Færsluflokkur: Utanríkismál/alþjóðamál

Með glóandi hjörtu af þjóðernisást og stolti.

Þá er Olympíuleikunum í Vancouver lokið með stórkostlegri lokunarhátíð, þar sem "landar" mínir, klikkuðu ekki á að gera góðlátlegt grín af sjálfum sér, og lýstu þjóðareinkennum sínum "sorry that we are not frozen tundra" á beittan en skemmtilegan hátt, með sitt fræga "eyh" í endann.

Stórkostlega gaman að fylgjast með, taka þátt og hrífast með þessa 17 daga, og hámark hamingjunnar var sigur hockey liðsins yfir "erkivinunum" sunnan landamæra.

2010-olympics.jpg

Kanadamenn eru yfir höfuð, sérstaklega gott og vingjarnlegt fólk.  Afburðavinir vina sinna, kímnigáfan mér að skapi, þykja ekkert að því að gera grín að sjálfum sér, löghlýðið og öll umgjörð þjóðfélagsins fyrirsjáanleg og reglubundin.

Þeir eru hógværir, og eru ekkert mikið að berja sér á brjóst, eða þykjast vera stærri og meiri en þeir eru.  Þess vegna kom það öllum og jafnvel forseta Olympíusambandsins jafnmikið á óvart, hversu þjóðernisástin og stoltið óx með degi hverjum. 

 

Flöggin, rauða andlitsmálningin, allur rauði og hvíti fatnaðurinn og já svo var þjóðsöngurinn kyrjaður hvar sem tveir eða þrír komu saman.

Svona geta íþróttir farið með fólk.  Hörðustu naglar tárast af eintómri gleði, en líka af umhyggju og samhyggð með þeim sem ekki gengur eins vel.

Íslendingar eiga örugglega auðvelt með að setja sig í þessi spor.  Ég var stödd á Íslandi, þegar handboltaliðið íslenska gerði sína frægðarför í Bejing 2008.  Það voru ógleymanlegar gleðistundir, og gaman að finna samgleðina og samkenndina sem alls staðar ríkti.

Þess vegna eru svona íþróttamót mikilvæg.  

Af því að maður er kominn með fallega kanadíska þjóðsönginn á heilann, læt ég hann fylgja hér með.

 4954canadian_flag_m15.jpg

O Canada!
Our home and native land!
True patriot love in all thy sons command.

With glowing hearts we see thee rise,
The True North strong and free!

From far and wide,
O Canada, we stand on guard for thee.

God keep our land glorious and free!
O Canada, we stand on guard for thee.

O Canada, we stand on guard for thee.

 

 

 


Undarleg er íslensk þjóð!

Fall 2009 159

Ég var meðal stórmenna í dag, lífs og liðinna.

Sá sem liðinn er,  orti svo;

Undarleg er íslensk þjóð!

Allt, sem hefur lifað,

hugsun sína og hag í ljóð

hefur hún sett og skrifað.

Hlustir þú og sé þér sögð

samankveðna bagan,

þér er upp í lófa lögð:

landið, þjóðin, sagan.

Stephan G. Stephansson Klettafjallaskáld 1853-1927

Stefán Guðmundur Guðmundsson (Stefánssonar), var aðeins 19 ára gamall þegar hann sigldi vestur um haf með fjölskyldu sinni til Wisconsins 1873.  Stefán var sjálfmenntaður, og gerðist  harðduglegur bóndi þegar hann flutti til Markerville, í Alberta fylki í  Kanada í skjóli hinna fögru Klettafjalla 1889.  Það er eiginlega með ólíkindum að Kanada og Alberta fylki, hafi í rúm 100 ár heiðrað þetta mæta ljóðskáld, sem aðeins orti á íslensku, ljóð sem snerta hárfína strengi í hjörtum okkar allra, og ekki síst þeirra sem fetað hafa í fótspor Stefáns.  Með ólíkindum segi ég, vegna þess að Ísland og íslensk tónskáld virðast ekki hafa lagt höfuðið mikið í bleyti við að semja lög við öll þessi dásamlegu, ættjarðarástarljóð Stefáns, nema kannski eitt: 

Þótt þú langförull legðir, sérhvert land undir fót, sem Sigvaldi Kaldalóns gerði víðfrægt.

 Fall 2009 154 Fall 2009 150

Eitt er það sem heillar mig persónulega við Stefán G. Stefánsson að frásögðum fádæmum tökum á íslenskri tungu, sem birtust í aldagömlum ljóðum hans, og gætu allt eins verið samin í gær; Hann bar einlæga virðingu og barðist fyrir jafnrétti kynjanna  (fæddur 1853) og sagði alltaf hug sinn, hversu fjandans óþægilegur hann var fyrir hlustandann hverju sinni.  Segir mér eitt;  að Helga, móðir Stefáns hafi verið væn, víðsýn og skörungur mikill af afburðum, sannarlega. 

 

 

 

Lifandi stórmenni sem ég var á meðal í dag, var minn "gamli" prófessor (hann vill frekar að ég segi ungi) Þorvaldur Gylfason, sem hélt fyrirlestur í gær hjá Leif Eriksson Íslendingafélaginu í Calgary.  Þorvaldur hélt langan og magnþrungin fyrirlestur sem bar yfirskriftina:  " Iceland in Crisis: From Boom to Bust, Big Time." og ekki að óvörum, var ekkert dregið undan.  Sannleikurinn birtist frostkaldur, í ótal gröfum og súluritum sem Þorvaldur studdist við.   Fátt kom svo sem á óvart, enda er ég með þumalinn í fatla eftir áralanga púlstöku á íslensku hagkerfi, þó öllu átakameiri síðasta ár.

Fall 2009 146Súlurit sýnir hvers vegna nauðsyn var að efla gjaldeyrisforða Seðlabankans í samræmi við skammtímaskuldbindingar ísl. bankanna, og hversu viðkvæm íslenska krónan var orðin fyrir skortstöðusnákunum.  Seðlabankinn miðaði hins vegar gjaldeyrisforða sinn við "3ja mánaða innflutning"

Dr. Hallgrímur Benediktsson íslenskur konsúll í Calgary, sem hefur búið í Kanada ásamt Guðrúnu eiginkonu sinni og 4 börnum í rúma tvo áratugi, átti veg og vanda að skipulagningu dagskrárinnar og gat með töfrasprota látið opna "Stefáns hús" sem annars er opið alla daga yfir sumartímann, á þessum frostkalda haustdegi, fyrir stórmenni á borð við Þorvald Gylfason frá Íslandi, sem hefði næstum því orðið Vestur-Íslendingur ásamt föður sínum og bræðrum, ef afi hans, Þorsteinn Vilhjálmur Gíslason (1867-1938) hefði sagt "já takk" og þekkst boð um að gerast ristjóri Íslendingarits í Winnipeg.

Þorvaldur, spilaði frumsamið lag á alkulstillt píanóið í Stefánshúsi, en sagan hermir að Rósa dóttir hans hafi haldið tónleika fyrir sveitunga, í gegnum sveitasímann á veggnum við hliðina á píanóinu. 

 Fall 2009 155

Hallgrímur spilaði síðan lag Sigvalda Kaldalóns við ljóðið; Þótt þú langförull legðir, af miklum mætti.  Það var stórkostlegt að sjá skrifstofu Stefáns, púltið hans og þann heiðursess í húsinu, sem hann lét þessari list sinni í té, samt var hann hörkubóndi sem gekk til verka af krafti og dug, en skrifaði seinna kvölds og fram á nætur.  Stefán G hefur líklega verið B maður, því hann gat vakað heilu næturnar við skriftir.

Ég er þakklát Þorsteini V Gíslasyni að flytja ekki til Kanada, það hefði ekki verið "good move" fyrir Ísland, og fyrir mig allra sízt, sem hef á einn eða annan hátt upplifað son og sonarsyni, sem áhrifavalda í mínu lífi.  Gylfi Þ Gíslason og hans hógværa "tak skal du har", þegar hann tók við handritunum 21 apríl 1971 er meiriháttar dejavu í æskuminningunni. 

Nokkrum árum seinna "meitlaði og skar"  Vilmundur Gylfason örstuttan spillingarþráð í unglingstúlku, sem hreifst með og horfði á hann afhjúpa og fjalla um spillingu þess tíma. 

 

Seinna, löngu seinna naut ég kennslu Þorvaldar í hagfræðikúrsum, sem var skyldufag (sigh)  í macro economics, en opnaði augu og skilningarvit stelpunnar sem ætlaði bara að læra og lærði micro economics.

Fall 2009 143

 

Í kirkjugarðinum þar sem Stefán og afkomendur hans hvíla, eru margar  fagrar grafskriftir:

Ættjarðar böndum mig grípur hver grund

sem grær kringum Íslendings bein   St.G.St

Fall 2009 160

Úr Eftirköst .....  eftir Stephan G Stephansson

Hámenntaða virðum vér

vora lærdómshróka,

sem eru andleg ígulker

ótal skólabóka.

Þitt er menntað afl og önd,

eigirðu fram að bjóða:

hvassan skilning, haga hönd,

hjartað sanna og góða.

 


EFTA Samningur KANADA

Í dag 1.júlí á  þjóðhátíðardegi Kanada gengur í gildi samningur milli Kanada og Efta ríkjanna um tollfrjáls viðskipti.705px-Canada_flag_map_svg

Á fundi hjá Útflutningsráði í byrjun júní s.l. hélt ég erindi um viðskiptaumhverfið í Kanada

Hér er úrdráttur:

Kanada er vissulega stórt land að flatarmáli, með um 100 sinnum fleiri íbúa en Ísland en 10 sinnum færri en USA. 

Landið skiptist niður í 10 fylki og 3 eins konar svæði. Í vestur Kanada búa um 10 milljónir og í austur sem telur Ontario og Quebec eru tæplega 21 milljón.  Litlu fylkin við Atlantshafið hafa um 2 milljónir íbúa.   Það er athyglisvert að 90% íbúanna búa í innan við 160 km fjarlægð frá bandarísku landamærunum.   Landið er því þéttbýlla en stærðin segir til um, en landrými er aldrei takmarkandi þáttur, það er nóg pláss og vítt til veggja.    

Þrátt fyrir stærð landsins, með gífurlegar náttúruauðlindir flæðandi um allt, verður alls ekki vart við neinn mikilmennskuhroka.  Þvert á móti einkennist viðskipta- og mannlífið af umburðarlyndi, virðingu og sanngirni sem pakkað hefur verið saman í vel skilgreindan lagaramma með ótal reglugerðum en háu flækjustigi  að vísu,  en gífurlega öflugu og sýnilegu eftirlitskerfi. 

Gegnsæjar leikreglur og eftirlit setur fyrirtækjum  skorður  en eykur jafnframt  sannfæringu og vissu um að samkeppnisforskoti  sé náð á eigin verðleikum  fyrirtækjanna, en ekki regluverksins eða  klíkuskapar.   

EINKENNI VIÐSKIPTAUMHVERFISINS

Lítil og meðalstór fyrirtæki sem skv. skilgreiningu í Kanada eru fyrirtæki með færri en 100 starfsmenn eru samtals rúmlega 1 milljón eða 98% af öllum fyrirtækjum í Kanada.    Þessi þróun  er meðvituð og studd dyggilega af ríkis og fylkisstjórnum. 

Lítil og meðalstór fyrirtæki skapa líka um 80% allra nýrra starfa, og njóta því sérstakrar velvildar Ríkisins, sem leggur áherslu á að búa þessum fyrirtækjum hagstæðara skattaumhverfi og reynir að draga úr íþyngjandi reglum, sem annars gilda hjá „stórfyrirtækjunum“.     

Það má því með sanni segja að yfirvöld í Kanada líta svo á að „minna sé meira“ sem er sérlega hagfellt fyrir frumkvöðla  og viðskiptaaðila sem vilja freista gæfunnar í landinu, og  því engin ástæða til neinnar minnimáttar í samskiptum þar.Kanadamenn eru sérstaklega vinsamlegir og umburðarlyndir. 

Þeir eru stoltir af uppruna sínum sem í flestum tilfellum er frá Evrópu, og sýna einlægan áhuga og virðingu á uppruna og „hreim“ samborgara sinna. Stundum er Kanada líkt við bullandi menningarpott, því þjóðarbrot þar eru líklega flest í heimi, þar með opinberlega talið í manntali 2006 90.000 Íslendingar.     Þetta sterka  fjölþjóðaeinkenni skýrir líklega hið mikla umburðarlyndi gagnvart „sterkum hreim“, sem Kanadamönnum finnst skemmtilegt og forvitnilegt, kannski ólíkt viðhorf en sunnan landamæra.

Mér er það minnistætt, í viðskiptadeildinni í gamla daga, þegar við vorum að stúdera  fullkomna samkeppni, fákeppni, einokun og allt þar á milli. Þá var „fullkominn markaður“ varla til nema í fræðibókum, enda ekki líklegt að „allir hagi sér skynsamlega alltaf, og allar upplýsingar um vörur og verð liggi fyrir, ókeypis á sama tíma alltaf“.   

Eftir kynni mín af smásölumarkaði í Kanada er skemmtilegt að segja frá því að mér finnst hinn fullkomni markaður ekki vera eins „fræðilega óhugsandi“  og þá.  Markaðurinn einkennist af gífurlegri samkeppni, miklum ókeypis upplýsingum og síðast en ekki síst, sterkri markaðs- og verðvitund  viðskiptavina og þokkalegri  kaupgleði, sem hefur þó mikla teygni við almennt efnahagsástand í landinu. 

KREPPAN

Kanada er algjörlega sjálfbært land vegna gífurlegra náttúruauðlinda.  Öfugt við sum önnur lönd, sunnan landamæra og handan hafs, verður ekki hægt að draga stjórnvöld eða bankastofnanir  í Kanada til ábyrgðar á kreppunni.    

Þvert á móti er eitt af einkennum bankakerfisins og efnahagsstjórnunar; ofur- varfærni í útlánum, sterkar reglugerðir og lagaumhverfi, öflugt eftirlitskerfi  og halli á fjárlögum hefur í augum stjórnvalda verið sjóðheitur grautur sem þau hafa forðast markvisst með því að reka  hallalaus fjárlög 10 ár samfellt 1997-2007. 

 Reyndar  lét Harper undan gífurlegum þrýstingi fyrr á þessu ári og hefur boðað hallarekstur nk 2 ár,  í því skyni að örva efnahagslífið og milda kreppuáhrif, sem má fyrst og fremst rekja til eftirspurnarkulnunar og gífurlegs samdráttar í Bandaríkjunum sem gleypir 84% af öllum útflutningi landsins. 

Nú mælist atvinnuleysi í Kanada 8%, mismunandi þó í fylkjum,  hæst í Atlantshafsfylkjum og lægst í sléttufylkjunum Saskatchewan og Manitoba.  Atvinnuleysi tók að vaxa á þessu ári úr 5,8% sögulegu 33 ára lágmarki 2007 um 2 prósentustig. Þetta er þó ekki samanburðarhæft við 8-10% atvinnuleysi á Íslandi, sem fer úr skorti á vinnuafli í 8-10% á örfáum mánuðum. 

 Það skiptir því máli að huga að „náttúrulegu“ atvinnuleysi í landi þegar samanburðartölur eru skoðaðar.

Sú stofnun sem flestir elska að hata, og aðrir hata að elska  „Alþjóðlegi gjaldeyrissjóðurinn“ sendi nýlega frá sér það stöðumat, að þeir teldu að áhrif kreppunnar myndi vara styst í Kanada og þeir myndu verða fyrstir til að rétta úr kútnum, þegar hagkerfi heimsins fara að snúast á rétta sveif.  Ástæða þessara ummæla má fyrst og fremst rekja til þeirrar varfærni sem bankakerfið hefur sýnt, og sterkri efnahagsstjórn.

Nú í lok maí eru farin að sjást ýmis glætumerki, sem auka bjartsýni manna um að áætlanir um viðsnúning efnahagslífsins muni nást á 3ja ársfjórðungi 2009. 

Gengi $ dollar sveiflast m.a. með heimsmarkaðsverði á hráefnum, eins og olíu.  „Kjarnaverðbólga“ í Canada mælist 2% sem er í samræmi við verðbólgumarkmið, en kjarnaverðbólga mælir hækkun almenns verðlags á ársgrundvelli, án matvöru og orku, en hækkun á þeim er háð „óstjórnanlegum utanaðkomandi áhrifum“  og hækkun matvöru á ársgrundvelli er 7,5% núna í maí, einkum vegna gengisfalls Canada$ frá pari við US um áramót niður í 80 cent,  en á móti hefur orka lækkað um 11,2%.  Síðasta uppfærða áætlun um hagvöxt 2009  gerir ráð fyrir  3% samdrætti.

Tækifæri fyrir íslensk fyrirtæki í Kanada

Með þá góðu hófsömu speki að leiðarljósi  „ að minna er meira“, er ljóst í mínum huga að tækifæri fyrir íslensk fyrirtæki og athafnafólk eru óþrjótandi í Kanada. 

 Fyrirtækið sem ég starfa við  kaupir t.d. alla hugbúnaðarþjónustu á tölvukerfum okkar frá Íslandi.  Það er ekki af þjóðarrembingi einum saman, því við höfum sannarlega reynt að færa hugbúnaðarþjónustu nær í tíma og rúmi. 

Staðreyndin er að þeir sem við höfum reynt að nota, komast seint með tærnar þar sem íslenskt hugbúnaðarfólk hefur hælana, í faglegri þekkingu og umfram allt „yfirsýn“ á möguleikum og notkun á þeim kerfum sem við notum. Ég tel að styrkur okkar í þessum geira felist einmitt í „fólksfæðinni“ og þeirri heildaryfirsýn sem hver og einn þarf að tileinka sér, á meðan mannfrekari hugbúnaðarfyrirtæki státa af „sérfræðingum“ á hverju þrepi, sem birtist þannig að það þarf 5-7 manna kanadískt teymi að koma að einfaldri breytingu, á meðan íslenskur hugbúnaðarnörd gerir það einn og óstuddur, á miklu skemmri tíma. 

Ég blæs á allar bábiljur um tímamismun, því oft  þegar send er skilgreining á vandamáli í kerfinu í eftirmiðdag á Kyrrahafsströnd, þá er vandamálið leyst þegar komið er til vinnu morguninn eftir.  Með því að reyna að forðast efstastig lýsingarorða eins og mikill og stór, en leggja meiri áherslu á „gæði“ og frumkvæði eru okkur allir vegir færir miðað við höfðatölu.

Þannig er hægt að sjá fyrir sér:   66 Norður, skapa sér verðugan sess við hliðina á North face og Columbia í vetrar og hlífðarfatnaði.  Var stödd í New York í Janúar s.l. þegar þeir voru að draga flugvél Sullenberger upp úr Hudson ánni.  Það var 25 stiga frost á Manahattan og ég skartaði fallegri loðhúfu frá 66 og lúffur í stíl, sem annar hver maður sem ég mætti hafði þörf fyrir að tjá sig um og öfunda mig af.  Margir spurðu hvar ég hefði fengið fengið þetta.  

 Niðurstaða mín eftir þessa helgi var að ég hefði getað selt þessar húfur og lúffur í stíl  í gámavís í garranum þarna á Manhattan.  Vetrarhörkur í miðríkjum Kanada eru ótrúlegar, frostið fer niður í rúm 40 stig á celcius. 

Ég er persónulega haldin þráhyggju og ofsatrú á íslenska vatninu, lýsinu og geninu, og ég tel að sú sérstaða sem náttúran, fiskurinn og  fámennið sem við njótum, muni reynast okkur dýrmæt þegar allt kemur til alls.

Þegar ég ætla að hafa íslenska kjötsúpu eða lambalæri í matinn, kaupi ég gaddfreðið lambakjöt frá Ástralíu á  16-1800 kr.kg.  Framleiðslugeta íslensks landbúnaðar er of takmörkuð til að herja á stórverslanir, en örugglega nægjanleg fyrir nokkrar veitingahúsakeðjur.  Norður-Ameríka snobbar soldið fyrir Evrópskri hönnun í fatnaði, húsbúnaði og matvælum ýmis konar, á nákvæmlega sama hátt  og Ameríka snobbar fyrir evrópskum og japönskum bílum.

Ég held þetta kallist að leita langt yfir skammt .... eða grasið sé grænna hinum megin og fjarlægðin gerir fjöllin blá.  Við eigum að notfæra okkur þetta Evrópusnobb og ekki síður þá sérstöðu sem hreina Ísland í orku og vatni skapar okkur, og kannski sýnir Kanada okkur meiri skilning gagnvart þeirri markaðsniðurbrotsstarfsemi sem „hvalveiðar Íslendinga“ hafa í för með sér víða um heim, nú þegar landsstjórinn sjálf borðaði hrátt selshjarta fyrir framan myndavélar og fjölmiðla í vikunni, til þess væntanlega að storka ESB sem hefur bannað innflutning á selaafurðum frá Kanada.

Gotterísfrömuðir gætu útvíkkað þá sérstöðu íslenskra páskaeggja að hafa skemmtilegan málshátt inní litlu páskaeggi, ja eða hol súkkulaðihjörtu með ástleitnum játningum fyrir Valentínusardaginn og svona mætti lengi fara á í heilaflug, með það að markmiði að minna er meira.

Áfram Ísland. 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband