Nei verður Já og Já verður Nei.

Þessa dagana fer fram að mörgu leyti mjög athyglisverð kosning í Bresku Kólumbíu. 

1. Atkvæðagreiðslan snýst um að samþykkja eða hafna sameinuðum "virðisaukaskatti", sem fráfarandi fylkisstjóri setti á og varð honum að falli.

2.  Atkvæðagreiðslan fer fram í póstkosningu

3. Þeir sem voru á móti sameiningu skattsins og voru í "nei" liðinu, þurfa nú að svara "já" vegna furðulegs orðalags á atkvæðaseðli.

Forsaga:p_mugshot-gordon-campbell.jpg

GST eða hinn eiginlegi virðisaukaskattur hér í Kanada er 5%, síðan er fylkistengdur söluskattur, PST lagður á vörur og þjónustu, með sérstökum undantekningum þó.  PST hér í BC var 7% en t.d. í olíufurstafylkinu Alberta er hann 0.  Þá var þessi skattur 8% í Ontario.  Þegar skatturinn var sameinaður voru flestar undantekningingar felldar niður, og sameinaður HST yrði 5+7= 12%.

Þessi skatta"hækkun" er talin helsta ástæða fyrir falli  fylkisstjórans Gordon Campbell, sem hafði þó sem fylkisstjóri, hrist af sér þá skömm að vera tekinn fullur undir stýri á Hawaii, og lögreglumynd af kappanum birst í öllum dagblöðum í upphafi árs 2003.  

Undanþága frá PST vegna vinnulaunahluta þjónustu skyldi felld niður, með þeim afleiðingum fyrir almenning að hárklipping, málning, húsbyggingar og fleira hækkaði í verði sem nam 7% á vinnuhlutann.  Á móti kemur að virðisaukaskattsskyldir aðilar mega nýta PST hlutann sem fullan innskatt, af vöru og þjónustu til eigin nota, sem skv. Gordon Campbell átti að skila sér í lægra vöruverði.

Þó að hagfræðileg rök séu fyrir því að vöruverð lækki í verði, þá er mikil tregða á því.  Ástæður eru margvíslegar, m.a. að  viðskiptalífið hefur þurft að gleypa aðrar hækkanir eitt og óstutt án þess að geta þrýst þeim að fullum þunga út í verðlagið. 

Þess í stað hefði fylkisstjórinn átt að lækka PST hlutann um 1-2% þannig að heildarskatturinn hefði orðið 10-11% og hann sæti trúlega enn við völd, og ég ekki að fjalla um þessa atkvæðagreiðslu.  Kosningabaráttan stjórnar snýst um að HST fái að halda sér en lofað er lækkun á skattinum niður í 10% fljótlega.  

 

Póstkosning

Almenningur knúði fram þessa (þjóðar)atkvæðagreiðslu og nú hafa atkvæðaseðlar verið sendir til kjósenda.

Í kosningaumslaginu eru 3 umslög  A-B-C og kjörseðill. Þegar búið er að krossa við Já eða Nei er kjörseðillinn settur í A umslag sem er merkt "Secrecy Envelope".  Það er síðan innsiglað og sett í annað umslag, með nafni og heimilisfangi kjósandans.  Kjósandi skal staðfesta með undirskrift og símanúmeri, en kjörstjórn áskilur sé rétt til að hringja og kanna hvort viðkomandi hafi kosið.  Loks er þetta umslag sett í frímerkt umslag merkt kjörstjórn.

Þessi aðferð svipar mjög til utankjörstaðaatkvæðagreiðslu, sem ég hef ítrekað tekið þátt í hér vestan hafs vegna þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave og fleira á Íslandi.  

Áhugavert væri að kostnaðargreina þessa aðferð og bera saman við kostnað vegna hefðbundinna kosninga og velja það sem hagkvæmara er, þó svo að rafræn kosning sé á næsta leyti.

Orðalag kjörseðils - leiðandi spurning

Þeir sem voru á móti og sögðu NEI sín á milli um  sameiningu PST og GST, verða nú að vera á varðbergi, því á kjörseðlinum stendur í lauslegri þýðingu:

"Ertu fylgjandi því að hætta við HST og endurvekja PST?"  Já eða Nei

Þeir sem svara Já eru því á móti HST

Þetta orðalag hefur vakið furðu og rugling, og nokkrir fjölmiðlar hafa sýnt fram á að mjög margir misskilja þessa spurningu.

Væri sambærilegt ef atkvæðaseðillinn um aðild Íslands að ESB hljómaði svona:

      esb_nei_takk.jpg  Ertu fylgjandi því að fella ESB samninginn?  ja_esb.jpg

           Meira að segja lógóin myndu svínvirka áfram.LoL


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Heil og sæl; Jenný Stefanía, jafnan !

Athyglisverð málsmeðferð; hjá sveitungum þínum, Kanadamönnum - sem önnur aðferðafræði, annað, en hjá nágrönnum okkar, í Evrópusambands rusla kistunni.

Ætíð þakkarvert; þrátt fyrir ambögur ýmsar, hér úti á Íslandi, að landið skuli þó teljast, til Norður- Ameríkuríkja - og; gæti orðið bjargráð gott, þegar á Hólminn er komið, fornvinkona góð.

Með beztu kveðjum; sem fyrri - að Kletta fjalla sölum /

Óskar Helgi Helgason  

 

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 14.7.2011 kl. 23:05

2 Smámynd: Jenný Stefanía Jensdóttir

Heill og sjáll sjálfur Óskar Helgi!

Allt er afstætt á þessari kúlu, nú er ég nýkomin úr löngu sumarfríi á Eyjunni fögru, þar sem ég naut veðurblíðu, gestrisni og náttúrufegurðar.  Hér undir Klettafjöllum, grenja menn með rigningunni, blóta og bölva veðrinu.  

Þær eru dökkar blikurnar hér sunnan landamæra, þegar 14 trilljón dollara skuld er endanlega að buga efnahaginn, og undir "góðmennsku" Kína komið, hvort lán fáist framlengd eða verði gjaldfelld!

Góðar kveðjur í fagra Árnesþing

Jenný Stefanía Jensdóttir, 15.7.2011 kl. 01:33

3 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Orwell hlær í gröfinni...

Guðmundur Ásgeirsson, 15.7.2011 kl. 03:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband