Stalst í Styrmi!

Stelst stundum að lesa innlendan vettvang fyrrverandi ritstjóra MBL af ýmsum ástæðum. 

Ein stærsta ástæðan er sú að hann snuðaði okkur um skýringar á margtuggðum og líklega frægustu ummælum sem lesa má í skýrslu RNA um "ógeðslega og prinsipplausa þjóðfélagið s.l. 50 ár".  

Greinaflokkurinn innlendur vettvangur er nefninlega alveg fyrirtaks vettvangur fyrir hann  til að skýrgreina nánar hvað og við hvern er átt!   Dæmi eru líka vel þegin, því ef heimildir mínar eru réttar mun "Spillingarsaga Íslands" vera í skrásetningu hjá Þjóðminjasafninu þessi misserin.  

Þangað til kýs ég að skilja ummæli Styrmis mjög vítt, sem aftur á móti gera allar "tóld jú só" sögur hálfógeðslegar líka.  

Fleiri ástæður lúta m.a. af fyrri kynnum af ritstjóranum og lestri leiðara eftir hann, sem stundum fengu hárin til að rísa af fögnuði, þegar hann fjallaði um gjafakvótann og ruglið í kringum hann, en líka af því að umfjöllun blaðsins var oftast í sæmilegu jafnvægi milli ólíkra skoðana, nema rétt fyrir kosningar að sjálfsögðu.   Auk þess veit ég frá fyrstu hendi að ritstjórinn kynnti sér flestar hliðar mála af yfirvegun, og dróg sínar ályktanir út frá þeim.

Lestur innlends vettvangs í dag 18. september 2011, fær mann til að gúggla hvort einhver á jörðinni hafi orðið var við geimskip, sem skilaði  Styrmi aftur til jarðar, eftir 3ja ára útlegð.  

Þjóðarbúið er of dýrt í rekstri  er yfirskriftin, og svo virðist að uppljómunin hafi birst eftir viðtal við "mann af nýrri kynslóð Íslendinga, sem hefur gengið hægt um gleðinnar dyr og uppskorið í samræmi við það."

Gott og vel.  Sjálf hef ég verið ötull talsmaður þess að "ný kynslóð" Íslendinga fái svig- og ráðrúm til að feta sig t.d. á stjórnmálasviðinu.   Því miður er það svo að kynslóð Styrmis; er þrásetnari en Gaddafi og Saddam til samans; og hún má þakka fyrir að "breiðu blóðugu spjótin" eru týnd og tröllum gefin s.l. þúsund ár, því fæstir nútíma Íslendingar vilja berjast á banaspjótum, þó tunga þeirra geti verið bæði hárbeitt en líka þvoglu og þrástagakennd.

Ég tek undir allt tal um óhagkvæmni í ríkis og sveitafélagarekstri, en þegar kemur að "einka" pakkanum þá verður brekkan fljúgandi hál!  

Er ein af þeim sem snupraði stofnanda Bónus á hádegisfundi um árið, af því að mér fannst "rjómafleyting" þeirra á bókamarkaðnum (hálf) ógeðsleg.  Þessi fleyting þurrkaði enda út allar litlu bókaverslanirnar sem settu svip á bæinn. 

Í nafni frjálsrar samkeppni urðu til stórar einingar sem enginn gat keppt við í verði, og því auðgaðist flóra viðskiptanna á þverveginn, eins og t.d. í þjónustu og jafnvel undarlegheitum allskonar.  Nú spyr Styrmir eins og geimvera;  "Hvað ætli valdi því að ritfangaverzlun hefur allt í einu aukizt svona mikið?"  Sjálfri finnst mér þetta spennandi spurning ef rétt er, því slíkt bendir til að grundvöllur sé aftur fyrir hverfisverzlunum og rómantík!  Það má jafnvel skilja skrif Styrmis á þann hátt að hugmyndafræði Marteins Mosdal um  eina ritfangaverslun, eina kjörbúð, eina bílasölu, eina Húsasmiðju osv fr. sé freistandi.    Ég sagði má skilja ...... trúi samt ekki fyrr enn í fulla hnefana að fyrrverandi ritstjórinn sé að meina slíkt.

Allt þetta tal um rekstur þjóðarbúsins, má samt ekki undanskilja grundvöllinn sjálfan; sem er að fólk hafi atvinnu og laun til að kaupa vörur og þjónustu hvort af öðru.  Og að greiða skatta og skyldur til samfélagsins til að standa undir öllum þingmönnunum og aðstoðarfólki þeirra, sem ritstjórinn bendir réttilega á að er svona meira í okkar valdi að skera "fituna" af.

Hér í Kanada eru 98% af fyrirtækjum skilgreind sem "lítil" fyrirtæki sem njóta sérstakrar ummönnunnar (lesist skattaívilnunar)  af yfirvöldum, vegna þess að þau skilja að einyrkjar og fjölskyldur þeirra,  sem sjá fyrir sér sjálf eru "púðrið og dýnamítið" í atvinnulífinu.  Vaxtarkúrfa einyrkja og lítilla fyrirtækja er enda aðalmælikvarðinn á "heilbrigði" kanadíska hagkerfisins!

Ég er búin að fylgjast með þessu þjóðfélagi í 30+ ár.  Ég er sannfærð um að ef við náum að lama  spillinguna og örva  tæra útsjónarsemi og hugvit sem að sönnu býr í landanum, ekki sízt í þessari nýju kynslóð Íslendinga, sem Styrmir fjallaði um, þá getur kynslóðin sem nú stendur á ellilífeyrisbrúninni, um frjálst höfuð strokið, allavega enn um sinn.  

Hún verður samt að láta af "ofsanum og bræðinni" sem hún hefur prjónað um sig þessi 50 ár.  Hvort þeir kjósa að dvelja sitt ævikvöld í raðhúsi í Mosfellsbænum allir saman,hlið við hlið,  hljóta þeir samt að fara að skynja sinn vitjunartíma, því það er einhvern veginn eins með þá og rokkið gamla, ....... það hafa ekki komið almennilegar hljómsveitir eftir 1971 ........ að þeirra mati!

 

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haraldur Hansson

Þarf nokkuð að "stelast" í Styrmi?

Það er margt prýðisgott í þessari færslu, en ég sé ekki hvernig þú kemst að þessari niðurstöðu með Martein Mosdal!

Ef þú skoðar Evrópuvaktina sést fljótt að Styrmir og Björn eru af þeirri kynslóð sem mótaðist þegar einu fjölmiðlarnir voru dagblöð og Gufan. Þetta eru í raun blaðagreinar á netinu, oft langar, þar sem allra formsatriða er gætt. (Kannski að ég gefi mér tíma til að lesa þær af því að ég fylli hálfa öld sjálfur. Og ég las þessa löngu færslu þína til enda, í rólegheitum líka.)  

Stíll Styrmis er eins. Hann segir það sem hann meinar, skýrt, greinilega og alltaf öfgalaust. Skilur ekki eftir hálfkveðnar vísur fyrir lesandann að túlka. Þess vegna hnaut ég um setningu þína sem byrjar á "Það má jafnvel skilja skrif Styrmis á þann hátt ..."

Ef þú rýnir betur í greinina er ekkert pláss fyrir Martein Mosdal. Þarna fjallar hann um ofvöxt í ákveðnum þjónustugreinum. Ég sá einhvers staðar að hér á landi séu jafn margir fermetrar í matvöruverslun á hverja 2.500 íbúa og eru í Svíþjóð fyrir hverja 25.000 íbúa. Þetta er ofvöxturinn sem hann er að tala um. Og að ráð væri að aukna hagkvæmni og ódýrari rekstur.

"Við viljum frjálsa samkeppni" segir hann í lokakaflanum og undirstrikar svo það sem er í fullri andstöðu við herra Mosdal með "draga úr þeim umframkostnaði sem ofvöxtur hefur hlaupið í, án þess að það leiði til ofstjórnar eða miðstýringar." 

Haraldur Hansson, 18.9.2011 kl. 12:11

2 Smámynd: Jenný Stefanía Jensdóttir

Sæll Haraldur,

Það er ótrúlega stutt í Mosdalinn í öllum, jafnvel undir regnhlíf frjálsrar samkeppni, því kappið snýst um að ná alltaf stærri markaðshlutdeild, sem svo aftur leysir úr læðingi ógeðslegar hvatir, sem snúast um að þrampa á samkeppninni, (kaupa´na upp) og græðgin tekur völd.    

Ég fæ ekki séð með neinu móti hvernig hægt er " draga úr umframkostnaði í þeim greinum, sem ofvöxtur hefur hlaupið í, án þess að það leiði til ofstjórnar og miðstýringar" eins og Styrmir bendir á.  Miðstýring og jafnvel ofstjórn yrði það ef einhver ætlar að segja;  "nei góurinn, við erum með nóg af kjörbúðum, ekki pláss fyrir fleiri" við aðila sem er með nýja og brilljant hugmynd af kjörbúð.  Eftir að ákveðnni stærð er náð, þá virðist myndast gífurleg tregða því reksturinn  er ekki settur á hausinn, sama hversu tæknilega gjaldþrota hann er.  

Þeir sem gætu mögulega stýrt þessu eru fjármagnseigendurnir (ljótu bankarnir), með því að líta aðeins á markaðsumhverfi lánbeiðanda líka, í staðinn fyrir 40 síðna business plan, sem inniheldur núvirt jákvætt 10 ára sjóðsstreymi, byggðu á þeirri grundvallarforsendu að Íslendingar séu 3 milljónir.

Það má vel vera að hátt bensínverð og fækkun bifreiða, sé að skapa nýtt pláss fyrir litlar hverfisbúðir á ný, þar sem fólk gat labbað eða hjólað út í búð.  Sjálfri finnst mér t.d. miðbærinn Laugavegur og Skólavörðustígur vera nær eingöngu ferðamannamiðaður, þó einstaka hetjur í búðarekstri haldi enn haus mitt í öllum lopanum.

Vil þess vegna setja allan þunga í þessari umræðu á sjálfan ríkis- og sveitafélagareksturinn, án aðkomu kjörinna fulltrúa, því þeir eiga aldrei eftir að skera undan sjálfum sér.

Jenný Stefanía Jensdóttir, 18.9.2011 kl. 14:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband