Kusk á kósakkaflibba

Ósjálfrátt  veltir maður  því fyrir sér hvort eitthvað annað en andúð á fyrirlitningu rússneskra yfirvalda  í garð samkynhneigðra, eigi sök á því að helstu þjóðarleiðtogar hafa ákveðið að sniðganga leikana í Sochi.

 

sochi-winter-olympics-2014-main-image

Forsetinn ætlar að hunsa þessa sniðgöngu og mæta með frú og fylgdarliði. 

Þetta munu vera fimmtu vetrarólympíuleikar í forsetatíð hans, hverjum  hann hefur aldrei séð ástæðu til að heiðra með nærveru sinni fyrr en nú, þrátt fyrir að vera liðtækur skíðamaður og áhugamaður um vetraríþróttir?

 

 

Vera kann að mál Sergei Magnitskys, uppljóstrarans sem dó í rússnesku fangelsi í lok nóvember 2009 af völdum brisbólgu, gallsteinastíflu,  harðræðis og barsmíða, sé þungur dropi í bakkafullan bikar umburðarlyndis vesturvelda gagnvart meintum mannréttindabrotum og spillingu í gamla keisaraveldinu.

Hinn 37 ára gamli lögfræðingur Sergei Magnitsky hafði verið í fangelsi í 358 daga, þegar hann lézt, aðeins 7 dögum skemur en leyfilegt er að hneppa fólk í fangelsi án dóms og langa.  Mannréttindaráð í Kremlin úrskurðaði að Magnitsky hafi líklega verið barinn til dauða og neitað um læknisaðstoð.

Saga Sergei er með ólíkindum, og fordæmalaus  einkum vegna þess að rúmlega þremur árum eftir dauða hans, í júlí 2013, var Sergei fundinn sekur um skattsvik í Moskvu, atburður sem talinn er tengjast ágreiningi milli Rússlands og Bandaríkjanna, vegna hinna svokölluðu Magnitskys laga, sem sett voru í Bandaríkjunum 2012, til að koma í veg fyrir að opinberir rússneskir embættismenn, sem tóku þátt í $ 230 milljóna skattsvikum að koma til Bandaríkjanna eða að eiga hvers kyns viðskipti þar.    

Drepinn fyrir að standa upp gegn spillingu .......

Hæstiréttur Rússlands leyfði árið 2011 að rétta í málum látins fólks, með það að markmiði að hreinsa nöfn látinna ástvina.  Þessum lögum var beitt gegn Sergei, til að sverta nafn hans og skilaboð yfirvalda með þessum réttarhöldum eru eins konar forherðing gagnvart erlendri gagnrýni vegna mannréttindabrota í Rússlandi.

Í yfirlýsingu sem Bill Browder, skjólstæðingur Sergei gaf, eftir úrskurð dómarans um skattsvik Sergei og hans sjálfs sagði hann að dómurinn færi á spjöld sögunnar sem einn skammarlegasti atburður í sögu Rússlands, síðan á Stalintímanum.  „ Versti hlutinn í niðurstöðu dómsins í dag er sá hræðilegi sársauki sem rússneska stjórnin er reiðubúinn að valda harmi sleginni fjölskyldu manns, sem var drepinn fyrir að standa upp gegn spillingu yfirvalda og misbeitingu lögreglu“

Forsagan

Í viðtali við Charlie Rose hjá Bloomberg  í september 2012, lýsir Bill Browder CEO hjá Hermitage Capital og skjólstæðingur Sergei Magnitsky, með eigin orðum, hvernig hann hratt af stað rannsókn á skattsvikum í Rússlandi af hálfu opinberra starfsmanna og hvers vegna. 

hlekkur:  http://www.businessweek.com/videos/2012-09-19/hermitage-ceo-browder-on-russian-tax-fraud

Fyrirtæki Bill Browders var eitt stærsta fjárfestingafyrirtæki í Rússlandi, sem hafði vaxið á 10 ára tímabili  frá $ 25 milljónum 1996  í $ 4.5 milljarða.  

Síðla árs 2005 þegar Browder  var á leið frá viðskiptafundi í London til Moskvu, var hann stoppaður af landamæravörðum, settur í varðhald og næsta dag var hann rekinn úr landi.  Hann vildi ekki verða innlyksa með eignir í Rússlandi, og innleysti því allar eignir, seldi öll peningabréf og áhættubréf og flutti alla peninga út úr landinu, og hélt þar með að málinu væri lokið, eftir að hafa skilað peningum til fjárfesta og bjóst við að geta byrjað upp á nýtt, annars staðar.

Í júní 2007, 18 mánuðum eftir að hafa verið rekinn úr landi, ruddust 25 lögreglumenn inn á skrifstofu hans,  Moskva industry,  þar sem skjöl vegna allra fjárfestingafyrirtækjanna voru gerð upptæk.  Það næsta sem gerðist var að nafn Browders og annarra eiganda var afmáð úr öllum fyrirtækjaskrám, hann var ekki lengur eigandi þessara fyrirtækja. 

Sergei Magnitsky ráðinn

Þegar hér var komið sögu ákvað Browder að ráða Sergei Magnitsky lögfræðing til að finna út hvað hafi gerst.  Hann hafði mikla trú á Sergei, hafði unnið með honum áður og sagði hann áreiðanlegan og kláran.  Eftir að hafa rannsakað málið, kom Sergei til baka til Browder og sagði hlutina vera miklu verri en haldið var í fyrstu.

Lögreglan hafi ekki aðeins „stolið“ þessum fyrirtækjum, heldur bjuggu þeir  til falska skuldasamninga að fjárhæð $ 1 milljarð við þrjú skúffufyrirtæki, síðan hafi  þau farið fyrir dóm til að krefjast greiðslu á þessum fölsku skuldum.  Þrír lögfræðingar, komu fram í réttinum fyrir hönd fyrirtækja Browders, sem hann hafði ekki ráðið og enga hugmynd um.   Lögfræðingarnir þrír reyndu ekki að verjast, heldur lýstu sig seka um að skulda þessum skúffufyrirtækjum milljarð dollara.  Dómarinn stimplaði skuldina aðfararhæfa og þeir fóru til að leita að peningum, en fundu enga, því Browder hafði leyst upp allar eignir fyrirtækisins, án vitundar þeirra.

Skattaendurgreiðsla til „spilltra“ embættismanna.

Sergei uppgötvaði síðan árið 2009 að lögreglan,  í samvinnu við glæpasamtök, höfðu með sviksamlegum hætti sent  endurkröfubeiðni til rússneskra skattayfirvalda um endurgreiðslu upp á $ 230 milljón og fengið.  Þetta voru $230 milljónirnar sem fyrirtæki Bill Browdens hafði greitt til skattsins  árið sem þeir seldu hlutabréfin og verðbréfin, og lögreglan og glæpasamtökin náðu þeim til baka.

Á síðasta ári birtu samtök rannsóknarblaðamanna ógrynni af skrám yfir bankareikninga skúffufyrirtækja í skattahreiðrum, þar á meðal 23 sem tengdust $ 230 milljónunum sem stolnar voru, auk upplýsinga um að eiginmaður eins rússneska yfirmannsins hafði millifært milljónir dollara inn á svissneskan reikning, sem eitt af þessum skúffufyrirtækjum hafði sett upp.

Sergei handtekinn og pyntaður í fangelsi.

Sergei upplýsti yfirvöld um svikin og bar vitni gegn lögreglunni í rétti.  Einum mánuði síðar, mætti einn af lögreglumönnunum heim til hans, nam hann á brott og fór með hann í fangelsi þar sem pyntingarnar hófust til að hann drægi vitnisburð sinn tilbaka.  

Sergei skráði mjög nákvæmlega niður alla söguna um fangelsisvist sína, harðræðið  og slæmu meðferðina.    Hann sendi 450 kvartanir til yfirvalda um meðferðina, þar sem öllu var  lýst í smáatriðum.  Einu sinni í mánuði kom lögfræðingur hans og fékk bunka af kvörtunum og lýsingum á því hvernig honum reiddi af í fangelsinu.  Eftir 6 mánaða harðræði var Sergei orðinn mjög veikur og máttfarinn af magaverkjum og gallsteinum og þurfti nauðsynlega að fara í uppskurð vegna þeirra.  Hann skrifaði tugir beiðna um að hann fengi nauðsynlega heilbrigðisþjónustu en án árangurs.  Heilsu hans hrakaði hratt og hann var sárkvalinn án nokkurra verkjalyfja.   Að kvöldi 16. Nóvember 2009 var ástand hans orðið mjög alvarlegt, og þá var hann settur í einangrunarklefa, hlekkjaður við rúmið þar sem átta verðir börðu hann til dauða með gúmmísvipum.  Að sögn Browders var atburðurinn skráður af rússneskum yfirvöldum, og verðirnir átta höfðu gefið skriflega staðfestingu á að hafa tekið þátt í barsmíðunum. 

Sergei-Magnitsky 

Í desember 2012 var haft eftir Vladimir Putin í sjónvarpi að Magnitsky hefði dáið vegna hjartabilunar en ekki misþyrmingar, og bætti við að málið þyrfti frekari rannsóknar við, þar sem hinn ungi lögfræðingur hafi ekki verið neinn engill.  Í kjölfar þessara ummæla var eins og barátta væri hafinn til að sverta minningu Sergei og fyrrverandi vinnuveitanda hans Hermitage Capital og hr. Browder, sem hafði ráðið Sergei Magnitsky til að rannsaka fjársvik. 

Magnitsky lögin

Í lok árs 2012 voru samþykkt lög í Bandaríkjunum,  sem bönnuðu opinberum rússneskum embættismönnum , sem taldir hafa tekið þátt í $230 milljóna skattsvikunum að koma til Bandaríkjanna,  eða eiga hvers konar bankaviðskipti innan Bandaríkjanna.  Svar Rússanna var að banna ættleiðingar rússneskra barna til Bandaríkjanna.  Snemma í janúar 2013 fjallaði ritstjórnargrein í Financial Times um málið og lýsti því sem stórfelldu, vel skráðu og afhjúpandi fyrir hinn „dökka Putin-isma“.

Fjórar manneskjur, sem tengjast Sergei hafa látist við dularfullar kringumstæður.  Sá fjórði, Alexander Pereplichny  féll niður og dó 44 ára gamall, nálægt heimili sínu í Surrey í Bretlandi 10.nóvember 2012.  Alexander  sótt um hæli í Bretlandi árið 2009 og aðstoðaði við svissneska rannsókn á peningarþvætti m.þ.a. útvega sönnunargögn gegn spilltu embættismönnum og þeim sem tengdust $ 230 milljóna skattsvikum, sem Sergei hafði rannsakað.

Hann hafði einnig verið vitni gegn neti af rússneskum ráðamönnum sem notuðu evrópska bankareikninga til að kaupa lúxus eignir í Dubai og Montenegro skv. blaðinu Independent. 

_____________________

Að þessu sögðu , felst ekki mikill tvískynningur í því að skjóta skjólshúsi yfir uppljóstrarann Edward Snowden, sem afhjúpaði og staðfesti að njósnir Bandaríkjamanna um náungann eru að færast nær villtustu framtíðarsýn um „stóra bróður“,  á meðan rússneskur uppljóstrari er drepinn í fangelsi fyrir að standa upp gegn spillingu yfirvalda og meisbeitingu lögreglu?

Brýnt er að uppljóstrarar njóti verndar og gjaldi ekki fyrir að koma fram og segja frá ólöglegri starfsemi og spillingu.  GRECO hefur um árabil skorað á íslensk stjórnvöld að setja í lög vernd fyrir uppljóstrara.  Nýja stjórnarskráin, sem sett var í "tætarann" af stjórnvöldum hefði tryggt slíkt ákvæði.

 

9266AA11-DB17-4D8B-B5FC-E4F39F25FE4D_w640_r1_s 

Heimildir:  Google - Sergei Magnitsky 


mbl.is Forsetahjónin fara til Sochi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband