Færsluflokkur: Trúmál og siðferði

Með vottorð í siðferði! "The Spirit of the standard"

Þrátt fyrir að hafa setið ótal tíma í reikningshaldi hjá "Grandfather reikningshalds" á Íslandi, Stefáni Svavarssyni, dettur mér ekki í hug að líta á vottorðið, sem vottorð í siðferði.

Á hinn bóginn, er ljóst að Félag Löggiltra Endurskoðanda hefur skítfallið á meginmarkmiði sínu:

" að gæta samfélagslegra hagsmuna" í aðdraganda hruns. 

Allur sá lærdómur, sem átti og mátti draga af falli Enrons, og hratt af stað miklum breytingum í reikningsskilaaðferðum hjá endurskoðendum víða um heim,  virðast fljótt á litið, aðeins hafa snúist um að vernda endurskoðendur,  þ.e. firra þá ábyrgð.

Það er með hreinum ólíkindum, að ekki skuli hafa heyrst stuna frá einum einasta endurskoðanda, þessara glæpafélaga, sem stunduðu "skipulagða" glæpastarfsemi, sem þarf ekki einu sinni hámenntaða endurskoðendur til að fatta.

Í fyrirlestrum sínum á dögunum, ráðlagði William Black, að beita skynsemissjónarmiðum, þegar kemur að möguleikum til að endurheimta "ránsfenginn".

Í Bandaríkjunum, hefur þessi "djúpi vasi" fyrst og fremst verið í formi bótakröfu á tryggingafélag endurskoðenda.

Í lögum um endurskoðendur 6. grein ber endurskoðanda skylda til að hafa starfsábyrgðartryggingu.

  6. gr. Starfsábyrgðartrygging.
Endurskoðanda er skylt að hafa í gildi starfsábyrgðartryggingu hjá vátryggingafélagi sem hefur starfsleyfi hér á landi vegna fjárhagstjóns sem leitt getur af ásetningi eða gáleysi í störfum hans eða starfsmanna hans samkvæmt lögum þessum. Tryggingarskyldan fellur niður ef endurskoðandi leggur inn réttindi sín, sbr. 1. mgr. 24. gr.

 

„The spirit of the standard“
„Þetta er eitt af því sem að formaður núverandi
alþjóðlega reiknisskilaráðs er sífellt að brýna
fyrir mönnum. Hann er að segja að þið verðið
að finna „the spirit of the standard“ og vinna
í samræmi við hann en ekki að reyna að finna
einhver
göt og segja: Ja, það stendur hvergi
að ég megi ekki gera þetta, eða, það stendur
hvergi að ég þurfi að gera þetta. Þú átt að reyna
að finna þennan anda. Og það er aldrei hægt
í svona fagi að búa til einhvern tæmandi lista
af öllu því sem gera þarf, það er ekki hægt,
þannig að þú verður að tileinka þér þennan
hugsunarhátt,
bæði í endurskoðuninni og ég
er að segja: Lögin eru alveg nógu skýr til þess,
þannig að hafi menn ekki náð að staðfesta efnisinnihaldið
í reikningunum sjálfum þá er hægt
að halda því fram að menn hafi ekki staðið
sig í stykkinu.“
Úr skýrslu Stefáns Svavarssonar fyrir rannsóknarnefnd
Alþingis
23. október 2009, bls. 18.

 

Í ljósi þessa, langar mig að vekja athygli á þessum þrumupistli skálds, til excel skálda:

 

 

Guðmundur Andri Thorsson skrifar: bilde.jpg

Svo ótal margt þarf að endurskoða núna - söguna, sjálfsmyndina, pólitíkina, orðræðuna, þjóðarhugmyndina, siðferðið?… En fyrst og fremst þarf þó að endurskoða endurskoðendurna.

Þeir voru aðalskáldin í bænum.

Þessir súrrealistar klæddust gráu og þegar þeir töluðu streymdi grá þoka út um munninn á þeim. Þeir gerðu sjálfa sig ósýnilega en sköpuðu sér sterk tákn sem ekki urðu vefengd. Þeir tóku sér bólfestu í gráum háhýsum og kölluðu sig alþjóðlegum nöfnum sem virkuðu óskaplega ensk og heiðvirð. En þeir bulluðu meira en Jón Gnarr.

Traustið selt

Á bak við hvern útrásarvíking var her af þeim. Þegar við lýsum yfir óbeit okkar á auraspuna útrásarvíkinganna er rétt að hafa hugfast að þeir voru einungis hinn sýnilegi hluti þess villta tryllta spillta kapítalisma sem hér var innleiddur af trúarlegri staðfestu. Þeir sátu þarna einhvers staðar á bak við gráu mennirnir með útlensku skammstafanirnar og unnu baki brotnu við að finna leiðir til að brjóta reglur, koma undan, sniðganga, fela, flækja - gera það sem í daglegu tali er auðkennt með sögninni "að svindla" þó að það hafi sjálfsagt aldrei hvarflað að neinum þeirra. Þeir héldu að þeir væru að "spila fast", "leika sóknarbolta", "ganga eins langt og dómarinn leyfir". Þeir hugsuðu í fótboltaklisjum. Þeir höfðu allir lært það í skólanum að tilgangur lífsins væri að búa til vöru úr sér og fá pening. Með öllum ráðum.

Fram hefur komið að viðskiptahættir mannsins sem veðsetti bótasjóð Sjóvár í braski sínu hafi verið kenndir við Háskólann og nemendur sérstaklega látnir gera grein fyrir þeim á prófi. Það er ekki endilega vegna þess að kennarar við Háskólann séu siðlausir eða fábjánar - þeir hafa kannski bara ekki mikið hugsað út í rétt og rangt - og flækjurnar sem téður viðskiptamaður bjó til virðast hafa þótt svo athyglisverðar frá faglegu sjónarmiði að aðdáun hafi vakið. En það vantar augljóslega eitthvað í nám þar sem slíkt er kennt með velþóknun. Sjálf hugmyndafræðin á bak við það er röng. Sú hugmyndafræði að allt okkar háttalag og öll okkar einkenni sé vara á markaði: líka traust.

Með vottorð í siðferði

Viðskiptadeildir háskólanna framleiddu fólk sem skrifaði til dæmis upp á bókhaldið hjá Fl-Group sem hlýtur að hafa verið dularfullt því engu var líkara en að menn tæmdu með hlálegum flugfélagakaupum þá digru sjóði sem tekist hafði að nurla saman áratugum saman með einokunarokri á þrautpíndri þjóð. Þegar Vilhjálmur Bjarnason reyndi að grafast fyrir um undarlegar færslur af reikningum þá kom virðulegur endurskoðandi og traustsali frá firma með afskaplega langt útlenskt nafn og vottaði að ekkert óeðlilegt sæist. Það var mikið um slík vottorð á þessum árum. Í gamla daga voru sum okkar með vottorð í leikfimi - hér tíðkaðist að gefa hressum gaurum vottorð í siðferði.

Halldór Ásgrímsson (sem raunar er endurskoðandi) var í sjónvarpsviðtali á dögunum þar sem fram kom að ákaflega vel hefði tekist til við einkavæðingu bankanna, sem farið hefðu til aðila sem alls ekki tengdust þáverandi stjórnarflokkum; Finnur Ingólfsson bara forstjóri útí bæ, og hví skyldi hann gjalda þess að hafa verið einhvern tímann í Framsóknarflokkum? Halldór viðurkenndi með landskunnum semingi að ef til vill hefði eftirlitið brugðist, en benti hins vegar á að stjórnvöld hefðu treyst því að endurskoðendur gættu þess að allt væri eins og það ætti að vera - kannski út af öllum löngu og traustvekjandi útlensku nöfnunum.

Þegar sá mikli vefstóll, Enron, var afhjúpaður í Bandaríkjunum, beindu menn mjög sjónum að endurskoðendafyrirtækinu sem bæði annaðist ráðgjöf um auraspunann og endurskoðaði svo bókhaldið, Arthur Andersen. Af því tilefni var rætt við ýmsa endurskoðendur hér á landi í viðskiptablaði Moggans, þar á meðal einn hjá KPMG. Hann var spurður um nauðsynina á opinberu eftirliti með störfum þessarar stéttar. Hann telur það óheppilegt: "Opinbert kerfi sé oft þungt í vöfum og hætt sé við að því myndi fylgja stöðnun."

Stöðnun. Soldið fyndið orð hjá endurskoðanda. Bókhald er nefnilega svo skapandi.

 


mbl.is Mál án hliðstæðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skattaprófið þyngist, gruggið í glasinu eykst.

Hugsaðu þér glas fullt af vökva.  Neðst á botninum er brún þykk leðja 10%.

Síðan tekur við gruggugt vatn, sem er gruggugara neðst en verður tærara eftir því sem ofar dregur 80%. Efsta lagið er svo krystaltær vökvi 10%.

Mannlegt eðli og afstaða gagnvart svindli, prettum, lygum,  svikum og þjófnaði lýsir sér í þessu glasi. glas-of-waterNeðsta lagið; leðjan eru þeir sem munu alltaf svíkja, stela og svindla, sama hvað gengur á.  Þeir eru gjörsamlega siðblindir og veruleikafirrtir. 

Grugguga vatnið endurspeglar tækifærissinnana; ef að tækifæri býðst, þá svindla þeir og stela líka.  Þeir sem eru nær leðjunni eru líklegri en þeir sem ofar eru, til að grípa glóðina þegar hún gefst,  hinir sem eru ofar, munu hugsa sig vel um, vega og meta ávinning og áhættu. 

Efsta lagið mun aldrei svindla, svíkja eða pretta hvað sem á gengur,  þetta er fólkið sem allir vilja vera í orði en ekki endilega á borði, því hætt er við að áhættufælnin og dýrlingabjarminn verði leiðinlegur til lengdar, trúlega algjörlega húmorslausir líka. 

Ofangreint hefur margsinnis verið kannað og enginn getur í raun „ekki séð þau tilvik“ þegar þeir gruggast svolítið,  t.d. gagnvart skattinum eða hverju því tilfelli þar sem mammon og pyngjan kemur við sögu.

Það er þess vegna mikilvægt hvort heldur það er á vinnustað, á heimili, eða í þjóðfélagi, að prófið sé ekki of þungt.  Tækifæri til undanskots og þjófnaðar verður að fyrirbyggja með skýrum, gegnsæjum leikreglum, þar sem allir sitja við sama borð.  Langflestir þrá að vera heiðvirtir borgarar, en þá verða þeir að geta staðist prófið, samkvæmt normalkúrfu.

Þegar t.d. skattprósenta er hækkuð úr hófi fram, þyngist prófið og gruggið eykst.  Þess vegna má færa fullgild rök fyrir því að hækkandi skattprósenta skili sér í meiri undirheimastarfsemi og svikum, og því skili hún í raun minni tekjum til ríkisins, en ef prósentan er hófstillt.

Átti í töluverðum tremma við að sannreyna þetta sjónarmið varðandi þá útrásarvíkinga, sem gátu ekki einu sinni greitt lægsta fjármagnstekjuskatt í heimi, og fluttu fjármuni sína til aflandseyja.  Þá komst ég að þeirri niðurstöðu að þeir væru í raun brúna leðjan á botninum.

Segja má að ástandið í dag á Íslandi megi líkja við að hrærivél hafi verið stungið oní glasið, og nú sé það löðrandi í brúnu gruggi.  Ekki endilega að tækifærin séu svo mörg, heldur að sá lögaðili sem er að leggja á  þyngri og þyngri byrðar, hefur gjörsamlega misst allan trúverðuleika og traust.  Það er búið að hrifsa eignir, lækka laun, hækka skatta, og svo á að skrifa undir margra ára áþján sem slekkur alla von um betri tíð um langa framtíð.   

Einasta von um að botnfall verði í glasinu aftur, er að skafa leðjuna burt, koma henni undir lög og reglur, sem allir héldu þó að ríktu í réttarríkinu.  

Síðan þarf að gæta þess alltaf að fækka og útrýma tækifærum, með því að hafa einfaldar og skýrar reglur, sem ekki er hægt að túlka til andskotans  og stóreflt eftirlitskerfi, sem allir aðilar treysta á að sé sanngjarnt og tryggi að allir sitji við sama borð.

Mannlegt eðli verður aldrei umflúið.

17.júní 2009   Jenný Stefanía J
mbl.is Misráðin skattastefna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Orð í fortíð töluð; Viðskipti og siðferði, þversögn eða þvingun?

Var að grúska í kjallaranum að leita að rúðustrikuðum blöðum fyrir dóttur, rakst þá á þennan fyrirlestur sem ég hélt  á Málþingi Siðfræðistofnunar Háskóla Íslands 3. október 1997.

Eftir að hafa lesið hann yfir, tel ég að þessi fyrirlestur eigi fullt erindi inn í umræðu dagsins í dag á eins árs afmæli búsáhaldabyltingar 20.janúar 2010 tæpum 13 árum seinna.

Umræðan í dag er svolítið að gjaldfella alla "eftiráspekinga", svona rétt eins og enginn hafi yfirleitt leitt hugann að siðferðislegum gildum, hagfræðilegum rökum, eða öðrum pælingum fyrir þennan afdrifaríkadag fyrir réttu ári síðan.

 

Ágætu áheyrendur,

Fyrirlesurum hér voru gefnar frjálsar hendur í efnistökum sínum.  Ég kýs að nálgast viðfangsefnið út frá þeirri spurningu; Hvers vegna fyrirtæki ættu yfirleitt að ástunda siðlegar pælingar, og hvernig það samrýmist höfuðmarkmiði þeirra.

Niðurstaða mín er sú að hrein viðskipta- og markaðssjónarmið þvingi fyrirtækin beinlínis til vaxandi þátttöku í siðlegri breytni gagnvart þjóðfélaginu og almenningi.  Síðan mun ég fjalla um enn eina sérstöðu Íslands, nefninlega sérstöðu í siðferðislegum ágreiningsmálum og loks í anda yfirskriftar málþingsins afgreiða afstöðu mína að svo stöddu gagnvart skráðum siðareglum.

Togstreyta viðskipta og siðferðis

Það gætir ákveðinnar togstreytu milli viðskipta annars vegar og siðferðis hins vegar. 

Á meðan orðið "viðskipti" felur óneitanlega í sér ákveðna spennu, tækifæri, hraða, gróðravon á grundvelli þröngra hagsmuna, felur orðið "siðferði" í sér ákveðin óþægindi, bremsu, íhugun á afleiðingum, glötuð tækifæri og tillitsemi við ólíka hagsmuni.   Þannig myndar samsetning "harða" orðisins viðskipti og "mjúka" orðsins siðferði ákveðinn árekstur og þversögn í huga og málskilningi.  Hið harða gróðarmarkmið viðskipta virðist eiga fátt sameiginlegt við höfuðdyggðir siðfræðinnar.  Engu að síður hefur viðskiptaheimurinn brugðist við kröfu almennings og stjórnvalda um að axla þjóðfélagslega ábyrgð og almenna siðvæðingu í auknum mæli.

Siðvæðing viðskiptalífsins í hinum vestræna heimi á þessum forsendum, hófst í raun ekki fyrr en í lok sjöunda áratugarins.  Umræður og spurningar um stjórnun og ábyrgð fyrirtækja gagnvart samfélaginu, starfsmönnum, hluthöfum og umhverfinu urðu áleitnari og fyrirtækin hvött til að axla aukna þjóðfélagslega ábyrgð.  Viðbrögð stjórnenda og eigenda fyrirtækja voru í fyrstu lítil, því þessi krafa stríddi gegn grundvallar markaðslögmálum og margir þ.á.m. Milton Friedman töldu að krafan um aukna þjóðfélagslega ábyrgð fyrirtækja kæmi til með að grafa undan tilverugrundvelli þeirra.  Samkvæmt skilgreiningu Friedmans, er tilgangur fyrirtækja fyrst og fremst að hámarka gróða fyrir eigendur sína.  Það sé hlutverk stjórnvalda og stofnana að sjá um heilbrigðismál, menntun, náttúruvernd o.þ.h.  Þá bendir Friedman á að verið sé að færa viðskiptalífinu stórhættulegt vald, sem felst í því að taka þjóðfélags- og siðferðislegar ákvarðanir.  Valdaumboð  stjórnenda fyrirtækja til að ákvarða í málum sem varða samfélagið, sé ekki byggt á lýðræðislegum kosningum heldur einstaklingshagsmunum og sé því ekki réttmætt.  Fyrirtækin eiga að stunda viðskipti í gróðarskyni og greiða skatta af gróðanum, sem lýðræðislega kjörnir fulltrúar sjá um að útdeila í þjóðfélaginu.

Þetta sjónarmið er bæði réttmætt og heiðarlegt, því Friedman dregur þarna hæfi viðskiptalífsins til ákvarðanatöku stórlega í efa, þegar hagsmunir þess og þjóðfélagsins skarast.

Augljóslega hafa siðferðislegar ákvarðanir verið hluti af starfsemi fyrirtækja frá örófi alda.  Á sama hátt er jafnaugljóst að óseðjandi markaðir, takmarkalaus vörueftirspurn, umframframboð á vinnuafli og mikill vöxtur er ekki kjörinn jarðvegur fyrir mjúk mál og bremsur.  Auðvelt er að sjá fyrir sér hvernig "mjúku" málunum var ýtt til hliðar ef þau á annað borð komu til umfjöllunar, á meðan viðskiptalífið bjó við slíka gósentíð.

Fyrirtækin voru þá og eru enn óumdeilanlega uppspretta hagvaxtar og grundvöllur meiri lífsgæða.  Enda þótt gildismat mannfólksins gagnvart lífsgæðum sé afstætt, þá kemur að því að fleiri og fleiri telji sig fullnægða af lífsgæðum og hefja leit að andlegum gæðum.  Vöxtur fyrirtækja og atvinnugreina er heldur ekki takmarkalaus. 

Áhugi á andlegum verðmætum eykst eftir því sem veraldlegum frumþörfum er fullnægt, og takmarkandi vöxtur fyrirtækja knýr þau til að skoða fleiri hliðar og nýjar leiðir til að viðhalda sjálfum sér.   Samkeppnislegir yfirburði fyrirtækja mælast nú ekki eingöngu í háu tækni- og þjónustustigi, heldur einnig hversu trúverðugt fyrirækið er sem siðferðisvera út á við.  Með þessu er ég einfaldlega ða segja að stjórnendur og eigendur fyrirtækja í upphafi sjöunda áratugarins voru ekkert göfugri eða betri en fyrirrennarar þeirra, sem kepptust við að framleiða vopn og drápstól, heldur réðu hin hreinu og köldu viðskiptasjónarmið ferðinni.

Ennfremur að grundvöllur fyrir vaxandi almennri siðferðiskennd og vitund sé ekki eingöngu sprottin af skorti og örbirgð heldur einnig af aukinni velmegun sem fyrirtækin og atvinnulífið áttu þátt í að skapa.  (innsk. mitt  ég hafði sannarlega trú á betri tíma þarna 1997)

Hin tæra siðfræði mun seint viðurkenna "siðvæðingu viðskiptalífsins" á þessum forsendum, en þegar horft er til þess hversu auðvelt er að sjá fyrir sér ógnun, atburði og aðstæður sem þurrka út á einnu nóttu, siðmeningu hverju nafni sem hún nefnist, skiptir hvatinn til betri breytni minna máli en afleiðingar breytninnar.

Andstæðir pólar

Félagshyggju- og markaðshyggju var lengi stillt upp sem gagnstæðum pólum og tilhneigingin að flokka hugmyndafræði félagshyggju í dyggðir, og markaðshyggju í lesti, óumdeild.  Fall kommúnismans og afhjúpanir spillingar og siðleysis, sem fylgdu í kjölfarið staðfestu enn frekar að hlutirnir eru hvorki alveg rauðir né alveg bláir.  Nú er erfitt að koma auga á skörp málefnaleg skil í stjórnmálum.  Flokkarnir eru sífellt að færast nær og nær og flestir viðurkenna nú að markaðslögmálin með hæfilegu samblandi af félagshyggju er líklegri til árangurs.  Sanngirni, réttlæti og fagleg sjónarmið láta ágætlega í eyrum af vörum þeirra, sem áður voru kenndir við eldrautt eða helblátt.

Mælistika á gott siðferði 

Heiðarleiki, sanngirni, virðing og ábyrg hegðun eru mælistikur okkar á gott siðferði.  Ábyrg hegðun gagnvart samfélaginu er sá þáttur sem sýnilegastur er út á við og keppast fyrirtæki nú við að undistrika ímynd sína sem ábyrgur þjóðfélagsþegn.  Í kjölfarið hlýtur svo krafan um gegnsæi og heilindi að baki ímyndarinnar.

Hin  jákvæða afleiðing af "meintum vafasömum" hvata til siðvæðingar viðskiptalífsins er sú þróun að almenningur gerir sífellt ríkari siðferðiskröfur til framámanna í pólitík og viðskiptalífinu.  Upplýsinga- og fjölmiðlabyltingin gerir þessum aðilum erfitt um vik að leika tveimur skjöldum og tvískinnungur er jafnvel litinn alvarlegri augum, en ef aðilar stíga á stokk og viðurkenna spillingu eða siðferðisbresti.  Umburðarlyndi mannsins gagnvart mannlegum breyskleika á sér lítil takmörk.  Á hinn bóginn er óhætt að fullyrða að umburðarlyndi gagnvart fyrirtækjum, stjórnmálamönnum og embættismönnum sé þverrandi og því eðlileg og skynsamleg viðbrögð þessara aðila að siðvæðast.

Í pólitík er siðferðisþrek og heilindi stjórnmálamanna jafnt í persónulegu sem opinberu lífi jafnvel gerð hærri undir höfði en leiðtoga- og stjórnunarhæfileikar þeirra og auðvelt er að sjá fyrir sér sambærilega þróun í viðskiptalífinu.  Á hinn bóginn verður að taka fullt mark á efasemdum og ábendingum Friedmans á þeirri augljósu hættu sem vofir yfir, ef ákvarðanir er varða velferðasamfélagið og þjóðfélagið taka of mikið mið af þröngum viðskiptalegum hagsmunum fárra og ekki síður þegar kjörnir fulltrúar, sem bera siðferðislega skyldu til að þjóna hagsmunum okkar fjöldans, þjóna í krafti valdsins, þröngum hagsmunum afmarkaðra hópa í þjóðfélaginu.

Sérstaða okkar

Færa má rök fyrir því að sérstaða íslensks viðskipta-og efnahagsumhverfis sé svo mikil, að hún gerir jafnvel ríkari siðferðiskröfur til ýmissa ákvarðana og viðskiptahátta.  Nægir í því sambandi að nefna; fámennið, kunningja- og klíkusamfélag og víkingauppruni.

Fámennið og örsmár heimamarkaður.

Í samanburði við aðrar þjóðir er Ísland örflaga og jafnvel sameinað fyrirtæki Ísland hf, væri flokkað í lítið eða meðalstórt á meðal hinna.  Miðað við ótrúlega fjölbreytta atvinnuflóru, fjölda fyrirtækja og stofnana gætu sumir jafnvel haldið því fram að eitthvað meira en lítið væri að hjá Hagstofu og manntalinu.  Miðað við umsvif ættum við að vera amk. 3 milljónir

Ættar- og fjölskyldutengsl, kunningja og vinatengsl og félaga og pólitísk tengsl að viðbættum óstjórnlegum áhuga og forvitni um hvernig þessum tengslum er háttað, skapa alltaf tortryggni við opinberar mannaráðningar og skipanir í stjórnir og ráð, sem gerir ríkari kröfur til faglegra sjónarmiða.

Víkingauppruni

Hinn blóðugi víkingauppruni okkar setur líklega einnig svip á þjóðareinkennið (innsk mitt lítið vissi ég þá) og skapar þannig ákveðna sérstöðu, sem almennt einkennist af vantrú á lögum og reglum, vantrausti á náungann en miklu sjálfstrausti, sjálfumgleði og þrjósku.

Hinn siðvæddi, vestræni heimshluti viðurkennir ekki lengur "survival of the fittest" í manneskjulegu tilliti.  Í viðskiptalífinu er þetta lögmál í fullu gildi.  Hámarkshagvkæmni, lögmál framboðs og eftirspurnar miðar alltaf að því að hæfustu fyrirtækin halda velli á kostnað hinna sem deyja.  Undir kjörorðinu " Evrópa fólksins" hefur ESB framleitt ógrynni af reglugerðum og tilskipunum sem allar miða að bærilegra lífi og lúta að heilsu, jafnrétti, atvinnuöryggi og umhverfismálum og stefna að því að láta fyrirtækin axla meiri ábyrgð. 

Enda þótt þátttaka okkar í EES þvingi okkur til að taka upp ýmis lög og reglur þá virðist gæta ákveðinnar tregðu og þrjósku við að bregðast við þeirri þróun sem er að verða í alþjóðlegu viðskipta- og stjórnmálalífi vegna vaxandi þrýstings frá almenningi.

Dæmi um þetta er hversu tregir æðstu stjórnendur, embættismenn og stjórnmálamenn eru þegar kemur að því að axla ábyrgð af gjörðum sínum og segja af sér hafi þeir brugðist.  Hér getur annað hvort verið um það að ræða að almenningur þrýstir ekki nóg á, almenningsálitið er ekki nógu kröftugt eða að musteri æðstu manna í toppstöðum sé svo skothelt að menn komast einfaldlega upp með hvað sem er.    Menn verða svo að meta það hver með sjálfum sér hvort er veikara, siðferði almennings eða kerfisins. 

Samkeppnislög eru í raun skráðar siðareglur viðskipta og miða ekki eingöngu að því að efla heilbrigði og siðferði í viðskiptum, heldur er markmið þeirra beinlínis að standa vörð um hagsmuni litlu fyrirtækjanna gegn þeim stærri, sem í krafti markaðsyfirráða njóta yfirburða í kapphlaupinu um að halda velli. 

Fákeppni

Fjárfestingaþörf í atvinnutækjum er mjög mismunandi milli atvinnugreina, en almennt má segja að eftir því sem fjárfestingatækin eru dýrari, því nauðsynlegra er að ná fram stærðarhagkvæmni í rekstri.  Við slíkar aðstæður ríkir fákeppni í atvinnugreininni.  Í langflestum greinum hér á landi ríkir fákeppni, enda mæla öll markaðsleg, skynsemis og hagkvæmnisrök fyrir því ef greinin á að standa undir sér.  Þróunin undanfarin ár hefur verið hröð í þá átt að knýja fyrirtæki  í samruna og samstarf og sameinaður opinn markaður og útrás íslenskra fyrirtækja á erlenda markaði hefur frekar hert á þessari þróun.

Því gætir ákveðinnar þversagnar þegar samkeppnisyfirvöld í ljósi þröngrar túlkunar á heimamarkaði, koma í veg fyrir og banna fyrirtækjum að sameinast eða eiga með sér samstarf um samnýtingu á dýrum tækjum, eins og mörg mál undanfarin misseri bera með sér.  Þannig stangast markmið samkeppnislaga á við markmið fyrirtækjanna um hagkvæmni og arðsemi með þeim afleiðingum að allir tapa og samkeppnisstaðan veikist.

Klíkusamfélagið

Ættar-kunninga og pólitísk tengsl og meint misnotkun þeirra til að öðlast frama eða fá óeðlilega fyrirgreiðslu er hávær í íslensku þjóðlífi. 

Á sama tíma og siðferðiskennd okkar í þessu tilliti er að aukast, m.t.t opinberra mannaráðninga og vaxandi óþoli gagnvart fyrirgreiðslupólitík, verðum við líka að forðast tvískinnunginnn sem alltaf kemur upp þegar ráðið er í feitar stöður.  Tengsl- og kunningsskapur er óhjákvæmileg staðreynd í íslensku samfélagi.  Öll samskipti viðskipta og þjóðfélagslegs eðlis verða að taka mið af þessu.

Við þurfum að standa klár á hinum ólíku hlutverkum okkar, sem yfirmaður, starfsmaður, foreldri, ættingi, vinur, keppinautur, samstarfsaðili og pólitískur samherji, því leiðir okkar eru alltaf að skarast og oft á tíðum eru það sömu einstaklingarnir sem koma við sögu.

Trúverðugleiki okkar sem einstaklinga miðast við hversu miklum samhljómi okkur tekst að ná í ólíkum hlutverkum og þar koma siðferðisrök sterkt við sögu. 

Með viðskiptarök og fagleg sjónarmið að leiðarljósi, er hæfasti einstaklingur ráðinn, hagkvæmasta verð, ásaættanleg gæði og góð þjónusta ráða vali okkar á birgja og samstarfsaðila og með siðferðisrökin: sanngirni, heiðarleika og gagnkvæma virðingu að leiðarljósi, er komið ágætis samskipta og ákvarðanamódel í ólíkum hlutverkaleikjum án tillits til persóna, leikenda og pólitískra skoðana þeirra. 

Á sama hátt og Friedman dregur í efa hæfi viðskiptalífsins til þjóðfélagslegra ákvarðana, má draga hæfi stjórnmálamanna til viðskiptalegra ákvarðana, s.s. mannaráðninga í efa, enda ljóst að pólitísk afskipti af slíkum ráðningum eru í fullkominni óþökk viðkomandi umsækjanda.

Hugsunar og hegðunarmynstur  þjóðfélagsins endurspeglar hið sameiginlega siðferði okkar.  Við tökum öll þátt í að móta það með ólíku gildismati, viðhorfi, fordómum og hrokafullri afstöðu til manna og málefna.  Það er auðveldara að fella dóma en finna úrlausn.  Umræðan um siðferðismál ber of mikinn keim af fortíðinni og réttlæting gjörða tekur of mikið mið af gömlum siðum og venjum og hvernig aðrir hafa komist upp með vafasama hluti í fortíðinni.  Slík umræða kemur okkur ekki úr spori í átt til betra siðferðis.

Lokaorð

Ég er almennt á móti því að rígbinda allt í lög og reglur.  Lög og reglur þurfa að vera einfaldari en umfram allt sanngjarnar.  Skráðar reglur og lög segja auk þess oft meira um hvað sé bannað fremur en hvað sé leyft.  Í hugum margra ber það líka vott um útsjónarsemi og töffaraskap að finna lagasmugur til að komast hjá lögum, boðum og bönnum.

Í sjö siðfræðilestrum lýsir Páll Skúlason  höfuðeinkennum siðareglna þannig: " þær eru í eðli sínu óskráðar rétt eins og reglur tungumálsins, við lærum þær líka með sama hætti og við lærum tungumálið.  Siðareglur eru óháðar einstaklingunum og eiga rætur sínar í þeirri einföldu staðreynd að við deilum lífinu og erum knúin til að taka tillit hvert til annars, það er við þurfum að læra að vera sanngjörn í samskiptum okkar við aðra"

Nú hafa ýmsar starfsgreinar skráð sérstakar siðareglur fyrir sína starfstétt. Í flestum tilfellum eru þessar reglur óháðar fyrirtækjum og varða starfstéttina í heild og uppfylla þvi skilyrði siðareglna að því leyti.  Skráðar siðareglur einstakra fyrirtækja eru hins vegar vafasamar á þeirri forsendu að þær geta verið ólíkar eftir eðli og starfsemi fyrirtækjanna og ennfremur geta þessar reglur aldrei náð yfir öll siðferðisleg álitamál sem upp koma.

Á hverjum degi eru starfsmenn og stjórnendur að taka siðferðislegar ákvarðanir.  Stöðugar umræður og pælingar eftir eðli álitamála þurfa að fara fram, þróunin er ör og sífellt eru að koma upp mál allstaðar í þjóðfélaginu þar sem ólíkar afstöður og viðhorf koma fram, sem ósjálfrátt styrkir eða veikir siðferðisvitund. 

Skráðar reglur hafa hins vegar tilhneigingu til að öðlast sjálfstæðan tilverurétt og geta þannig hvítþvegið einstakt mál á augabragði, einfaldlega af því að skráningin nær ekki til þessa einstaka tilviks.

Lykilatriði og grundvallarforsenda fyrir bættu siðferði í þjóðfélaginu er að fordæmi sem aðilar í ábyrgðar og lykilstöðum í þjóðfélaginu sýna með breytni sinni í siðferðislegum álitamálum.

Mér hefur orðið tíðrætt um mjúkt og hart í þessu erindi.  Þess vegna þykir mér við hæfi að ljúka því með einföldum sannindum Lao Tse:

Hið mjúka vinnur bug á hinu harða,

og hið veika á hinu sterka.

Þetta vita allir,

en enginn breytir samkvæmt því.

Málþing Siðfræðistofnun Háskóli Íslands, 3. október 1997

Jenný Stefanía Jensdóttir

 

Eftirmáli:  Sjálfri fannst mér gott að lesa þetta erindi aftur, einskonar sjálfstyrking og uppljómun ef ég hef einhvern tíma verið í vafa um "adrenalínóþol" mitt gagnvart núverandi ástandi á Íslandi, þá er það meðfætt.  Svona hugsaði ég fyrir 30-20- 13 árum og svona hugsa ég enn. 

En ég spyr mig:  "Hver fjandinn gerðist þarna á eyjunni minni bláu" eftir að ég flaug á brott 1998.  Um það og aðra hluti hef ég verið andvaka og párað  rúmlega 200 pistla síðan búsáhaldabyltingin varð fyrir réttu ári síðan.

Baráttukveðjur hér eftir sem hingað til.

3220374250_857e58d902

 

 

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband