24.8.2011 | 19:48
Lagskiptur rekstur OR
Áhugaverð ummæli stjórnarformanns um rekstur þessarar fyrrum mjólkurbelju Reykjavíkurborgar, sem margir voru sammála og göntuðust með að það tæki tæran snilling, að setja Hitaveituna og Rafmagnsveituna á hausinn!
Hin tæra snilld spratt auðvitað fram, skorin voru júgrin af beljunni og beintengt inn á kirtlana með haugsugu, og "undirliggjandi" rekstrarafkomu næstu 100 ára fretað út um borg og bý og byggð eldhúskompa á heimskvarða oflætis.
Nú þurfa, nei verða, notendur veitunnar að draga blóðuga beljuna að landi og greiða 40% hærra orkuverð. Sú montsaga í útlöndum gildir því ekki lengur að Íslendingar hiti upp öll hús sín með ódýrustu og vænustu orku í heimi.
Hvað er annars þessi undirliggjandi "batnandi" rekstur annað en hærri tekjur vegna þessarar hækkunnar og svo e.t.v. niðurskurður í eldhúsvinnslu rekstrarins?
Mið- og yfirliggjandi rekstur sjoppunnar; vextir - gengismunur og rekstur "blætis fjárfestinga" fyrri ára fer seint batnandi í þessu árferði.
Ekkert fer eins í fínu taugarnar á undirritaðri eins og að lesa um "bókhaldslegt tap og hagnað" eins og fyrirbærið væri óþægilegur steinn í skónum og væri alls ótengt sjálfum rekstrinum, undir eða yfirliggjandi og allt um kring.
Rekstur OR á uppleið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Sæl aftur Jenný,
nú erum við sammála. þessir nýju tæru snillingar gnarrismans í stjórn OR eru drjúgir með sig því þeir tapa aðeins minna en þeir héldu sjálfir að þeir myndu gera. Þó eignirnar minnki um milljarða og kerfið sem kostaði blóð,svita og tár að byggja upp í árdaga Reykjavíkurveitna liggi undir stórfeldum skemmdum vegna 0 viðhalds og skuldafenið sé jafndjúpt og áður þá er reksturinn á uppleið. Guð forði okkur frá slíkum snillingum!!!
Sveinn Úlfarsson (IP-tala skráð) 25.8.2011 kl. 08:37
Heil og sæl og takk fyrir ádrepuna.
Dreg ekki úr áhyggjum þínum vegna skuldavandans en tvennt vildi ég nefna:
1. Þrátt fyrir gjaldskrárhækkanir er orka á Íslandi afar ódýr í samanburði við grannríki og jafn græn og áður.
2. Það hefur tekist að skera talsvert niður i rekstrinum og erum enn að. Árangur sést m.a. í miklum samdrætti fjárfestinga í veitukerfum, lækkandi launagreiðslum og minni kostnaði við rekstur bílaflota og mötuneytis, svo dæmi séu tekin.
Þegar gengið sveiflaðist í hina áttina og myndaði "hagnað" var spurt hvort þörf væri á uppsögnum starfsfólks, eignasölu, frestun viðhalds o.s.frv. Kannski eðlilegar spurningar. Jafn bráðnauðsynlegt og það er að leitast við að draga úr áhættunni af gengissveiflunum, mega hin miklu áhrif þeirra ekki verða til þess að við missum sjónar á því sem er að gerast í rekstrinum sjálfum.
Kær kveðja,
Eiríkur Hjálmarsson
Orkuveitu Reykjavíkur.
Eiríkur Hjálmarsson (IP-tala skráð) 25.8.2011 kl. 09:51
Sælir,
Eldsnöggt gúggl, leiddi mig að þessari síðu, með mjög greinagóðri lýsingu á rekstrarafkomu, samanborið við snubbóttu "fréttina" í MBL. Fann enga sambærilega á íslensku þó.
http://borsen.dk/vaerktoejer/virksomhedsside/artikel/direct/2/263497.html
Í ljós kemur að hinn umtalsverði rekstrarsparnaður er rúmlega 5% sbr.við fyrra ár eða 341 milljón. Þetta er vissulega markverður árangur, en tilfinning margra er að vel sé hægt að skafa enn fitu af rúmu 6 milljarða rekstrargjöldum. Rekstrarhagnaður eykst hins vegar um rúma 3 milljarða eða 23%.
Fjármagnsliðir eru "rollerkósterinn" í rekstrinum, sem sést best á því að 6% gengisbreyting á tímabilinu leiðir til þess að þessi liður er rúmir 11 milljarðar í mínus sbr. við nær 3 milljarða hagnað á síðasta ári.
Vonandi tekst ykkur að koma "flaggskipunum" í verð svo hægt verði að sníða rekstrinum stakk eftir getu.
Þó ég búi ekki beint í "nágrenni" við Íslandi, fer ég nú beint í það að bera saman húshitun og rafmagnskostnað, set það inn hér síðar með von um að fá tölur frá Reykjavík til samanburðar.
Jenný Stefanía Jensdóttir, 25.8.2011 kl. 14:48
Hér er eitt dæmi um húshitun og rafmagn vestan Klettafjalla.
12 mánaða tímabil
Stærð húss 300 fm fjöldi fullorðinna 5
Rafmagn CAD$ 899,01 @ 115 = ÍSK 103.386
Hiti (náttúrugas) CAD$ 1365,33 @ 115 = 157.013
Samtals ISK 260.399 eða 870 kr á fermeter á ársgrunni af grænni náttúrulegri orku (vatnsafl og gas)
Fróðlegt væri að sjá sambærilega tölu frá Íslandi, þó erfitt sé að bera saman algjörlega epli og epli!
Jenný Stefanía Jensdóttir, 25.8.2011 kl. 15:25
Allar tölur án VSK( HST) 12%
Jenný Stefanía Jensdóttir, 25.8.2011 kl. 18:10
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.