Erum við Búddistar inn við beinið?

Neita því alls ekki að hafa stundum velt þvi fyrir mér, hvort ég aðhyllist sömu sýn á lífið og tilveruna og þeir sem kallast "Búddistar".

img_2289.jpg

Innst inni viðurkenni ég að ég trúi á "karma"; illur fengur, illa forgengur og allt það,   með öðrum orðum ég trúi því að þeir sem eru góðir, sanngjarnir og heiðarlegir muni njóta þess síðar meir.  Á hinn bóginn erum við skilin að skiptum; ég og Búddistar þegar kemur að útskýringum á því að þeir "ríku" eigi það skilið, því þeir séu að njóta góðs af fyrri góðverkum.  Dæmi s.l. ára eru einfaldlega ekki nógu sannfærandi.

Reiði er heldur ekki Búddaleg, sem er líkleg skýring á því að blóðugar óeirðir eru ekki daglegt brauð í löndum eins og Thailandi, þar sem ég er stödd nú, þar sem misskipting og fátækt er uggvænleg.

Mér er sagt að lögreglan hér sé 100% spillt, hafir þú einhvern tíma þekkt "góða" löggu, þá er hún örugglega dáin.  Af sextiuogfjórum milljónum íbúa, greiða aðeins 2 milljónir skatta.  Spillingin nær uppúrogniðrúr, því fólkið trúir því að betra sé að skilja eftir pening hjá Búddalíkneski  heldur en að greiða skatta til samfélagsins. Ríkið leysir hins vegar úr lélegri skattheimtu, með því að reka lottó, þaðan koma helstu tekjurnar.

Sami aðili sagði mér líka að ef ekki væri fyrir Búddatrú, þá myndi ríkja borgarastyrjöld í landinu.

Þessi uppákoma um stjórnlagaþing, minnir óþyrmilega á "Florida-klúðrið" sem endaði fyrir hæstarétti Bandaríkjana með tilvísun í stjórnarskrá. Al Gore, steig á stokk og sýndi mikinn drengsskap, þegar hann bjargaði þjóðinni frá ævarandi niðurlægingu, játaði sig sigraðan og lofaði engin eftirmæli.     Nú snýst málið ekki um götunarspjöld og pappírsfliba, heldur pappaskilrúm!!!

Mætti ímynda sér að þeir sem dansa nú trylltan sigurdans, eins og eyrnastórir hobbitar,  vegna þess að þeim tókst að ógilda stjórnlagaþing á lagatæknilegum hlutum, héldu að Íslendingar væru Búddhistar inn við beinið og létu þetta yfir sig ganga með stóískri ró og hlýlegu brosi.

Það þarf engin lagatæknileg klókindi til að álykta að það er óðs manns æði að leika sér með eldspýtur í dínamítgeymslu.

Dagurinn í dag er svona dagur þegar mann langar til að segja sig úr stjórnmálasambandi við Ísland og kalla sendiherrann heim.

Svo les ég í fréttum að púðurtunnan í Bangkok er farin að hitna, gulu skyrturnar gegn hinum rauðu.

 

 

 

 


mbl.is Niðurstaðan vel rökstudd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gísli Foster Hjartarson

Bráðskemmtilegur pistill JSJ. Góð samlíking og margt til í því sem þú segir um ástandið hér. Hér er þetta látið líta út eins og pólitískur sigur hjá sumum - pólitískur sigur!!!! Hvað meina menn. Skilaboðin jú eru væntanlega þau að þeir aðilar vilja blása þetta af. Afar sérstök þykir mér að hlusta á ummæli Skafta sem kærði. Hann var á móti stjórnlagaþingi, fann því allt til foráttu en bauð sig samt fram ....en komst ekki að, og lísti því yfir í gær að stjórnlagaþing ætti alls ekki að fara fram

Gísli Foster Hjartarson, 26.1.2011 kl. 08:20

2 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Skemmtilegur morgunpistill. Ég segi takk og pass.

Sigurður Þórðarson, 26.1.2011 kl. 08:57

3 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Þessi túlkun þín á karma lögmálinu er líka kristin Jenný. You get pie int the sky when you die og allt það. - Það er líka kristin kenning og kennd við Kalvinisma og kristilega réttlætingu á kapítalisma að hinir ríku eigi ríkidæmi sitt skilið vegna þess að þeir séu Guði þóknanlegir.

Lönd þau þar sem Búdda trú er ríkjandi hafa oft verið tekin sem góð dæmi um hvernig trúarbrögð virka eins og ópíum á fólkið eins og Marx komst að orði. -  Andóf Búdda munka við Viet Nam stríðið, sem brenndu sig opinberlega til dauða, eru í hrópandi mótsögn við þá sögutúlkun.

Spillingin sem þú talar um í Thailandi er að mörgu leiti heilbrigðari en sú sem viðgengst á Íslandi þar sem spurningin er ætíð hvern þú þekkir og í hvar ´þú stendur í flokki.  Á Thailandi borgar þú mútur og færð það sem þú sækist eftir. Á vesturlöndum, þ.á.m. Íslandi, borgar þú skatta sem stjórnvöld lofa að eyða í ákveðin verkefni, en svíkja svo.

Svanur Gísli Þorkelsson, 26.1.2011 kl. 09:00

4 identicon

Sæl, ég lærði einhvern búddisma í Suður-Tælandi og get reynt að útskýra eitthvað.

Karma (eða kamma á palí) þýðir í rauninnin bara aðgerð, eða gjörð. Allt sem þú gerir er kamma og það er allt saman fullkomlega veraldlegt við það. Það sem þú talar um er líklegra idappaccayataa sem mér fynst gott að þýða sem afleiðingarlögmálið. Það að allar aðgerðir (kamma) hafa afleiðingar.

Margir vesturlandabúar eiga það til að misskilja kamma og rugla því saman við kapítalíska velgengni þar sem okkur er gefin sú trú að góðar fjárfestingar skili sér í meiri innkomu, en slæmar fjárfestingar skili sér í gjaldþroti. Með því að skipta peningum út fyrir kamma, að þá séum við bara komin með búddisma. Þetta er ekki Þannig. Ég hef viljað hugsa þetta þannig að heimurinn sé ósanngjarnt og margir fái margt sem þeir eiga ekki skilið. Margir eru vondir og svíkja og pretta og fá fyrir það flotta jeppa, einkaþyrlur og villur í Flórída. Ef að ég sætti mig við það að heimurinn sé ósanngjarn og leggst á þeirra stig, þá uppsker ég ekki fyrst og fremst villur í Flórída eins og sumir, heldur hatur annarra. Villurnar geta komið ofan á það. Hamingjan mín mun aldrei verða söm, heldur myndi ég enda sem bitur einstaklingur sem hatar heiminn og uppsker hatur annarra í þokkabót. Hataðu og þú verður hataður, vertu bitur og fólk verður bitur út í þig.

Á hinn bóginn ef að ég neita að trúa því að heimurinn sé ósanngjarn (sem ég hef góða ástæðu til) og verð góður þrátt fyrir að allir aðrir séu vondir, þá verður uppskeran öðruvísi. Málið er að með því að vera góður, þakklátur, hamingjusamur, þá bætir maður umhverfið sitt og það er líklegra að aðrir séu góðir til baka. Kannski ekki við mig beint, en mjög líklega óbeint (Richard Dawkins kom með ágætis, vísindalega, innsýn í það hvers vegna það borgar sig að vera góður í heimildarþætti sem hann gerði fyrir BBC og heitir Nice Guys Finish First). M.ö.o. maður uppsker líklegast ekki peninga á að vera góður, en maður uppsker hamingju, sálarró, góða vini og annað sem er miklu mikilvægara en peningar.

Sem hálfskáks búddist á Íslandi er ég löngu hættur að kippa mér upp við svona hluti eins og stjórnlagaþingið. Mér finnst þetta svekkjandi og hefði eflaust arkað út á göturnar fyrir 2 árum síðan. En núna finnst mér það ekki þess virði. Stjórnmálin eru svo yfirþyrmandi, ósanngjörn og leiðinleg, að það myndu engu breyta hvað sem ég gerði, svo tímanum mínum er betur varið í að vera góður við vini mína, læra í skólanum og njóta lífsins frekar en að böggast út í eitthvað sem ég get ekki breytt. Það er ekkert gott kamma í stjórnmálum.

Rúnar (IP-tala skráð) 26.1.2011 kl. 11:31

5 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Flott eins og venjulega Jenný.  Ég er hér reyndar í Austurríki þar sem er nokkur hópur buddista, hjón sem ég þekki ágætlega hann frá Ísrael og hún austurísk, þau eru að mantra heima hjá sér einu sinni í viku bjóða þau nágrönnunum til sín ef þau vilja og það er síaukinn þátttaka í möntrunni, hér er reyndar hópur inn í Vín, og meira að segja er maðurinn að fá móður sína frá Ísrael og þar stundar hún líka buddatrú með mörgu fólki.

Þau sögðu mér að það væri töluverður hópur á Íslandi líka sem stunda þessa trú, virtust vita af þeim. 

Ég er sama sinnis og þú, hef alltaf reynt að haga mínu lífi þannig að ég geti horft til baka án þess að skammast mín mikið.  Auðvitað hef ég tekið spretti sem ekki eru mér til sóma, en svo lærir maður smátt og smátt sem betur fer.

Ég er svo sammála þér með þórðargleði sumra sjálfstæðismanna að mér verður óglatt, hvernig varð þetta fólk svona? eða hélt það saman í flokki af því einfaldlega að líkur sækir líkan heim?

En við skulum ekki taka þessu þegjandi.  Takk fyrir góðan pistil.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 26.1.2011 kl. 12:56

6 Smámynd: Bergljót Gunnarsdóttir

Ég trúi því að hver hitti sjálfan sig fyrir í smáu og stóru. Þú þarft ekki annað en að brosa framan í manneskju, sem þú þekkir ekkert, sem virðist niðurdregin og færð langoftast fallegt bros á móti. Síðan geturðu talað óvarlega við einhvern og hann fær kast á þig.

Í Kína þekkist varla það fyrirtæki, lítið eða stórt, eða heimili, þar sem ekki er Búddalíkneski eða altari með einu slíku. Búddismi er þó bannaður og trúleysi uppi á teningnum hjá stjórnvöldum þó svo að nánast enginn virði það. Allir eiga sitt glóðarker þar sem þeir brenna bænamiða,  svona einu sinni í viku eða oftar.

Bænirnar fjalla allar um veraldlega hluti, svo sem glænýjan Merzedes Benz handa afa á himnum og tískuföt á ömmu, eftir að búið er að brenna fyrir  nýju og flottu húsi þeim til handa þarna hinum megin. 

Hinn almenni borgari er yfirleitt ákaflega elskulegur við náungann, en gerir þó allt til að kæra hann fyrir flokknum, sér til framdráttar, því hann er verðlaunaður fyrir slíkan verknað. Fólk svíkur og prettar náungann þegar það mögulega getur og hefur ástæðu til. 

Mér finnst  trúarbrögð sem innihalda svo ríkulega efnahagslega velsæld á öllum tilverustigum dálítið einkennileg, bara að vera vondur við foreldra sína á þessu tilverustigi, ferð síðan út í búð og kaupir þér einhverskonar aflátsmiða sem þú brennir að þeim liðnum, and everybody is happy ever after.

Tek það fram að ég hef ekki kynnt mér trúna, en svona kom hún mér fyrir sjónir að stórum hluta til. Gamalt fólk sá ég þó alloft iðka bænagerðir af meiri alvöru og minni veraldagæðahugsun. 

Bergljót Gunnarsdóttir, 26.1.2011 kl. 13:04

7 Smámynd: Bergljót Gunnarsdóttir

Ég forðast að skipta mér af eða eyða tíma í þessi blessuð stjórnmál á Íslandi í dag. Þau eru löngu búin að ganga fram af mér og ég reyni af bestu vitund að láta þennan óskapnað ekki æsa mig upp, þó það takist ekki nema endrum og sinnum og ég hlaupi upp á háa Cið. Hvað Stjórnlagaþingskosningarnar varðar, er það ekkert annað en stórskandall að undirbúningurinn, sem var nú ekki aldeilis ókeypis, hafi verið svona stógallaður. Þarna finnst mér að einhver þurfi aldeilis að svara til saka. Einhver var aldeilis að skrópa í vinnunni eða bara ekki verið fær um það sem ætlast var til af hounum. Þetta er bara ekki hægt!

Bergljót Gunnarsdóttir, 26.1.2011 kl. 13:19

8 Smámynd: Jenný Stefanía Jensdóttir

Sælt og blessað veri fólkið allt.

Gísli Foster , þekki þennan Skafta ekki nema af hægri skrifum einum,  sem stundum hafa verið kennd við Hannes Hólmstein vegna "fullkomnu íslenskuáráttu og kommusetningar" ;  mér finnst það skemmtileg kenning, sem gaman væri að rannsaka hvort fótur væri fyrir. Annars máttu hafa mig fyrir því að ég tel að  öll framganga Skafta og afturgangna hans gagnvart stjórnlagaþingi, sé  til skammar og minnkunnar fyrir öll þau, hvert og eitt. 

Hér var gerð tilraun til að stíga  eitt lítið spor í rétta átt.  Henni var "hrint" í ógildingu.

Jenný Stefanía Jensdóttir, 26.1.2011 kl. 14:34

9 Smámynd: Skúli Víkingsson

Smáathugasemd. Klúðrið var ekki bara pappaskilrúm, þ.e. kjósandi fékk ekki að vera í einrúmi við að kjósa, heldur voru kjörseðlar þunnir og númeraðir. Þunnir kjörseðlar í kosningu um sameiningu Stykkishólms og Helgafellssveitar voru nægileg ástæða til þess að þær kosningar voru úrskurðaðar ógildar. Númeraðir kjörseðlar valda því að ekki er nægilega tryggt að kosning sé leynileg. Hvert um sig af þessum þremur atriðum nægði til þess að ógilda kosninguna. Það er aumt að horfa upp á fólk kenna kærendum um klúður sem er algjörlega í boði ríkisstjórnarinnar.

Skúli Víkingsson, 26.1.2011 kl. 14:44

10 Smámynd: Jenný Stefanía Jensdóttir

Sigurður; staðan er annaðhvort nóló eða grand, sjálfri finnst mér skemmtilegra að spila nóló. 

Svanur; ég er sammála þessum sannleik, án þess að verða sárreiðust.  Það er dáltið erfitt að þreifa á, þefa af, og þjást fyrir, þegar á hólminn (til Thai) er komið.

Rúnar;  Þakka þér sérstaklega vel fyrir greinagóða og læsilega útlistun á upplifun þinni af Búddisma.  Hef heyrt að æðsta stigið (að ganga út úr jarðhringnum) sé að afneita ást, græðgi og reiði og ganga einsamall á vit ...... ? (hvers).  Það er vissulega ekki á færi flestra, en mér líkar sérstaklega vel við þína sýn á lífið og tilveruna og nánasta umhverfi, þú ert að nota sömu gleraugu og ég á þetta, þó ég kunni að rífa þau oftar af mér í óbúddískrí bræði!  

Jenný Stefanía Jensdóttir, 26.1.2011 kl. 14:53

11 Smámynd: Jenný Stefanía Jensdóttir

Bergljót mín;  það er einmitt og ákkúrat þessi árans hræsni sem alltaf þarf að smeygja sér innan um allt.  Veit ekki hvort "eldra" fólkið sem nú sýnist iðka trúna af einlægni samanborið við yngri kynslóð sem andar að sér nýjungar eins og kynslóðin sem ól þær andaði að sér "græn blóm",  sé stikkfrí frá því að hafa ekki dottið í svipað rugl.  Allt að einu, þetta lítur út fyrir að vera arfgengt klúður, arfgeng afneitun og samsömun.

Um aðgátina í nærveru sálar; Held einmitt að við höfum hist í svona dæmi eins og þú lýsir hér að ofan, ég að lýsa  yfirdrifinni upplifun, og þú þessi töffari sem trúðir ekki á svona verur! 

Jenný Stefanía Jensdóttir, 26.1.2011 kl. 15:39

12 Smámynd: Jenný Stefanía Jensdóttir

Skúli Víkingsson;   þú berð alveg sérstaklega sterkt og fallegt íslenskt nafn.  Að öðru leyti er skilningur minn of "þunnur og gegnsær" til að skilja um hvað rökstuðningur þinn snýst, þó einhver frægur lögfræðingur gæti sagt hann sé á pari við rökstuðning hæstaréttar! Bið þig að fyrirgefa skilningsleysið.

Jenný Stefanía Jensdóttir, 26.1.2011 kl. 15:46

13 Smámynd: Hörður Þórðarson

"Á hinn bóginn erum við skilin að skiptum; ég og Búddistar þegar kemur að útskýringum á því að þeir "ríku" eigi það skilið, því þeir séu að njóta góðs af fyrri góðverkum.  Dæmi s.l. ára eru einfaldlega ekki nógu sannfærandi"

Margir Búddistar telja að það sé hvorki eftirsóknarvert að vera ríkur eða fátækur. Hvort tveggja leiðir til þess að menn verða uppteknir af gæðum sem engu skipta. Hvort tveggja leiðir til meiri karma og menn vilja losa sig við karma en ekki safna því.

Hvað varðar stjórnlagaþingið, þá tek ég niðurstöðunni með ró og hlýlegu brosi. Mér finnst þó samt synd hversu miklum peningum hefur verið sóað í þetta. Það er kannski rangt af mér, því það fé er einungis dropi í því hafi af peningum sem eitt er í rugl og vitleysu á degi hverjum á Fróni. Til að forðast karma er ég þó ekkert upptekin af þessu og tek því líka með hlýlegu brosi.

Takk fyrir þennan skemtileg pistil, Jenný.

Hörður Þórðarson, 26.1.2011 kl. 20:08

14 Smámynd: Skúli Víkingsson

Jenný. Þakka þér hlý orð. Þetta með þunnu kjörseðlana kann að virka út í hött, en fyrir nokkrum árum var kosning (um sameiningu Helgafellssveitar og Stykkishólms) dæmd ólögmæt á þeirri forsendu einni að kjörseðlar væru of þunnir. Í þeim kosningum voru læstir kjörkassar, kjörflefar eins og venja hefur verið, kjörseðlar ekki númeraðir o.s.frv.

Skúli Víkingsson, 27.1.2011 kl. 10:57

15 Smámynd: Bergljót Gunnarsdóttir

SKúli, hvað heldurðu að þetta rugl kosti þjóðina?

Bergljót Gunnarsdóttir, 27.1.2011 kl. 12:52

16 Smámynd: Sigurður Antonsson

Skemmtilegar umræður og hugleiðingar hér. Það er ákveðinn helgiblær yfir Thailandi, fólkið gestrisið og hógværð ríkjandi. Íbúarnir vita af stjórnmálaspillingu en það er eins og umbætur nái aldrei fram að ganga eftir öflug mótmæli og jafnvel pólitíska byltingu. Eitthvað tefur för, ólíkt öðrum tígrisríkjum í Asíu. Vöntun á metnaði eða sjálfshelda. Margt hér að framan útskýrir málið. Lýðræðið á Íslandi er líka með brotalamir og umbætur ótrúlega hægfara. Jenny njóttu dvalarinnar og hins milda veðurfars í janúar.

Sigurður Antonsson, 28.1.2011 kl. 21:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband