EFTA Samningur KANADA

Í dag 1.júlí á  þjóðhátíðardegi Kanada gengur í gildi samningur milli Kanada og Efta ríkjanna um tollfrjáls viðskipti.705px-Canada_flag_map_svg

Á fundi hjá Útflutningsráði í byrjun júní s.l. hélt ég erindi um viðskiptaumhverfið í Kanada

Hér er úrdráttur:

Kanada er vissulega stórt land að flatarmáli, með um 100 sinnum fleiri íbúa en Ísland en 10 sinnum færri en USA. 

Landið skiptist niður í 10 fylki og 3 eins konar svæði. Í vestur Kanada búa um 10 milljónir og í austur sem telur Ontario og Quebec eru tæplega 21 milljón.  Litlu fylkin við Atlantshafið hafa um 2 milljónir íbúa.   Það er athyglisvert að 90% íbúanna búa í innan við 160 km fjarlægð frá bandarísku landamærunum.   Landið er því þéttbýlla en stærðin segir til um, en landrými er aldrei takmarkandi þáttur, það er nóg pláss og vítt til veggja.    

Þrátt fyrir stærð landsins, með gífurlegar náttúruauðlindir flæðandi um allt, verður alls ekki vart við neinn mikilmennskuhroka.  Þvert á móti einkennist viðskipta- og mannlífið af umburðarlyndi, virðingu og sanngirni sem pakkað hefur verið saman í vel skilgreindan lagaramma með ótal reglugerðum en háu flækjustigi  að vísu,  en gífurlega öflugu og sýnilegu eftirlitskerfi. 

Gegnsæjar leikreglur og eftirlit setur fyrirtækjum  skorður  en eykur jafnframt  sannfæringu og vissu um að samkeppnisforskoti  sé náð á eigin verðleikum  fyrirtækjanna, en ekki regluverksins eða  klíkuskapar.   

EINKENNI VIÐSKIPTAUMHVERFISINS

Lítil og meðalstór fyrirtæki sem skv. skilgreiningu í Kanada eru fyrirtæki með færri en 100 starfsmenn eru samtals rúmlega 1 milljón eða 98% af öllum fyrirtækjum í Kanada.    Þessi þróun  er meðvituð og studd dyggilega af ríkis og fylkisstjórnum. 

Lítil og meðalstór fyrirtæki skapa líka um 80% allra nýrra starfa, og njóta því sérstakrar velvildar Ríkisins, sem leggur áherslu á að búa þessum fyrirtækjum hagstæðara skattaumhverfi og reynir að draga úr íþyngjandi reglum, sem annars gilda hjá „stórfyrirtækjunum“.     

Það má því með sanni segja að yfirvöld í Kanada líta svo á að „minna sé meira“ sem er sérlega hagfellt fyrir frumkvöðla  og viðskiptaaðila sem vilja freista gæfunnar í landinu, og  því engin ástæða til neinnar minnimáttar í samskiptum þar.Kanadamenn eru sérstaklega vinsamlegir og umburðarlyndir. 

Þeir eru stoltir af uppruna sínum sem í flestum tilfellum er frá Evrópu, og sýna einlægan áhuga og virðingu á uppruna og „hreim“ samborgara sinna. Stundum er Kanada líkt við bullandi menningarpott, því þjóðarbrot þar eru líklega flest í heimi, þar með opinberlega talið í manntali 2006 90.000 Íslendingar.     Þetta sterka  fjölþjóðaeinkenni skýrir líklega hið mikla umburðarlyndi gagnvart „sterkum hreim“, sem Kanadamönnum finnst skemmtilegt og forvitnilegt, kannski ólíkt viðhorf en sunnan landamæra.

Mér er það minnistætt, í viðskiptadeildinni í gamla daga, þegar við vorum að stúdera  fullkomna samkeppni, fákeppni, einokun og allt þar á milli. Þá var „fullkominn markaður“ varla til nema í fræðibókum, enda ekki líklegt að „allir hagi sér skynsamlega alltaf, og allar upplýsingar um vörur og verð liggi fyrir, ókeypis á sama tíma alltaf“.   

Eftir kynni mín af smásölumarkaði í Kanada er skemmtilegt að segja frá því að mér finnst hinn fullkomni markaður ekki vera eins „fræðilega óhugsandi“  og þá.  Markaðurinn einkennist af gífurlegri samkeppni, miklum ókeypis upplýsingum og síðast en ekki síst, sterkri markaðs- og verðvitund  viðskiptavina og þokkalegri  kaupgleði, sem hefur þó mikla teygni við almennt efnahagsástand í landinu. 

KREPPAN

Kanada er algjörlega sjálfbært land vegna gífurlegra náttúruauðlinda.  Öfugt við sum önnur lönd, sunnan landamæra og handan hafs, verður ekki hægt að draga stjórnvöld eða bankastofnanir  í Kanada til ábyrgðar á kreppunni.    

Þvert á móti er eitt af einkennum bankakerfisins og efnahagsstjórnunar; ofur- varfærni í útlánum, sterkar reglugerðir og lagaumhverfi, öflugt eftirlitskerfi  og halli á fjárlögum hefur í augum stjórnvalda verið sjóðheitur grautur sem þau hafa forðast markvisst með því að reka  hallalaus fjárlög 10 ár samfellt 1997-2007. 

 Reyndar  lét Harper undan gífurlegum þrýstingi fyrr á þessu ári og hefur boðað hallarekstur nk 2 ár,  í því skyni að örva efnahagslífið og milda kreppuáhrif, sem má fyrst og fremst rekja til eftirspurnarkulnunar og gífurlegs samdráttar í Bandaríkjunum sem gleypir 84% af öllum útflutningi landsins. 

Nú mælist atvinnuleysi í Kanada 8%, mismunandi þó í fylkjum,  hæst í Atlantshafsfylkjum og lægst í sléttufylkjunum Saskatchewan og Manitoba.  Atvinnuleysi tók að vaxa á þessu ári úr 5,8% sögulegu 33 ára lágmarki 2007 um 2 prósentustig. Þetta er þó ekki samanburðarhæft við 8-10% atvinnuleysi á Íslandi, sem fer úr skorti á vinnuafli í 8-10% á örfáum mánuðum. 

 Það skiptir því máli að huga að „náttúrulegu“ atvinnuleysi í landi þegar samanburðartölur eru skoðaðar.

Sú stofnun sem flestir elska að hata, og aðrir hata að elska  „Alþjóðlegi gjaldeyrissjóðurinn“ sendi nýlega frá sér það stöðumat, að þeir teldu að áhrif kreppunnar myndi vara styst í Kanada og þeir myndu verða fyrstir til að rétta úr kútnum, þegar hagkerfi heimsins fara að snúast á rétta sveif.  Ástæða þessara ummæla má fyrst og fremst rekja til þeirrar varfærni sem bankakerfið hefur sýnt, og sterkri efnahagsstjórn.

Nú í lok maí eru farin að sjást ýmis glætumerki, sem auka bjartsýni manna um að áætlanir um viðsnúning efnahagslífsins muni nást á 3ja ársfjórðungi 2009. 

Gengi $ dollar sveiflast m.a. með heimsmarkaðsverði á hráefnum, eins og olíu.  „Kjarnaverðbólga“ í Canada mælist 2% sem er í samræmi við verðbólgumarkmið, en kjarnaverðbólga mælir hækkun almenns verðlags á ársgrundvelli, án matvöru og orku, en hækkun á þeim er háð „óstjórnanlegum utanaðkomandi áhrifum“  og hækkun matvöru á ársgrundvelli er 7,5% núna í maí, einkum vegna gengisfalls Canada$ frá pari við US um áramót niður í 80 cent,  en á móti hefur orka lækkað um 11,2%.  Síðasta uppfærða áætlun um hagvöxt 2009  gerir ráð fyrir  3% samdrætti.

Tækifæri fyrir íslensk fyrirtæki í Kanada

Með þá góðu hófsömu speki að leiðarljósi  „ að minna er meira“, er ljóst í mínum huga að tækifæri fyrir íslensk fyrirtæki og athafnafólk eru óþrjótandi í Kanada. 

 Fyrirtækið sem ég starfa við  kaupir t.d. alla hugbúnaðarþjónustu á tölvukerfum okkar frá Íslandi.  Það er ekki af þjóðarrembingi einum saman, því við höfum sannarlega reynt að færa hugbúnaðarþjónustu nær í tíma og rúmi. 

Staðreyndin er að þeir sem við höfum reynt að nota, komast seint með tærnar þar sem íslenskt hugbúnaðarfólk hefur hælana, í faglegri þekkingu og umfram allt „yfirsýn“ á möguleikum og notkun á þeim kerfum sem við notum. Ég tel að styrkur okkar í þessum geira felist einmitt í „fólksfæðinni“ og þeirri heildaryfirsýn sem hver og einn þarf að tileinka sér, á meðan mannfrekari hugbúnaðarfyrirtæki státa af „sérfræðingum“ á hverju þrepi, sem birtist þannig að það þarf 5-7 manna kanadískt teymi að koma að einfaldri breytingu, á meðan íslenskur hugbúnaðarnörd gerir það einn og óstuddur, á miklu skemmri tíma. 

Ég blæs á allar bábiljur um tímamismun, því oft  þegar send er skilgreining á vandamáli í kerfinu í eftirmiðdag á Kyrrahafsströnd, þá er vandamálið leyst þegar komið er til vinnu morguninn eftir.  Með því að reyna að forðast efstastig lýsingarorða eins og mikill og stór, en leggja meiri áherslu á „gæði“ og frumkvæði eru okkur allir vegir færir miðað við höfðatölu.

Þannig er hægt að sjá fyrir sér:   66 Norður, skapa sér verðugan sess við hliðina á North face og Columbia í vetrar og hlífðarfatnaði.  Var stödd í New York í Janúar s.l. þegar þeir voru að draga flugvél Sullenberger upp úr Hudson ánni.  Það var 25 stiga frost á Manahattan og ég skartaði fallegri loðhúfu frá 66 og lúffur í stíl, sem annar hver maður sem ég mætti hafði þörf fyrir að tjá sig um og öfunda mig af.  Margir spurðu hvar ég hefði fengið fengið þetta.  

 Niðurstaða mín eftir þessa helgi var að ég hefði getað selt þessar húfur og lúffur í stíl  í gámavís í garranum þarna á Manhattan.  Vetrarhörkur í miðríkjum Kanada eru ótrúlegar, frostið fer niður í rúm 40 stig á celcius. 

Ég er persónulega haldin þráhyggju og ofsatrú á íslenska vatninu, lýsinu og geninu, og ég tel að sú sérstaða sem náttúran, fiskurinn og  fámennið sem við njótum, muni reynast okkur dýrmæt þegar allt kemur til alls.

Þegar ég ætla að hafa íslenska kjötsúpu eða lambalæri í matinn, kaupi ég gaddfreðið lambakjöt frá Ástralíu á  16-1800 kr.kg.  Framleiðslugeta íslensks landbúnaðar er of takmörkuð til að herja á stórverslanir, en örugglega nægjanleg fyrir nokkrar veitingahúsakeðjur.  Norður-Ameríka snobbar soldið fyrir Evrópskri hönnun í fatnaði, húsbúnaði og matvælum ýmis konar, á nákvæmlega sama hátt  og Ameríka snobbar fyrir evrópskum og japönskum bílum.

Ég held þetta kallist að leita langt yfir skammt .... eða grasið sé grænna hinum megin og fjarlægðin gerir fjöllin blá.  Við eigum að notfæra okkur þetta Evrópusnobb og ekki síður þá sérstöðu sem hreina Ísland í orku og vatni skapar okkur, og kannski sýnir Kanada okkur meiri skilning gagnvart þeirri markaðsniðurbrotsstarfsemi sem „hvalveiðar Íslendinga“ hafa í för með sér víða um heim, nú þegar landsstjórinn sjálf borðaði hrátt selshjarta fyrir framan myndavélar og fjölmiðla í vikunni, til þess væntanlega að storka ESB sem hefur bannað innflutning á selaafurðum frá Kanada.

Gotterísfrömuðir gætu útvíkkað þá sérstöðu íslenskra páskaeggja að hafa skemmtilegan málshátt inní litlu páskaeggi, ja eða hol súkkulaðihjörtu með ástleitnum játningum fyrir Valentínusardaginn og svona mætti lengi fara á í heilaflug, með það að markmiði að minna er meira.

Áfram Ísland. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Heil og sæl; Jenný Anna, sem ætíð !

Þakka þér; þessa mjög vönduðu samantekt, sem útlistun, á þeirri kaldhæðni, íslenzkum ESB sinnum til handa, að litla Brussel, sem - Vestur- Evrópa öll, eru fjarri því, að vera miðpunktur Heims kringlunnar.

Kanada gæti; ef við, hér heima, fyndum sköruglekt fólk, til forystu, dregið Ísland að því landi, sem hæfði, eftir kerfishrunið hér - sem innlendan afglapahátt, meðfæddan, svo allt of margra, samlanda okkar.

Með beztu kveðjum; sem áður og fyrri /

Óskar Helgi Helgason 

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 1.7.2009 kl. 18:24

2 Smámynd: Jenný Stefanía Jensdóttir

Sæll Óskar minn, þykir ekki verra að vera líkt við Jenný Önnu vinkonu okkar og skörung mikinn, en það er Stefanía Óskar minn.

Með þjóðhátíðarkveðju  í Árnesþing

Jenný Stefanía Jensdóttir, 1.7.2009 kl. 18:25

3 identicon

Ahhhh........... verð; að biðja ykkur nöfnur forláts - vinsamlegast. Afsakið; báðar.

ÓHH

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 1.7.2009 kl. 18:30

4 Smámynd: Ólafur Eiríksson

Þetta er fyritaks pistill Jenný, takk fyrir hann.

Ólafur Eiríksson, 1.7.2009 kl. 18:36

5 Smámynd: Ía Jóhannsdóttir

Góður pistill.  ´Mér finnst uppbyggjandi að fara inn á síðuna þína, takk fyrir mig.

Ía Jóhannsdóttir, 1.7.2009 kl. 20:43

6 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Skemmtileg og fræðandi lesning. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 2.7.2009 kl. 01:11

7 Smámynd: Jenný Stefanía Jensdóttir

Takk fyrir innlit og uppörvandi umsagnir, hélt satt að segja að enginn nennti að lesa meir en 10 línur af svona pistli.

Jenný Stefanía Jensdóttir, 2.7.2009 kl. 02:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband