29.6.2009 | 16:12
Glænýja ýsu ......
Frá 6 ára aldri gegndi ég mikilvægu innkaupahlutverki. Á hverjum degi skokkaði ég út í búð(ir) með netið til að kaupa 3 potta af mjólk, eitt og hálft pund af skyri og glænýja ýsu fyrir 20 krónur, loks fransbrauð í bakaríinu. Ekki flókinn listi, en viðskiptin gátu verið flókin og pirrandi.
Fisksalinn fór sérstaklega í litlu sex ára taugarnar. Ég bað um glænýja ýsu fyrir tuttugu kall, en hann gat aldrei fundið ýsu á þessu verði. Tuttugu og þrjár sagði hann spyrjandi og leit á mig, ætli það ekki svaraði ég að bragði. Svo var ýsunni pakkað inn í gamlan mogga.
Eitt skipti, þegar fiskbúðin var full af fólki átti ég að kaupa saltfisk fyrir 20. "Glænýjan saltfisk" fyrir tuttugu, sagði ég og hann leit á mig sprakk úr hlátri, og hjörðin í búðinni tók undir. Ha ha ha viltu fá glænýjan saltfisk já!. Roðnaði af blossandi reiði gagnvart þessum dóna, sem gerði grín að mér.
Næst þegar ég kom inn í búðina og bað um glænýja ýsu fyrir 20 kall, hóf hann spurningaleikinn, tuttugu og þrjár?, "nei tuttugu" hann leit á mig, ég horfði ískalt á móti, hann tók aðra ýsu; nítján?, "nei tuttugu" og andrúmsloftið varð ískalt í fiskbúðinni. Eftir nokkra leit af hinni fullkomnu ýsu, sagði hann: "ég er hræddur um að ég eigi ekki ýsu fyrir 20" þá ætla ég ekki að fá neitt sagði ég, sveiflaði fléttunum dramatískt og strunsaði út.
Þegar heim kom sagði ég að það hefði ekki verið til ýsa.
Eftir þetta fékk ég alltaf ýsu fyrir tuttugu kall hjá dónanum í fiskbúðinni.
Síðan þá, og ennþá stunda ég ekki viðskipti við dóna.
Athugasemdir
Skemmtileg frásögn. Lexían er góð, ekki versla við dóna.
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 29.6.2009 kl. 23:14
Jenný, þú reifst mig upp á hárkollunni u.þ.b.53 ár aftur í tímann, það var skemmtileg skyndiferð, takk: .....
... með netið... potta af mjólk... hálft kíló af skyri og glænýja ýsu og (reyndar kallað hjá okkur) > eitt hveitibrauð
ýsunni pakkað inn í gamlan mogga.
Eygló, 30.6.2009 kl. 04:10
Takk fyrir þetta stelpur, sum atvik í lífinu gleymast aldrei, og lita mann um alla eilífð. Ég þarf að taka eina "bakaríissögu" seinna þegar vel liggur á mér, já og eina "mjólkurbúðasögu" kannski líka.
Varð mjög snemma viðskiptalega sinnuð; og þóttist vita muninn á réttu og kolröngu.
Jenný Stefanía Jensdóttir, 30.6.2009 kl. 04:40
Svona ferðir í huganum eru nauðsynlegar fyrir sálartetrið okkar öður hvoru. Takk fyrir skemmtilega frásögn.
Ía Jóhannsdóttir, 30.6.2009 kl. 08:01
Hvar í bænum var þessi aumi fisksali?
Ekki þó Steini á Ásvalla.
Úff, fór í nostalgíukast.
Ég var send eftir hálfpott af mjólk, hálfpundi af skyri, hálfu fransbrauði og hálfu seyddu rúgbrauði.
Jabb. Vorum þrjú í heimili.
Man eftir mér að rogast með mjólkurbrúsann í Mjólkubúðina á Bræðró (verkó), löngu áður en ég náði upp fyrir búðarborðið.
Svo man ég eftir mér í fiskbúðinni (og öðrum búðum reyndar líka) þar sem fullorðna fólkið tróðst í sífellu fram fyrir börnin og maður þorði hvorki að æmta né skræmta.
Jenný Anna Baldursdóttir, 30.6.2009 kl. 15:54
Nafna, passar við vorum 6 í heimili, og ég var "mjólkurbarn".
Þessi búðarklasi var í Skaftahlíðinni, sem nú hýsir 365. Kjörbúðin "Austurver" síðar Sunnukjör var rekin af eðalfjölskyldu og góðu fólki.
Jenný Stefanía Jensdóttir, 30.6.2009 kl. 16:17
Munið þið eftir gömlu mjólkur-hyrnunum? Það voru 1 L hvitar/rauðar fyrir mjólk og grænar fyrir súrmjólk. Seinna minnir mig að hafi farið að koma minni hyrnur.
Elle_, 30.6.2009 kl. 23:22
Elle rétt munað gæskan, rauðköflóttir pýramídar, og viðbjóðslega súrmjólkin í grænköflóttu, (gat aldrei étið þessa súrmjólk út af nafninu) og rjóminn í gulköflóttu! Svo voru stálgrindurnar frá MS sniðnar fyrir þessar pýramídahyrnur.
Horfði á "Bíódaga" á sunnudaginn var, í fyrsta skipti og datt í algjört nostalgíukast, stappaði niður fótum og klappaði þegar Royi Roggi sýndi glæponunum í tvo heimana. Svona fara bíólistarmenn á borð við Friðrik með mann á einum eftirmiðsdegi!
Jenný Stefanía Jensdóttir, 1.7.2009 kl. 02:28
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.