12.12.2010 | 01:25
Sefur þú um nætur?
Þannig endar 20 blaðsíðna bæklingur um siðareglur PwC og ber yfirskriftina "Hvernig við högum okkur í viðskiptum"
Fróðleg og falleg lesning, ef ég væri að leita mér að ærlegum endurskoðendum myndi þessi bæklingur falla vel í kramið.
Eftir að hafa lesið um ásakanir sem koma fram í Glitnisákærunni í New York, þar sem PwC skrifaði svokallað comfort letter til að halda þægindastuðli væntanlegra fjárfesta í lagi, og síðan þessar ásakanir vegna Landsbankans, er ekki laust við að maður sé í nettu áfalli.
Orðspor allrar stéttarinnar hefur verið tröðkuð í svaðið.
Allt tal um að sækja megi skaðabætur til PwC LLP aðalstöðvanna er þó út í hött, og þegar lögfræðingar tala þannig afhjúpa þeir fjarvistasönnun úr kennslustund í félagarétti. LLP er fyrir aftan öll helstu endurskoðunar og lögfræðingafyrirtæki heimsins, og þýðir takmörkuð ábyrgð, sem þýðir að félögin bera enga skaðabótaábyrgð ef að önnur fyrirtæki í keðjunni gera sig sek um vanrækslu eða saknæmar athafnir.
Löggiltum endurskoðendum er skylt að hafa ábyrgðartryggingu sem bætir slík tjón, og af fréttum að dæma er tryggingafélag flestra þeirra í London.
Væri það ekki ískrandi ærónískt, ef að það kemur til kasta breskra félaga að greiða íslenskum stjórnvöldum og fyrirtækjum skaðabætur vegna vanrækslu íslenskra endurskoðenda?
Tilhugsunin sker í eyrun!
Hér er hlekkur í bloggfærslu í maí þegar William Black fjallaði um "djúpu vasana" í endurheimtum
Rannsókn hafin á PwC | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Afar athygliverðar ábendingar.
Ég ætla rétt að vona að umrædd endurskoðunarskrifstofa bankanna hafi ekki komið sér hjá því að taka ábyrgðatrygginguna og þeir hafi haft slíka í gildi þegar meint "vangá" átti sér stað hjá þeim við áritun ársreikninga bankanna.
Það væri skáldlegt réttlæti ef þeir hafa verið tryggðir fyrir upphæðum sem hér eru í húfi hjá bresku tryggingafélagi þannig að Ísland gæti vinsamlegast bent bresku og hollensku ríkisstjórnunum í breska bakgarða.
Kristinn Snævar Jónsson, 12.12.2010 kl. 02:46
Sæll Kristinn,
Ábyrgðatrygging er lögboðin og starfsleyfisháð, þess vegna er ekki mikil hætta á að hún sé ekki til staðar.
Köllum það "ryðgað réttlæti" ef þannig háttaði.
Jenný Stefanía Jensdóttir, 12.12.2010 kl. 02:56
Sæl Jenný,
Eins og þú veist sjálfsagt þá eru LLP skilgreind svolítið misjafnt eftir löndum. Hér í Bandaríkjunum er ábyrðin líka misjöfn eftir því í hvaða fylkjum félögin eru skráð, t.d. eru flest fylki þar sem ábyrgðin er eingöngu felld niður á því sam varðar vanrækslu, ekki samningsbrotum o.s.frv. LLP í Bretlandi eru svipuð og LLC hér í Bandaríkjunum þar sem ábyrgð aðila er skipt jafnt þannig að enginn einn aðili er ábyrgur meira en aðrir.
Mér sýnist það því fara meira eftir því hvernig PwC á Íslandi er skráð heldur en hvernig félögin erlendis eru skráð. Ef Íslensk lög og skráning PwC á Íslandi er með þeim hætti að félagar beri enga ábyrgð þá er ólíklegt að það nái lengra en til PwC á Íslandi. Ef, hinsvegar, að ábyrgð er ekki borin á vanræsklu eingöngu, þá væri hugsanlega hægt að sækja skaðabætur vegna annarra brota, m.a. samningsbrota.
Þetta snýst heldur ekki allt um að sækja bætur. Arthur Anderson fór yfir um eftir Enron þar sem viðskiptavinir fyrirtækisins snéru við því baki eftir að það varð uppvíst að leggja blessun sína yfir reikninga fyrirtækisins vitandi að þetta voru allt saman kokkabækur, eins og virðist vera að koma upp um íslenska bankaruglið. Ef PwC yrði dæmt til skaðabóta á Íslandi vegna vanrækslu, gæti það haft víðtækar og afdrifaríkar afleiðingar fyrir fyrirtækið út um allan heim.
Íslensku bankarnir voru baktryggðir hjá Lloyds og skilanefndirnar eiga sennilega rétt á stórum fébótum þaðan vegna vanrækslu stjórnenda bankanna. En þá á Lloyds og önnur tryggingafélög líka bakkröfur á þessa rugludalla sem settu Ísland á hausinn.
Kveðja,
Arnór Baldvinsson, 12.12.2010 kl. 19:32
Sæll Arnór,
Þakka þetta fína innlegg.
Já LLP hér í Kanada er svipuð eins og þú lýsir í flestum fylkjum USA, nefninlega að takmörkun ábyrgðar nær aðeins til vanrækslu (negligence) og saknæmra athafna en undanskilur ekki aðra ábyrgð sem félagsformið "partnership" áskilur.
Í síðustu viku (fyrir þessa uppákomu) spurði ég prófessor í business lögfræði "hvað ef" spurningar sem hljóðaði svona. Setjum svo að KPMG á Íslandi verði dæmt fyrir vanrækslu, verður hægt að krefja KPMG aðalfélagið um skaðabætur?
Eftir þónokkra umhugsun, taldi þessi prófessor alls ekki svo vera.
Orðsporshrunið sem önnur PwC fyrirtæki um allan heim yrðu hugsanlega fyrir, yrði vart mælanlegt í skaðabótum.
Þessi yfirlýsing á heimasíðu PwC á Íslandi, lýsir því býsna vel, að þeir standa aleinir og ábyrgir fyrir aðgerðum sínum og aðgerðaleysi.
PwC" refers to the network of member firms of PricewaterhouseCoopers International Limited (PwCIL), or, as the context requires, individual member firms of the PwC network. Each member firm is a separate legal entity and does not act as agent of PwCIL or any other member firm. PwCIL does not provide any services to clients. PwCIL is not responsible or liable for the acts or omissions of any of its member firms nor can it control the exercise of their professional judgment or bind them in any way. No member firm is responsible or liable for the acts or omissions of any other member firm nor can it control the exercise of another member firm's professional judgment or bind another member firm or PwCIL in any way.
Jenný Stefanía Jensdóttir, 12.12.2010 kl. 20:19
Sæl.
Sé ábyrgðinni svona háttað, þ.e. að hvert fyrirtæki í sínu landi ber eitt sér ábyrgð á sér, nota endurskoðunarfyrirtækin á Íslandi afar misvísandi og jafnvel villandi lýsingar á sjálfum sér að því er varðar yfirskriftir á t.d. heimasíðum þeirra. Þær gefa sterklega í skyn, vægast sagt, að þar sé um hið fjölþjóðlegt fyrirtæki að ræða, hið fjölþjóðlega PWC, sbr. eftirfarandi dæmi (þ. 12.12.2010):
Á heimasíðunni http://www.pwc.com/is/is/index.jhtml stendur t.d. "Skattavakt PwC", "Fyrirtækjaráðgjöf PwC", "PwC á Íslandi", "sérfræðingar PwC", o.s.frv.
Í kynningarbæklingi sem tengist síðunni, um "Áhættustjórnun og innra eftirlit", kemur fram nafngiftin "PriceWaterHouseCoopers hf."
Allt þetta og í þessum dúr gefur lesandanum það sterklega til kynna, a.m.k. að óathuguðu máli, að hér sé um að ræða fjölþjóðlegt fyrirtæki, eða útibú þess á Íslandi. Væntanlega er tilgangurinn sá að auka trúverðugleika hins íslenska endurskoðunarfyrirtækis, sem virðist sem sé vera útibú eða deild í hinu "fjölþjóðlega" fyrirtæki PWC.
Varðandi KPMG heitir það sömuleiðis "KPMG á Íslandi" á vefsíðu þess endurskoðunarfyrirtækis, sbr. http://www.kpmg.is/
Einnig kemur nafn þess fram sem "KPMG hf.". Hvoru tveggja gefur í skyn að hér sé fjölþjóðlegt fyrirtæki á ferðinni, eða útibú þess á Íslandi, þótt virðist mega lesa annað í hinu margslungna smáa letri neðanmáls á vefsíðunni.
Kristinn Snævar Jónsson, 12.12.2010 kl. 22:35
Sæl og takk fyrir þennan fróðlega og góða pistil. Ég held að samtenging endurskoðunarfyrirtækjanna skipti ekki miklu í þessu. Klúðrið er hvort eð er of stórt til að þau ráði við að greiða fyrir það ef dómar færu á þann veg. Þannig að það eru tryggingarnar sem öllu skipta. Hve háar þær eru og hvort þær dekka þau mistök, misferli eða afglöp sem hugsanlega sannast á endurskoðunarfyrirtækin er það sem skiptir máli í þessu fyrir Íslendinga. Svo er hitt annað mál hvað tryggingarfélögin gera í framhaldinu, varðandi ábyrgð og endurkröfur, og hvernig málin munu koma við þá einstaklinga sem settu nöfn sín á reikninga bankanna.
En svo er það auðvitað þannig að falli dómar um vanrækslu og skaðabótaskyldu endurskoðunarfyrirtækjanna, þá er það auðvitað verulegur hnekkir fyrir öll endurskoðunarfyrirtæki sem nota t.d. PWC nafnið, eru hluti af þeirri samsteypu. Þannig að það nafn verður eflaust ónýtt falli dómar og skaðabætur á einhver þessara fyrirtækja vegna bankahrunsins hér. Ég býst þá við að menn verði fljótir að búa til ný nöfn og kennitölur á þessi fyrirtæki. Er það ekki það sem hefur alltaf tíðkast hjá þessum stóru samsteypum þegar eitthvað bjátar á?
Jón Pétur Líndal, 12.12.2010 kl. 23:17
Sæll Jón Pétur,
Ég er sammála með samtenginuna, en var hálf hissa á að heyra haft eftir alþingismanni sem auk þess er lögfræðingur að herja þyrfti á móðurábyrgðina.
Það var einmitt þetta sem gerðist með Anderson nafnið, þó þeir hefðu verið sýknaðir var orðsporið horfið, og því fóru allir endurskoðendur þeirra að starfa undir nýju nafni. Það eru 150 starfsmenn hjá PwC, sem langflestir eru vonandi færir á sínu sviði og frammúrskarandi fagfólk. Þeir sem bera hina endanlegu ábyrgð, verða væntanlega ekki þeir sem stýra "nýrri kennitölu" ef ég fengi að ráða!
Jenný Stefanía Jensdóttir, 13.12.2010 kl. 02:43
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.