6.3.2014 | 23:12
"Gerum bara ekkert, sem stíflar fljót framfara"
sagði fyrrverandi forsætisráðherra, Þorsteinn Pálsson á Iðnþingi í dag.
Hér má finna ræðuna í heild sinni frá mínútu 62,14 til 83,44, rúmlega tuttugu mínútur, gott fólk af, yfirvegaðri orðræðu um fortíð, nútíð og mögulega framtíð Íslands.
Myndbandið mætti líka nota, sem kennslumyndband fyrir framtíðar-og jafnvel núverandi stjórnmálamenn, í athöfninni;
* að eiga orðræðu um mikilvægar atvinnugreinar á Íslandi, án þess að sprauta skarni yfir salinn.
* að tala af þekkingu, reynslu og virðingu fyrir fortíðinni, nútíðinni og framtíðarkynslóð, sem mun byggja þetta land.
* að gera sig sekan um undanskilja "ad hominem" í langri ræðu og halda sig við efnið
* að tala af yfirvegun og virðingu fyrir fólki og fénaði, hvar svo sem það hefur valið sér að starfa og lifa
* að hafa góðan smekk, tala góða íslensku, og velja orð sín af kostgæfni
* að búa enn yfir miklum kjörþokka, þrátt fyrir áralanga fjarveru frá stjórnmálum
* og síðast en ekki sízt, að halda kúlinu, þrátt fyrir allt, sem gerist nú innandyra í steinnökkvanum.
Við eigum að hlusta meira á fólk, sem berst fyrir almannahagsmunum í víðum skilningi og minna á fólk, sem þrástagast fyrir sérhagsmunun í þröngum "súrefnislausum" firði.
Það verða alltaf skammtíma hagsmunir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Hilmar frkv.stjóri (ekki forstjóri) CCP heldur eina bestu ræðu sem ég hef heyrt um íslenskan veruleika, styrk og veikleika, í langan tíma. Ræðan byrjar á mínútu 119.16 veitið ykkur þann unað að hlusta á no-nonsense fólk tala.
Jenný Stefanía Jensdóttir, 6.3.2014 kl. 23:54
Jenný. Þetta er ekki spurning hvað er rétt og hvað er rangt. Spurningin er hvað viljum við sem þjóð.ESB gekk frá fríverslunarsamning við suður Afríku án þess að þröngva upp á þá allan lagabálka þeirra. Þeir eru að gera það sama við önnur lönd. Engar lagalegar kvaðir á þegna landana en líklega tæknilegar kvaðir á vörur. Sérðu gætir þú skýrt fyrir mér. Finnst þér rétt að þú eigir að gangast undir lög annara þjóða til þess að mega selja þeim vörur þínar. Ræður eða engar ræður þetta ESB fólk er á villu götum. Mundu undir ESB þá megum við ekki selja né eiga viðskipti við aðrar þjóðir.
Valdimar Samúelsson, 7.3.2014 kl. 06:48
Kæri Valdimar, nei hættu nú alveg. Mér sýnist þú hafa verið illilega rangt upplýstur. Eins og þú veist framleiða ESB þjóðir margvíslegan varning líkt og aðrar þjóðir. Þýsku bílana má finna í öllum heimsálfum, kínverski forsetinn er með Bang og Olufsen hljóðflutningsgræjur, og mörg fyrirmenni í Asíu aka um á Volvo, og tala í Nokia síma. Öllum löndum innan ESB er frjálst að eiga viðskipti við aðrar þjóðir, að sjálfsögðu.
Jenný Stefanía Jensdóttir, 7.3.2014 kl. 13:10
Þú verður að lesa þér betur til Jenny.T.D.Lissabon sáttmálan og allt laga og regluverk ESB.Þú virðist halda að það að ganga í ESB skipti engu máli, og ríki séu ekki skuldbundin af viðskiptasamningum sem ESB gerir fyrir hönd ESB.Þetta er því miður allt miskilningur hjá þér.Þú trúir þeim sem síst skyldi.Þorsteinn Pálsson var forsætisráðherra í rúmt ár.Það er best fyrir hann að sá tími í lífi hans sé ekki rifjaður upp.
Sigurgeir Jónsson, 7.3.2014 kl. 21:44
Hver leyfði þér að túlka orð mín eins og ESB skipti engu máli Sigurgeir?
Ertu að halda því fram að með því að selja Bang&Olufsen, til Kína, sé Danmörk að svíkja viðskiptasamninga?
Annars, skal ég alveg segja þér hvað mér finnst vera áhugavert við ESB, alveg síðan ég fyrst féll fyrir klúbbnum, fyrir rúmum 20 árum síðan.
Minni þig á að þá var í gangi happdrættisúthlutun til útvalinna aðila, í samfélaginu. Það fengu ekki allir að taka þátt í þessu happdrætti, þótt verið væri að útdeila auðlindum þjóðarinnar!
Svoleiðis yrði aldrei liðið í samfélagi siðaðra þjóða, sem ég reyndar tel að þetta ESB batterí sé, eða allavega reynir að vera. Og þar liggur hundurinn grafinn. Allur lagabálkur sem tekinn hefur verið upp á Íslandi og stuðlar að bættri stjórnsýslu, bættu siðferði og meira réttlæti, er upprunninn frá ESB! Það voru ekki íslenskir stjórnmálamenn, sem datt í hug að setja reglur um fjármál stjórnmálaflokka, fagleg ráðningaferli dómara,stjórnsýslu, opinber innkaup og almenn mannréttindi! Nei slíkt er allt komið þráðbeint frá ESB í gegnum EES samninginn.
Finnst þér annars ekki grátlegt að hér hafi verið í gangi "eignaupptaka", annað hvort í formi óðaverðbólgu, okurvaxta, eða glæpsamlegra bankarekstrar, með reglulegu kynslóðabili. Margir af minni og þinni kynslóð, sem eiga samkvæmt bókinni að sitja í skuldlausri látlausri eign, hlakkandi til góðu áranna, þegar hægt verður að njóta lífsins og afraksturs erfiðisins, eru ákkúrat ekki í þeirri stöðu, og það þykir mér fjarska dapurlegt.
Unga fólkið, sem er fullt af hugmyndum, óskum og væntingum fyrir okkar þjóðfélag, er orðið vegamótt og þjóðfélagslega pirrað, innan við þrítugt. Hlustaðu á Hilmar Veigar Pétursson, forstjóra CCP lýsa þjóðfélaginu, sem hann ólst upp við, og hvernig hann sér framtíðina með krónunni, verandi þó einn helsti spúttnikk sem forsetinn og ráðherrar þylja upp í sínum "við höfum kea við höfum lindu" söng fyrir íslenskt "hafta" atvinnulíf.
En fyrst og fremst Sigurgeir, ég eygi auk meiri fjárhagslegs stöðuleika og manneskjulegra lífs, eina von sem gæti ræst, ef við göngum inn í ESB. Sú von byggir á að sú ömurlega spilling sem viðgengst hér á landi og er afhjúpuð daglega, nú síðast með uppsögn ráðuneytisstjóra í Umhverfisráðuneytinu, yrði ekki liðin á meðal siðaðra þjóða. Hefur þú t.d. fylgst með hvers konar ástæður lágu fyrir því að ráðamenn og ráðherrar Norðurlanda hafa þurft að segja af sér? Við eigum auðvitað að gera sömu lágmarkskröfu til okkar ráðamanna og stjórnsýslu.
Ég segi stundum, að við séum algjörlega frábærir einstaklingar einir sér, eins og strá sem fá að blakta og sveigjast í rokinu.
Saman í knippi, teljum við okkur vera í bardaga við hin knippin. Okkur skortir sýnina á samfélagslega ábyrgð, og að okkur gæti öllum liðið bærilegra ef baráttan fyrir sérhagsmunum linnti.
Jenný Stefanía Jensdóttir, 7.3.2014 kl. 22:47
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.