19.4.2013 | 23:01
Langrætnasta skuldaniðurgreiðsluleið heimilanna!
Frá mínum bæjardyrum séð, úr skjóli Klettafjalla, var sú ráðstöfun að seilast í séreignarsparnað landsmanna með því að "leyfa" innlausn til niðurgreiðslu uppsprengdra skulda, forkastanleg frá öllum hliðum.
Framlengingu á þessari forherðingu, má m.a. finna í tillögum Sjálfstæðisflokksins um lausnir heimilanna. Þar sem þeir "bjóða" skattaafslátt af niðurgreiðslu skulda með séreignasparnaði.
Það hefur verið öllum ljóst, sem vilja vita að lífeyrissjóðakerfið okkar, mun ekki geta staðið undir skuldbindingum sínum, þegar "babyboom" kynslóðin bankar upp á.
Hagfræðistofnun Háskólans gaf út skýrslu fyrir ári síðan um áhrif þess að lækka höfuðstól húsnæðislána um 10-25%, fróðleg skýrsla. Fjallað var um margvísleg áhrif sem almenn niðurfelling/ niðurfærsla lána hefði á ýmsar stoðir í þjóðfélaginu.
Ein af þessum stoðum er lífeyrissjóðakerfið. Öll áföll sem lífeyrissjóðir verða fyrir, hafa áhrif á a) réttindi núverandi lífeyrisþega og/eða b) framtíðarréttindi lífeyrisþega.
Gríp hér niður í skýrsluna : "Áður en stokkið er til þess að færa lánin niður verður þó að gæta að því að lífeyrissjóðakerfið er veikt af ýmsum tæknilegum (sic*, innssk.mitt) ástæðum."
- Flesta sjóði skortir á að geta staðið undir skuldbindingum. Halli um 8% að meðaltali þýddi að lífeyrisaldurinn þyrfti að hækka um rúmlega 2 ár. 69,5 ár
- Meðalævin lengist, en lífeyrissjóðirnir taka ekki mið af því heldur úreldum ævilengdartöflum. Ef notaðar eru réttar töflur þyrfti lífeyrisaldurinn að hækka um 1,5-2 ár. 71 ár
- Ávöxtun lífeyrissjóða til framtíðar er óvissu háð, en reiknað er með 3.5% á ári að meðaltali. Lækki hún t.d. niður í 3%, þyrfti lífeyrisaldurinn að hækka um 1,5 ár 72,5 ár
- 25% lækkun lána lífeyrissjóða jafngilti u.þ.b. 4ja mánaða hækkun lífeyrisaldurs 73 ár
Sparnaður á Íslandi hefur alltaf verið í hættulegi lágmarki, þar til séreignalífeyrissparnaður komst á koppinn.
Í rússíbanahagkerfinu á nú að seilast í þennan sparnað líka, svo tryggt sé að enginn peningur liggi hultur.
Geðvonskan og stuttur sprengiþráður hjá fólki út um allar íslenskar koppagrundir á sér líklega margar ástæður, en þessi væri ein af þeim.
Gleðilegt er þó að greina frá því að heldri borgarar í sundlaugunum á morgnana eru sérlega lífsglöð og líkamlega vel á sig komin kynslóð, stutt í brosið og hnyttnina, þó flestir hafi hryggðarsögu að segja af nánustu afkomendum vegna þessa "svokallaðs" hruns.
Stefna Lýðræðisvaktarinnar í málefnum lífeyrissjóða:
Nauðsynlegt er að endurreisa traust almennings á lífeyriskerfinu. Auka verður kröfur um fagleg vinnubrögð og gegnsæi í störfum lífeyrissjóða. Treysta verður skilyrði þeirra til að ávaxta fé sjóðsfélaga svo hægt verði að bæta kjör lífeyrisþega. Samræma þarf lífeyrisrétt milli hins almenna vinnumarkaðar og opinbera geirans. Girða þarf fyrir hættuna á að lífeyrissjóðir verði ríki í ríkinu í krafti eignarhalds á fyrirtækjum. Lýðræðisvæðum lífeyrissjóði með beinni aðkomu almennra sjóðsfélaga að vali forsvarsmanna. Gleymum því ekki að lífeyrissjóðir eru eign almennings.
- Afnám forréttinda
Endurskoða þarf lífeyrisréttindi alþingismanna, ráðherra, hæstaréttardómara og forseta Íslands til að tryggja samræmi við réttindi annarra hópa, svo að enginn njóti eftirleiðis ávinnings af því kerfi mismununar og forréttinda sem verið hefur við lýði í lífeyrismálum.Lýðræðisvaktin vill afnema
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.