selur virðingu sína er fátækari en fátækasti öreigi landsins"  hlekkur hér

Prenta venjulega aldrei út greinar af virðingu fyrir trjánum, nema þær séu sérstaklega áhugaverðar.  Ég hafði undirskrifað nokkur atriði í greininni sem ég læt fylgja hér:

"Nú búa tvær þjóðir í landinu og er sambúðin heldur úfin, ef dæma má af deilum, karpi og rifrildi, já illvígum mannskemmdum sem blasa hvarvetna við í fjölmiðlum; annars vegar estetískt ræktað fólk með rætur í arfleifðinni og á ég þá ekki endilega við menntamenn, heldur þessa ræktuðu alþýðu sem hefur alltaf sett heldur mennskan og sérstæðan svip á þjóðlífið, en slíkt fólk er hvorki á dagskrá hér á landi né annars staðar, plássinu er frekar eytt á hvers kyns andlistamenn samkvæmt skilgreiningum McLuhans, kjaftfora pólitíska fúskara og fallkandídata, sérfræðinga í mannskemmdum, poppara og sjónvarpsstjörnur; og svo hins vegar þessa nýríku oflátunga sem fljóta eins og hroði ofan á glóheitu gullinu.

Og svífast einskis.

Að þessu leyti hættir Ísland að vera sá mikrókosmos af heiminum sem það að öðru leyti er talið vera. Nesjamennskan og náungahatrið hefur alltaf verið okkur heldur erfiður ljár í þúfu. Og gert okkur hallærislegri en ástæða væri til.

Sumt menntafólk er forstokkaðir andlistaunnendur og arfleifðarandúð þeirra nánast eins og hver önnur fötlun. Þeir eru engu betri en rímnagutlararnir sem töldu á sínum tíma að allt væri leyfilegt,"

Eftir lestur og upprifjun á þessari grein, helltist yfir tregi og söknuður.  Ég velti því fyrir mér hversu öflugt sameinað "afl og önd" í bland við hvassan skilning og gott hjartalag, væri ef hin einu sönnu andlegu ígulker Íslands, flytu upp á yfirborðið og hrifsuðu Ísland upp úr hyldýpinu með sér.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Já Jenný við bíðum. Engin hefur enn látið kræla á sér. Líklega verðum við sjálf að standa upp og taka bara völdin. En hver ætlar að standa upp fyrstur?

Kveðja að norðan.

Arinbjörn Kúld, 30.11.2009 kl. 18:26

2 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Ég er sammála Arinbirni allir eru að bíða eftir einhverjum eða einhverju. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 30.11.2009 kl. 23:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband