Okkar elstu bræður og systur!

Það er alveg sérlega ógeðfellt þegar komið er illa fram við börn og aldraða.

Báðir þessir aldurshópar eru oftast viðkvæmir vegna trúgirni sinnar og bjargfastrar trúar á þá sem ráða og eiga að ráða þeim heilt.

Heilindin og heiðarleikinn er hvergi tærari en meðal þessara aldurshópa.  Særindin og angistin verður heldur aldrei eins áþreifanleg, þegar gert er á hlut þeirra.

Heldri borgari sagði sögu sína í Kastljósi í kvöld, þar sem hann keypti "afnotarétt" í íbúð, gegn því að fá stofnfé endurgreitt við flutning eða dauða.  

Hann talaði alltaf um gamlingja, sem er óþarfi, hann og hans kynslóð eru heldri borgarar og ættu að njóta skilyrðislausrar og oggulítið æðri virðingar en aðrir  í þjóðfélaginu.  Nú sér hann fram á að hafa tapað öllu stofnfénu, og enginn hefur enn verið dreginn til ábyrgðar, enda málið órannsakað þannig að dómtækt sé. 

Núverandi stjórnarformaður Eirar er skv. heimasíðu hans ;" Fv. ráðherra, seðlabankastjóri, formaður Framsóknarflokksins og rektor"  og var reyndar ráðherra á meðan 42. greinin var numin úr gildi 2007.  

Sú grein hefði ekki heimilað sölu "afnotarétts" (vegna þrýstingar frá Grund ?)  þannig að hægt var að tryggja fjármögnun á 200 íbúðum með því að veðsetja þennan rétt, á sama tíma og fasteignamarkaðurinn á Íslandi var að falla helfrosinn til botns.

Kastljósmenn reyndu að sveifla "hagsmunaárekstraflagginu" sem blaktir oftast við hún í íslenskri stjórnsýslu og er akkilesarhællinn, þegar kemur að siðferði í stjórnsýslu.     Stjórnarformaðurinn svaraði fullum hálsi, að hann hafi verið beðinn um þetta, þannig að skilja mátti að sú beiðni innfæli hlutlægni gagnvart hagsmunaárekstrum.

Þessi rök um óhæði, myndu ekki halda hjá alþjóðlegum stofnunum sem gera út á að meta heilindavísa (integrity indicators) í stjórnsýslu.   Hefur ekkert að gera með faglega þekkingu og hæfni viðkomandi, sem margir vilja oft rugla saman, þegar umræðan um hæfi vegna hagsmuna er tekin.

Stjórnarformaðurinn  staðfestir sjálfur í viðtalinu að rannsókn þyrfti að fara fram á því hvernig eignaupptaka hjá heldri borgurum í góðri trú átti sér stað.    Stjórnarformaðurinn  er auk þess  býsna brattur þegar hann næstum fullyrðir að stofnfé þess muni ekki tapast, þrátt fyrir að félagið sé nú í greiðslustöðvun og horfur slæmar.

Ég vona sannarlega að brugðist verði skjótt og vel við þessum orðum stjórnarformannsins, sem ráðinn var, eftir að  hrunstjórn Eirar og framkvæmdarstjórn  fór frá, og að hann geti staðið við stóru orðin líkt og eftirmaður hans sem formaður flokksins og er að taka við forsætisráðherrakeflinu.  

Kynslóðin sem þarna býr, fæddist í kreppu og  eru blóðið, svitinn og tárin sem kom okkur hingað. 

Sýnum þeim þá virðingu sem þau eiga skilið, og oggulítið betur! 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband