Hið grugguga eðli

Hugsaðu þér glas fullt af vökva.  Neðst á botninum er brún þykk leðja 10%.

Síðan tekur við gruggugt vatn, sem er gruggugara neðst en verður tærara eftir því sem ofar dregur 80%. Efsta lagið er svo krystaltær vökvi 10%.

Mannlegt eðli og afstaða gagnvart svindli, prettum, lygum,  svikum og þjófnaði lýsir sér í þessu glasi. glas-of-waterNeðsta lagið; leðjan eru þeir sem munu alltaf svíkja, stela og svindla, sama hvað gengur á.  Þeir eru gjörsamlega siðblindir og veruleikafirrtir. 

Grugguga vatnið endurspeglar tækifærissinnana; ef að tækifæri býðst, þá svindla þeir og stela líka.  Þeir sem eru nær leðjunni eru líklegri en þeir sem ofar eru, til að grípa glóðina þegar hún gefst,  hinir sem eru ofar, munu hugsa sig vel um, vega og meta ávinning og áhættu. 

Efsta lagið mun aldrei svindla, svíkja eða pretta hvað sem á gengur,  þetta er fólkið sem allir vilja vera í orði en ekki endilega á borði, því hætt er við að áhættufælnin og dýrlingabjarminn verði leiðinlegur til lengdar, trúlega algjörlega húmorslausir líka. 

Ofangreint hefur margsinnis verið kannað og enginn getur í raun „ekki séð þau tilvik“ þegar þeir gruggast svolítið,  t.d. gagnvart skattinum eða hverju því tilfelli þar sem mammon og pyngjan kemur við sögu.

Það er þess vegna mikilvægt hvort heldur það er á vinnustað, á heimili, eða í þjóðfélagi, að prófið sé ekki of þungt.  Tækifæri til undanskots og þjófnaðar verður að fyrirbyggja með skýrum, gegnsæjum leikreglum, þar sem allir sitja við sama borð.  Langflestir þrá að vera heiðvirtir borgarar, en þá verða þeir að geta staðist prófið, samkvæmt normalkúrfu.

Þegar t.d. skattprósenta er hækkuð úr hófi fram, þyngist prófið og gruggið eykst.  Þess vegna má færa fullgild rök fyrir því að hækkandi skattprósenta skili sér í meiri undirheimastarfsemi og svikum, og því skili hún í raun minni tekjum til ríkisins, en ef prósentan er hófstillt.

Átti í töluverðum tremma við að sannreyna þetta sjónarmið varðandi þá útrásarvíkinga, sem gátu ekki einu sinni greitt lægsta fjármagnstekjuskatt í heimi, og fluttu fjármuni sína til aflandseyja.  Þá komst ég að þeirri niðurstöðu að þeir væru í raun brúna leðjan á botninum.

Segja má að ástandið í dag á Íslandi megi líkja við að hrærivél hafi verið stungið oní glasið, og nú sé það löðrandi í brúnu gruggi.  Ekki endilega að tækifærin séu svo mörg, heldur að sá lögaðili sem er að leggja á  þyngri og þyngri byrðar, hefur gjörsamlega misst allan trúverðuleika og traust.  Það er búið að hrifsa eignir, lækka laun, hækka skatta, og svo á að skrifa undir margra ára áþján sem slekkur alla von um betri tíð um langa framtíð.   

Einasta von um að botnfall verði í glasinu aftur, er að skafa leðjuna burt, koma henni undir lög og reglur, sem allir héldu þó að ríktu í réttarríkinu.  

Síðan þarf að gæta þess alltaf að fækka og útrýma tækifærum, með því að hafa einfaldar og skýrar reglur, sem ekki er hægt að túlka til andskotans  og stóreflt eftirlitskerfi, sem allir aðilar treysta á að sé sanngjarnt og tryggi að allir sitji við sama borð.

Mannlegt eðli verður aldrei umflúið.

17.júní 2009   Jenný Stefanía Jensdóttir


Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Heyr, heyr.  Engar lagabreytingar hafa verið gerðar til þess að stöðva spillingarliðið, það er ennþá í fullum gangi í "fjárfestingum"  sama drullan á eftir að vella yfir okkur hérna endalaust. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 17.6.2009 kl. 02:45

2 identicon

Heil og sæl; Jenný Stefanía - sem aðrir þeir, hverjír síðu hennar geyma og brúka ! 

Jenný Stefanía ! Um leið; og ég vil, líka sem Jóna Kolbrún; taka undir, hér með þér, að þá mun þér, Klettafjalla frú, sem okkur Jónu og fleirrum þykja kyndugt, eftir því sem dagar líða - hversu fjölmiðla ræksnin íslenzku; flest, utan Útvarps Sögu, taka hindrunarlaust - frá öllum lyga flaumi, þeirra Jóhönnu og Steingríms, sem hinum æðsta sannleika, í hverju grútar máli Stjórnarráðsins, á fætur öðru.

Væri ekki; fengur að, ef einhverjir kunnugir, gætu uppfrætt okkur, um ástæður þess; raunverulegar ?

Með beztu kveðjum; sem oftar og fyrri /

Óskar Helgi Helgason 

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 17.6.2009 kl. 03:05

3 Smámynd: Jenný Stefanía Jensdóttir

Já Jóna, verðum að koma höndum á drulludreifarann. 

Óskar Helgi; tek undir með þér með fjölmiðla ræksnin, hlustaði á Sigurð á Sögu í dag, og ógleði hans yfir forréttindastéttinni fannst alla leið hingað á Kyrrahafsstrendur, og nú er þarna orðvar maður á ferðinni sem hefur mikið yndi af náttúru og fluglum.  En honum var greinilega ofboðið, þá er hann lýsti þessum Sigurjóna samningum við sömu Sigurjóna.

Vona samt að þið eigið góðan og bjartsýnan þjóðhátíðardag, þó við hæfi hefði verið að skunda nú á Þingvöll, sem aldrei fyrr.

Jenný Stefanía Jensdóttir, 17.6.2009 kl. 03:27

4 identicon

Góður pistill Jenný, nákvæmlega svona er nú gangur lífsins. Ég held hins vegar að nútíma fjármála og viðskiptaheimur Íslands hafi breyst í jökulfljót. Byltist fram í gusum og oftast fullt af gruggi, erfitt að beisla og hættulegt öllum sem nálægt koma.

Er búinn að vera velta mikið fyrir mér ástandinu undanfarið og hef því rætti við vini og kunningja víða um heim, meira að segja í íran, - mitt í kosningum og átökum þeim tengdum.. Niðurstaða mín er sú að Ísland sé jafnvel verr sett siðferðis og stjórnunarlega en verstu lönd heimsins í dag.

Hér sit ég við bakka Mývatns, eldsnemma að morgni, umvafinn fögru landslagi og gróðri eftir næturferð úr Reykjavík, á Þjóðhátíðardegi Íslands, og .. ég skammast mín fyrir það sem komið hefur fyrir landið mitt. Hvernig gátum við verið svona vitlaus!

Jóhann F Kristjánsson (IP-tala skráð) 17.6.2009 kl. 06:13

5 Smámynd: Ía Jóhannsdóttir

Hvar ertu fornaldar frægð.  Góður pistill.  Gleðilega hátíð!

Ía Jóhannsdóttir, 17.6.2009 kl. 08:44

6 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Frábær pistill á sorglegum þjóðhátíðardegi.

Njótum hans þó sem best.

Takk fyrir kæra bloggvinkona og súpernafna í Jennýjarklúbbnum.

Jenný Anna Baldursdóttir, 17.6.2009 kl. 09:47

7 Smámynd: Jenný Stefanía Jensdóttir

Heil og sæl Issi, Ía, og Jenný Anna,

Takk fyrir innlit og kveðjur.

Issi, þætti ekki verra að skokka með ykkur um Dimmuborgir, skilaðu kveðju til Ingu stuðvinkonu.  Það eru aðrir sem mega skammast sín, ekki við.

"Ísland í lyftum heitum höndum, ver ég heiður þinn og líf á trylltri öld". SH

Jenný Stefanía Jensdóttir, 17.6.2009 kl. 14:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband