Var peningaþvætti stundað á Íslandi? 3.kafli

Hvernig stóð Ísland sig í aðgerðum gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka?

Frá og með gjaldeyrishöftum sem sett voru á s.l. haust, brustu allar forsendur fyrir peningaþvætti á Íslandi, hafi þær verið fyrir hendi.  Óheft gjaldeyrisviðskipti, er grunnforsenda fyrir stórþvotti "skítugra" peninga.  Hins vegar má leiða líkum að því að brotthvarf slíkrar þvottastarfssemi hafi hún verið í miklum mæli  í litlu hagkerfi, hafi ýkt þær alvarlegu afleiðingar sem hrun bankakerfisins hafði s.l. haust.  Um það verður fjallað í öðrum kafla.

Forvitnilegt er hins vegar að skoða aðgerðir og varnir sem voru viðhafðar gegn peningaþvætti í íslensku hagkerfi árin 2006-2008

Ísland er ásamt rúmlega 30 öðrum löndum meðlimur í samtökum FATF (Financial Action Task Force) sem vinna gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

World Money Laundering

Í 10 daga í maí 2006, mætti matsnefnd til Íslands til að mæla hvernig fjármálastofnanir, íslensk stjórnvöld, lög og reglur  uppfylla tillögur og fyrirmæli sem samtökin setja meðlimum.

Nefndin skilaði  u.þ.b 170 bls. skýrsla  og auk þess er læsilegri  18 bls. úttekt úr skýrslunni sem einnig er að finna á heimasíðu samtakanna.

Skýrslan var rædd í október 2006 hjá samtökunum í Vancouver, og gaf Iðnaðar-og Viðskiptaráðuneytið út fréttatilkynningu þess efnis, þar sem þeir töldu að niðurstöður hefðu verið almennt jákvæðar en jafnframt hafi komið fram, eins og venja er, ábendingar um það sem talið var að  betur mætti fara í löggjöf og framkvæmd. 

Því var heitið að áfram yrði haldið að styrkja varnir Íslands og að ráðgjafanefndin sem vann að úttektinni með FATF myndi starfa áfram.

Þetta vakti óskipta athygli mína í þekkingarleit um peningaþvætti á Íslandi, og því fór ég í gegnum úttektina.

Eins og matsaðilum er tamt, gefa þeir "einkunn" við þeim matsatriðum sem framkvæmd eru.  Þessi einkunn skiptist í fullnægandi, að mestu fullnægjandi, ábótavant að hluta, ófullnægandi.  Auk þess má finna greinagóða úttekt á þeim atriðum sem matsnefndin taldi ábótavant og alvarlegt.

Ég snaraði þessu yfir á hefðbundið einkunnarkerfi, og útkoman á matinu var 6,7 eða C

Þessi úttekt var að vísu gerð fyrir gildistöku laga um peningaþvætti, sem vísað er í, í 2.kafla, svo ekki er alveg ljóst hvort nefndin tók tillit til nýju laganna að hluta eða öllu leyti í matinu.

Hér verða talin upp nokkur atriði sem matsnefndin taldi ófullnægjandi og í sumum tilfellum alvarleg:

Viðurlög við brotum um peningaþvætti sýnast vera mjög væg (sekt), einkum í samanburði við svipuð fjárhagsbrot (6 ár).  Dómkvödd viðurlög hafa einnig verið mjög væg, jafnvel í málum sem varða eiturlyfjabrask, þar sem hæstu viðurlög leyfa 12 ár.  Refsiábyrgð lögpersóna (fyrirtækja) þykir mjög þröng.  Viðurlög þykja þannig almennt ekki virka letjandi né áhrifarík í baráttu gegn peningaþvætti.

Tímabundin upptaka eigna   Ströng sönnunarbyrði af hálfu saksóknara hindrar árangursríka tímabundna upptöku eigna.  Skortur á gögnum til staðfestingar á ákvæðinu gefur matsmönnum ekki fullnægjandi sannfæringu fyrir því að þetta ákvæði virki.  Vísbendingar benda til að í öllu kerfinu, sé litið á upptöku eigna sem minniháttar forgangsmál.

Könnun á áreiðanleika viðskiptamanna    Það eru engar almennar kröfur um að kanna endanlegan eigenda "viðskiptavinarins".  Ekki eru gerðar kröfur til banka að ákvarða á skilmerkilegan hátt hvort viðskiptavinurinn er að vinna í umboði annars aðila.  Engar skýrar kröfur um nauðsyn þess að skilja eignarhald og stjórn lögaðila, né að staðfesta hvort manneskjan sem framkvæmir viðskipti hafi til þess lögmætt umboð.

Einstaklingar í áhættuhópi vegna stjórnmálatengsla.  Ísland féll á þessu atriði  þar sem engin slík tengsl eru könnuð.  Í lögunum sem tóku gildi í júní 2006, var gildistöku eins ákvæðis nr. 12 frestað til 1.janúar 2007, ákvæðinu um áhættuhóp vegna stjórnmálatengsla.  (hvers vegna þurfti að fresta þessu ákvæði?)

Viðskipti 3ja aðila  Bönkum er ekki gert að taka nauðsynleg skref til að sannreyna að 3ji aðili sé skráður og uppfylli skilyrði um áreiðanleika.

Óvenjulegar yfirfærslur    Lögin gera ekki skilmerkilegar kröfur um að kanna í þaula bakgrunn og ástæðu yfirfærslna, aðeins minnt á þetta í almennu orðalagi í skýringum.

Skráning grunsamlegra færslna  Skráningarskylda felur ekki í sér skráningu á viðskiptum innherja/markaðsmisnotkun, vopnabrask, þátttöku í skipulögðum glæpasamtökum, þar sem engir slíkir glæpir hafa verið tengdir við peningaþvætti á Íslandi.  (innskot í kafla 2 er fjallað um líklega fyrsta peningaþvættismál sem upp hefur komið á Íslandi um markaðsmisnotkun og innherjaviðskipti)  Nefndin hefur áhyggjur af þessu skráningakerfi í heild og að trygginga og verðbréfafyrirtæki skrá ekki grunsamlegar færslur, né þeir sem stunda gjaldeyrisviðskipti, enda sé ekkert eftirlit haft með því.  

Innra eftirliti  stórlega ábótavant.  Nýju lögin innihalda ekki skilgreindar reglur um innra eftirlit og hvað það þarf að innifela.  Þannig efast nefndin um framkvæmd og eftirlit laganna með áreiðanleika viðskiptamanna.

Ytra eftirlit  almennt ábótavant, vegna skorts á þekkingu og endurmenntun, skorts á mannafla, og fjármagni.  Þrátt fyrir að samþykktir og reglur séu til staðar, eru engin viðurlög gagnvart framkvæmdastjórum og þeim sem ábyrgð bera á framfylgd laganna.

Tölfræðileg gagnasöfnun  fékk falleinkunn í þessari úttekt, enda hefur skráning í samræmi við tillögur samtakanna ekki verið framkvæmd, eða hafist á þessum tíma (2006)

Þessi listi er miklu ítarlegri, og fátt kemur raunar á óvart, einkum er varðar ytra eftirlit, enda hefur Fjármálaeftirlitið þrástagast á þeirri ástæðu að mannekla og skortur á fjármagni hafi verið meginorsök fyrir  takmörkuðu eftirlit  með íslenskum fjármálamarkaði yfir höfuð, hvað þá fjarrænum glæpum eins og peningaþvætti 

Þetta var 2006, síðan liðu 2 ár þar til bankakerfi Íslands hrundi gjörsamlega sumum að óvörum.

Forvitnilegt væri að vita hvernig og hvort þessum ábótaatriðum frá 2006 hafi verið sinnt og unnið að úrbótum, á þeim tíma sem gjaldeyrisfærslur og peningamagn frá og til Íslands náði stjarnfræðilegu hámarki.

Ef ég væri Godfather, væri eitt af daglegum verkefnum að kanna hvaða lönd í heiminum hefðu heppilega veikan infrastrúktur til að berjast gegn þvotti á mínum skítugu peningum.  Fljótlega hefði ég  rekist á þessa skýrslu FATF og kallað saman skyndifund með mafíunni og sagt þeim að ég hefði fundið "gósen" þvottastöð norður í hafi.

Ef ég væri mafíósi og hugsaði svona, hvers vegna skyldu aðrir ekki hafa gert það.

.... og ef þeir hafa hugsað því myndu þeir ekki hafa framkvæmt það?

 

godfather

Næsti kafli í vinnslu.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Þetta er orðið á við háspennu glæpareifara. Þó hryllingurinn hríslist um mig þá drekk ég í mig hvert orð og bíð spennt eftir framhaldinu. Hafðu þakkir fyrir alla vinnuna sem þú leggur í þessa fróðlegu hryllingssögu!

Rakel Sigurgeirsdóttir, 1.9.2009 kl. 23:15

2 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Þakka þér fyrir þessa færslu. Mjög athyglisverð.

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 2.9.2009 kl. 00:43

3 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

TAkk fyrir mig...

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 2.9.2009 kl. 01:10

4 Smámynd: Finnur Bárðarson

Vá! þetta var nú mögnuð færsla Jenný. Þarf að lesa hana nokkrum sinnum já og uppi í rúmi.

Finnur Bárðarson, 2.9.2009 kl. 17:12

5 Smámynd: Jenný Stefanía Jensdóttir

Þakka innlit og undirtektir ágæta fólk,

Lít á þetta sem svona prívat-pælingar, sem glósaðar eru niður, öðrum til upplýsingar ef áhugi er fyrir hendi.

Svona eins og í gamla daga, þegar maður leyfði öðrum að lesa glósurnar sínar, og fékk að lesa glósur annarra í staðinn.

Jenný Stefanía Jensdóttir, 2.9.2009 kl. 17:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband