Með vottorð í siðferði! "The Spirit of the standard"

Þrátt fyrir að hafa setið ótal tíma í reikningshaldi hjá "Grandfather reikningshalds" á Íslandi, Stefáni Svavarssyni, dettur mér ekki í hug að líta á vottorðið, sem vottorð í siðferði.

Á hinn bóginn, er ljóst að Félag Löggiltra Endurskoðanda hefur skítfallið á meginmarkmiði sínu:

" að gæta samfélagslegra hagsmuna" í aðdraganda hruns. 

Allur sá lærdómur, sem átti og mátti draga af falli Enrons, og hratt af stað miklum breytingum í reikningsskilaaðferðum hjá endurskoðendum víða um heim,  virðast fljótt á litið, aðeins hafa snúist um að vernda endurskoðendur,  þ.e. firra þá ábyrgð.

Það er með hreinum ólíkindum, að ekki skuli hafa heyrst stuna frá einum einasta endurskoðanda, þessara glæpafélaga, sem stunduðu "skipulagða" glæpastarfsemi, sem þarf ekki einu sinni hámenntaða endurskoðendur til að fatta.

Í fyrirlestrum sínum á dögunum, ráðlagði William Black, að beita skynsemissjónarmiðum, þegar kemur að möguleikum til að endurheimta "ránsfenginn".

Í Bandaríkjunum, hefur þessi "djúpi vasi" fyrst og fremst verið í formi bótakröfu á tryggingafélag endurskoðenda.

Í lögum um endurskoðendur 6. grein ber endurskoðanda skylda til að hafa starfsábyrgðartryggingu.

  6. gr. Starfsábyrgðartrygging.
Endurskoðanda er skylt að hafa í gildi starfsábyrgðartryggingu hjá vátryggingafélagi sem hefur starfsleyfi hér á landi vegna fjárhagstjóns sem leitt getur af ásetningi eða gáleysi í störfum hans eða starfsmanna hans samkvæmt lögum þessum. Tryggingarskyldan fellur niður ef endurskoðandi leggur inn réttindi sín, sbr. 1. mgr. 24. gr.

 

„The spirit of the standard“
„Þetta er eitt af því sem að formaður núverandi
alþjóðlega reiknisskilaráðs er sífellt að brýna
fyrir mönnum. Hann er að segja að þið verðið
að finna „the spirit of the standard“ og vinna
í samræmi við hann en ekki að reyna að finna
einhver
göt og segja: Ja, það stendur hvergi
að ég megi ekki gera þetta, eða, það stendur
hvergi að ég þurfi að gera þetta. Þú átt að reyna
að finna þennan anda. Og það er aldrei hægt
í svona fagi að búa til einhvern tæmandi lista
af öllu því sem gera þarf, það er ekki hægt,
þannig að þú verður að tileinka þér þennan
hugsunarhátt,
bæði í endurskoðuninni og ég
er að segja: Lögin eru alveg nógu skýr til þess,
þannig að hafi menn ekki náð að staðfesta efnisinnihaldið
í reikningunum sjálfum þá er hægt
að halda því fram að menn hafi ekki staðið
sig í stykkinu.“
Úr skýrslu Stefáns Svavarssonar fyrir rannsóknarnefnd
Alþingis
23. október 2009, bls. 18.

 

Í ljósi þessa, langar mig að vekja athygli á þessum þrumupistli skálds, til excel skálda:

 

 

Guðmundur Andri Thorsson skrifar: bilde.jpg

Svo ótal margt þarf að endurskoða núna - söguna, sjálfsmyndina, pólitíkina, orðræðuna, þjóðarhugmyndina, siðferðið?… En fyrst og fremst þarf þó að endurskoða endurskoðendurna.

Þeir voru aðalskáldin í bænum.

Þessir súrrealistar klæddust gráu og þegar þeir töluðu streymdi grá þoka út um munninn á þeim. Þeir gerðu sjálfa sig ósýnilega en sköpuðu sér sterk tákn sem ekki urðu vefengd. Þeir tóku sér bólfestu í gráum háhýsum og kölluðu sig alþjóðlegum nöfnum sem virkuðu óskaplega ensk og heiðvirð. En þeir bulluðu meira en Jón Gnarr.

Traustið selt

Á bak við hvern útrásarvíking var her af þeim. Þegar við lýsum yfir óbeit okkar á auraspuna útrásarvíkinganna er rétt að hafa hugfast að þeir voru einungis hinn sýnilegi hluti þess villta tryllta spillta kapítalisma sem hér var innleiddur af trúarlegri staðfestu. Þeir sátu þarna einhvers staðar á bak við gráu mennirnir með útlensku skammstafanirnar og unnu baki brotnu við að finna leiðir til að brjóta reglur, koma undan, sniðganga, fela, flækja - gera það sem í daglegu tali er auðkennt með sögninni "að svindla" þó að það hafi sjálfsagt aldrei hvarflað að neinum þeirra. Þeir héldu að þeir væru að "spila fast", "leika sóknarbolta", "ganga eins langt og dómarinn leyfir". Þeir hugsuðu í fótboltaklisjum. Þeir höfðu allir lært það í skólanum að tilgangur lífsins væri að búa til vöru úr sér og fá pening. Með öllum ráðum.

Fram hefur komið að viðskiptahættir mannsins sem veðsetti bótasjóð Sjóvár í braski sínu hafi verið kenndir við Háskólann og nemendur sérstaklega látnir gera grein fyrir þeim á prófi. Það er ekki endilega vegna þess að kennarar við Háskólann séu siðlausir eða fábjánar - þeir hafa kannski bara ekki mikið hugsað út í rétt og rangt - og flækjurnar sem téður viðskiptamaður bjó til virðast hafa þótt svo athyglisverðar frá faglegu sjónarmiði að aðdáun hafi vakið. En það vantar augljóslega eitthvað í nám þar sem slíkt er kennt með velþóknun. Sjálf hugmyndafræðin á bak við það er röng. Sú hugmyndafræði að allt okkar háttalag og öll okkar einkenni sé vara á markaði: líka traust.

Með vottorð í siðferði

Viðskiptadeildir háskólanna framleiddu fólk sem skrifaði til dæmis upp á bókhaldið hjá Fl-Group sem hlýtur að hafa verið dularfullt því engu var líkara en að menn tæmdu með hlálegum flugfélagakaupum þá digru sjóði sem tekist hafði að nurla saman áratugum saman með einokunarokri á þrautpíndri þjóð. Þegar Vilhjálmur Bjarnason reyndi að grafast fyrir um undarlegar færslur af reikningum þá kom virðulegur endurskoðandi og traustsali frá firma með afskaplega langt útlenskt nafn og vottaði að ekkert óeðlilegt sæist. Það var mikið um slík vottorð á þessum árum. Í gamla daga voru sum okkar með vottorð í leikfimi - hér tíðkaðist að gefa hressum gaurum vottorð í siðferði.

Halldór Ásgrímsson (sem raunar er endurskoðandi) var í sjónvarpsviðtali á dögunum þar sem fram kom að ákaflega vel hefði tekist til við einkavæðingu bankanna, sem farið hefðu til aðila sem alls ekki tengdust þáverandi stjórnarflokkum; Finnur Ingólfsson bara forstjóri útí bæ, og hví skyldi hann gjalda þess að hafa verið einhvern tímann í Framsóknarflokkum? Halldór viðurkenndi með landskunnum semingi að ef til vill hefði eftirlitið brugðist, en benti hins vegar á að stjórnvöld hefðu treyst því að endurskoðendur gættu þess að allt væri eins og það ætti að vera - kannski út af öllum löngu og traustvekjandi útlensku nöfnunum.

Þegar sá mikli vefstóll, Enron, var afhjúpaður í Bandaríkjunum, beindu menn mjög sjónum að endurskoðendafyrirtækinu sem bæði annaðist ráðgjöf um auraspunann og endurskoðaði svo bókhaldið, Arthur Andersen. Af því tilefni var rætt við ýmsa endurskoðendur hér á landi í viðskiptablaði Moggans, þar á meðal einn hjá KPMG. Hann var spurður um nauðsynina á opinberu eftirliti með störfum þessarar stéttar. Hann telur það óheppilegt: "Opinbert kerfi sé oft þungt í vöfum og hætt sé við að því myndi fylgja stöðnun."

Stöðnun. Soldið fyndið orð hjá endurskoðanda. Bókhald er nefnilega svo skapandi.

 


mbl.is Mál án hliðstæðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvernig er ábyrgðatryggingu æðstu stjórnenda og fagaðila háttað á Íslandi?

Hvet alla til að hlusta á 2 fyrirlestra William K Black í Háskóla Íslands 4. og 5 maí s.l.

Ég vil fullyrða að þjóðarsálin hafi séð ljósið í dag, þegar tveir höfuðpaurar eins af "þremur stóru" eins og William Black kallar þá, voru handteknir og færðir í gæsluvarðhald.

Í seinni fyrirlestri Williams ræddi hann um "Recovery" eða endurheimtur ránsfengsins.

Hann sagði eins og alþjóð veit, að stór hluti ránsfengsins, verður aldrei endurheimtur, af því að hann var einfaldlega ekki til.  Loftbóla, gas, eða peningar sem nú eru englapeningar, eins og einn höfuðpaur vísaði til, þegar hann sagði að peningarnir væru í "money heaven".

Skv. reynslu Black, er stærsta endurheimtarvon að finna hjá endurskoðendum, enda séu þeir, eða tryggingafélög þeirra, "primary source of recovery".

Það þarf að fara í dýpstu vasana!

Salurinn sat frekar hljóður undir þessum ábendingum Blacks, vitandi að e.t.v. eru endurskoðendur á Íslandi ekki með neina ábyrgðarskyldutryggingu, eða að tryggingafélagið sé sá djúpi vasi, sem hægt er að seilast í, enda væri það svona eins og að leika vasabilljard, félögin eru jú meira og minna í eigu skattborgara.

Black nefndi líka 3 lykilatriði sem hægt væri að framkvæma með stjórnskipuðum endurheimtaraðgerðum.

Ein af þeim er "removal - probition"  Reka alla stjórnendur og starfsmenn, sem hafa gerst brotlegir og útiloka þá frá þesskonar störfum  um langa framtíð.

Annað úrræði - fyrirskipa endurgreiðslu á öllum eignum og bónusum sem fengnar voru með sviksamlegum aðgerðum (fraudulent actions).  Setja þung sektarákvæði við brot á starfskyldum stjórnenda og fagstétta.

 

Mér finnst ástæða til að fagna því að "réttlætisglæta" er í augsýn.

 

 

 

 

 


mbl.is Skýrslutökum lokið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Siðameistara kanadíska ríkisins hefur borist bréf

frá Frjálslynda flokknum (Liberals) þar sem farið er fram á að íbúðakaup ráðherra í málefnum kvenna, (Status of Women Minister) séu yfirfarin og gengið úr skugga um að þessi kaup séu í samræmi við reglur banka um að bjóða ekki húsnæðislán án nokkurrar innborgunnar, atferli sem talið er hafa verið eldsneyti og olía fasteignakrísunnar í BNA.

Málavextir:

Ráðherrann kaupir sér 4ja svefnherbergja íbúð í uppahverfi Ottawa sem kostar tæpar 113 milljónir ÍSK.  Samanlögð árslaun ráðherrans fyrir þingstörf og ráðherraembætti eru rúmar 27 milljónir króna, eða fjórðungur íbúðarverðsins.

Ráðherrann  fær húsnæðislán hjá Nova Scotia Bank, en veðbækur sýna að eignin er veðsett til fulls.

Óljóst sé hvort hann hafi fengið fullt lán án þess að greiða neitt niður, eða að veitt hafi verið almenn bankafyrirgreiðsla (line of credit) fyrir niðurgreiðslunni með veði í íbúðinni.

 

Það er vissulega áhugavert að setja þessar tölur í samhengi við íslenskt umhverfi en miðað er við gengi á CAD$ 128 sem er á sögulegu pari við USD$ í dag.

Þeirri sem þetta párar finnst þó áhugaverðara að vita hvert sendir fólk sambærileg erindi og kvartanir til siðameistara íslenska ríkisins?

 

 

 


Vítaverð vandvirkni

Forstjóri sjúkratrygginga sýnir hættulega tilburði til vandvirkni og úrvinnslu á lögum og reglugerð.

Hann ráðfærir sig við þann eftirlitsaðila sem í enda dags, mun taka út framkvæmd á þessum lögum, til þess að móta rétta framkvæmd og sýnir jafnvel tilburði í þá átt að spyrja "hvað ef" spurninga.

Þetta er algjörlega fordæmalaust athæfi hjá forstjóra ríkisstofnunar, þar sem venja er að frussukennd lög og reglugerðir eigi að hrynda í framkvæmd, og taka svo á afleiðingum vandkvæða seinna.

Ráðherra ætlar að áminna forstjórann fyrir hættulega tilburði í vönduðum vinnubrögðum.

Löngu tímabært er þó að tannheilsa barna og unglinga eigi ekki að vera háð efnum foreldra þeirra.

Útfærsla á þessu réttindamáli, þarf þó að vera skotheld.


mbl.is Ráðherra ætlar að áminna forstjóra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fleygustu orð hrunsins, í samantekt Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar

Ég hef alveg sérstakan áhuga á fleygum orðum, íslenskum tilvitnunum, og hreinum íslenskum húmor.

Upp á bókahillu situr ein bók, sem ég fletti oft í. Bókin er í bókaflokknum: Íslensk Þjóðfræði og heitir "Íslenskar tilvitnanir" sem Hannes Hólmsteinn Gissurarson tók saman, og AB gaf út 1995.

Það eru margar frábærar tilvitnanir í bókinni, sem staðfestir einlægan áhuga höfundar á að safna saman fleygum orðum, eins og hann segir í þessari bloggfærslu í dag. 

Eins og lenska er með þá félaga, þá skrifa þeir úr lokaðri skúffu, og því hvorki hægt að mæra eða ræða skrifin, því verður maður að stofna nýja færslu til að tjá sig.

Fleygustu orð hrunsins, er ábyggilega verðugt viðfangsefni, og ég vona sannarlega að út komi bókaflokkur um þessi fleygustu orð.

Úrtakið sem HHG birtir eru hins vegar svolítið einsleitt, þó ekki sé sanngjarnt að dæma óskrifaða bók, áður en hún er skrifuð.

Skora á höfund að undanskilja ekki eftirfarandi fleyg orð hrunsins: 

"Þeir græða á daginn og grilla á kvöldin"  HHG (man sjálfur hvenær þessu var fleygt)

"Hugsið ykkur bara hvað myndi gerast, ef við myndum nú spýta í" HHG (man sjálfur hvenær þessu var fleygt)

Þessi orð eru fleyg og þrykkt á steintöflur hrunsins og aðdraganda þess, og segja eiginlega miklu meira en orðin sjálf.

Ég viðurkenni fúslega að þetta er fúl færsla, eyðileggja svona móralinn fyrir flottri hugmynd, en þessi fleygu orð mega samt ekki lenda í "skilvindu" prófessorsins, þá hann hefur skráningu bókinni.

Til að létta lund , á þessum langa föstudegi þá eru hér fleyg orð Davíðs Oddssonar, sem eru ótrúlega hnyttin, fyndin og jafnvel hrokafull, en í þessu tilfelli átti hann töluverða innstæðu fyrir hrokanum.

Úr bókinni "Íslenskar tilvitnanir" HHG

"(Albert Guðmundsson:) Ég hlusta nú ekki á svona tal í stuttbuxnadeildinni!

(Davíð:)  Mér finnst það koma úr hörðustu átt, þegar maður talar af lítilsvirðingu um stuttbuxur eftir að hafa haft atvinnu af því að hlaupa um á þeim í áratugi. 

í umræðum í borgarstjórnarflokki  sjálfstæðismanna 1975

Þarna var DO náttlega í Matthildarham,  grenjandi fyndinn og hnyttinn!

 Hér eru svo nokkur ummæli sem höfundurinn HHG hefur tekið saman nú þegar.

  • „Þjóð sem lætur völdin í hendurnar á þjófum og glæpa­mönnum, hlýtur að gera ráð fyrir að einhverju verði stolið frá henni.“ (Bragi Ólafsson, Hænuungarnir, 2010.)
  • „Útrásarorðið er slíkt töframerki, að jafnvel þegar menn virðast gera innrás í opinber fyrirtæki almenn­ings, þá er innrásin kölluð útrás.“ (Davíð Oddsson um REI-málið á morgunverðarfundi Viðskiptaráðs 6. nóvember 2007.)
  • „Þið getið út af fyrir sig sett Björgólf Guðmundsson á hausinn og eruð sjálfsagt komnir langleiðina með það, en þið hafið ekkert leyfi til þess að setja íslensku þjóðina á hausinn. (Davíð Oddsson við bankastjóra Landsbankans á einkafundi í Seðlabankanum snemma árs 2008.)
  • „Við ætlum ekki að borga erlendar skuldir óreiðumanna.“ (Davíð Oddsson um Icesave-málið í Kastljósi Sjónvarpsins 7. október 2008.)
  • „Guð blessi Ísland.“ (Geir H. Haarde í lok ávarps síns til þjóðarinnar 6. október 2008.)
  • „May be I should have“ [done that] (Geir H. Haarde í Hardtalk Breska ríkisútvarpsins 12. febrúar 2009 um, hvort hann hefði ekki átt að mótmæla kröftuglegar yfirgangi breskra ráðamanna.)
  • „Ég á þetta, ég má þetta.“ (Hannes Smárason haustið 2005 um borð í einni flugvél Flugleiða, þegar gerð var athugasemd við framkomu hans.)
  • „Byggist gagnrýni og eftir atvikum rannsókn á þessum fyrir­­tækjum á málefnalegum og faglegum forsendum eða flokkspólitískum? Ertu í liði forsætisráðherrans eða ekki — þarna er efinn.“ (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir í Borgarnesi 9. febrúar 2003 um rannsókn á Baugi Group og fleiri fyrirtækjum.)
  • „You ain’t seen nothing yet.“ (Ólafur Ragnar Grímsson við opnun bækistöðvar Avion Group í Gatwick 24. febrúar 2005.)
  • „Kæri Jón, þú ræður þessu á endanum. Það vita allir. Taktu slaginn með okkur.“ (Róbert Marshall í opnu bréfi til Jóns Ásgeirs Jóhannessonar í Morgunblaðinu 18. september 2006.)
  • „Tær snilld.“ (Sigurjón Þ. Árnason í viðtali við Markaðinn, fylgirit Fréttablaðsins, 14. febrúar 2007 um Icesave-reikninga í Bretlandi.)

 

 


Þríhöfða þursar felldu íslenska bankakerfið!

Íslenskt þjóðfélag þjáist af  fámenni, sem þarf síst að vera þjáning ef grundvallar siðferði er gætt í viðskiptum og samskiptum.

Neyðist til að tengja þessa  frétt   inn á blog.is þar sem ekki var að finna stafur eða krók á mbl. is um þessi stórmerku tíðindi.

Hér fara tölvusamskipti stjórnarmanns í Glitni við bankastjóra Glitnis sem eru augljóslega  sveipuð pirringi, yfir "fólkinu niðri í keðjunni" sem annað hvort skilur ekki skýr skilaboð stjórnenda um framkvæmd ákvarðana sem þeir hæstvitrir hafa "samið" um, eða eru kannski að vinna vinnuna sína eins og fólk á að vera flest, og kanna stjórnunarlegt gildi og lagaleg vankvæði sem gætu verið á  þessari  skipun um lánasamning, tja m.a. vegna þess að þarna var stjórnarmaður að skipa bankastjóra að lána fyrirtæki sem hann var framkvæmdastjóri hjá: hellings ff glás af peningum.

 „Sæll Lárus (...) Þetta er auðvitað langt frá því að vera í samræmi við það sem við tveir sömdum um og bið ég þig því að koma samkomulagi okkar kyrfilega til skila aftur. Ég skil ekki hvernig hlutirnir virðast breytast á leiðinni niður fæðukeðjuna í bankanum og verður að segjast sem er að það er þreytandi fyrir okkur báða að þurfa alltaf að vera að hjakka í sama farinu. Við höfum væntanlega báðir nóg annað að hugsa um.

(...) Ég bið þig um að koma efni samkomulags okkar milliliðalaust niður til (starfsmanna fyrirtækjasviðs) þar sem boðin virðast ávallt ruglast á leið niður keðjuna og/eða á fundum lánanefndar. Ég vil helst ekki lenda í því að framkvæmdir við NT stöðvist vegna þess að ekki er hægt að klára lánssamninginn við bankann sem á tæpan helming í fyrirtækinu. Það mun gleðja hvorugan okkar." segir stjórnarmaðurinn Björn Ingi við forstjórann Lárus, en Saxbygg var sjötti stærsti hluthafi Glitnis á þessum tímapunkti.

Aðeins tveimur vikum síðar, eða hinn 17. september 2008, var lánasamningurinn upp á rúma fjóra milljarða króna undirritaður. Þetta var tveimur dögum eftir fall Lehman Brothers í Bandaríkjunum og 10 dögum áður en stjórnarformaður Glitnis gekk á fund seðlabankastjóra til að óska eftir neyðarláni, en algjört frost var á lánamörkuðum á þessum tíma.

Það eru einkum þessi ummæli stjórnarmannsins sem vöktu viðundrun:

"Björn Ingi Sveinsson var ekki í aðstöðu til að veita fréttastofu viðtal, en hann viðurkenndi að hafa sent Lárusi umræddan tölvupóst. Björn sagðist ekki hafa sent póstinn sem stjórnarmaður heldur hafi hann verið að krefjast þess að samkomulag sem Saxbygg hefði gert við Glitni yrði efnt."

Hann sendir póstinn ekki sem stjórnarmaður, heldur sem  framkvæmdastjóri fyrirtækisins sem átti að fá lánið.  Bið svo lesendur að meta hvort það er stjórnarmaður í bankanum sem talar "niður" til bankastjóra og fólksins hans, eða framkvæmdastjóri fyrirtiækisins, nema hvort þriggja sé.

Það voru svona "þríhöfða" þursar, sem tóku virkan þátt í að fella íslenska bankakerfið.

threeheadedmonster_977082.jpg


Íslenskir jarðvísinda- og eldfjallafræðingar eru okkur aldrei til skammar!


Að vera jarðvísinda- og eldfjallafræðingur á Íslandi, hljóta að vera fagforréttindi allra stétta.  Það er jafnvel betra en að vera verðbréfasali á Wall Street, magadansmær í Ríó,snjóbrettafrík í Whistler eða fjármálaeftirlit á Tortóla.

Spennan sem fylgir starfinu er gífurleg, en ríkulega launuð þegar eldgos brjótast fram með reglulegi millibili, og vísindamenn geta sannreynt rannsóknir sínar og tilgátur, og betrumbætt forspána með reglulegi millibili.  Spádóma sína um gos byggja þeir á tiktúrum náttúrunnar sem brjótast fram í jarðskjálftum og kvikuhlaupum mismunandi djúpt undir yfirborði jarðar.

Heillaðist með og af  unga jarðeðlisfræðingnum (stúlku) sem var að upplifa sitt fyrsta alvöru gos, en hafði um langt skeið kortlagt og stúderað Eyjafjallajökul og nágrenni af mikilli elju.  Þetta var svona hennar gos Smile  með réttu.  

Hlustaði líka á viðtal við Pál og Ragnar skjálfta, þar sem þeir gátu illa falið "prirringinn" yfir að hafa ekki séð þetta betur fyrir, og jafnvel lesið mælana rangt.    Við þessa tvo mætu menn segi ég bara, það væri sælt að lifa í þessum heimi, ef allir væru svona "árangursdrifnir" og ættu auðvelt með að viðurkenna vanmátt sinn gagnvart öflum, sem stundum eru óútreiknanleg. Þeir munu nú setja allt á fullt að greina allar mælingar, til þess að "standa sig betur næst".  Og þeir munu gera það.

Að baki allra þessara mælinga og pælinga liggja fjölmargar vinnustundir hámenntaðra lærdómshróka og vísindamanna.   Til heiðurs öllum sönnum fagmönnum þessa lands, hvort sem það er á sviði, jarðvísinda, læknavísinda, hagvísinda, félagsvísinda og hugvísinda  svo fátt eitt sé nefnt, birti ég hér "litla" ferðasögu sem ég var svo lánsöm að vera þátttakandi í árið 1998 undir heitinu: 

 ASKJA - The International Hot Spot Project

30.janúar - 2. febrúar 1998

Þátttakendur:

Pajero 36"       Birgir S, Einar Kjartansson, jarðeðlisfræðingur aka "foringinn", og Pálmi

Toyota 4R 38"  Grettir minn, Jenný (ég) aka ritarinn, Gunna Pecan pie og Gutti jöklahundur

Toyota 4R 38"  Grettir Sig og Óli Ylur (viðurnefnið ylur hlaut hann í þessari ferð)

Toyota DCap 38" Sigurjón S og Halldór Ólafsson jarðvísindamaður

Hummer 44'   Karl B og Hulda

hot_spot_lei_angur_974462.jpg

Föstudaginn 30.janúar kl. 20.15 var lagt af stað frá Rauðavatni.  Skömmu áður sást, að því er virtist flugeldur lýsa upp himininn norður yfir Esju.  Seinna um kvöldið kom fram í fréttum að hér var um loftstein að ræða sem sást víða um land. Loftsteinninn lýsti upp himininn með græn- og gulleitum bjarma og féll í sjóinn norður af landinu.

Um kl. 22 var komið að Hraunbúðum og tankað.  Síðan var brennt beina leið í Nýjadal og komið í skálann kl. 00.30 eftir miðnætti.  Nóttin var stjörnubjört og norðurljósin sveipuðu grænleitri slæðu sem bylgjaðist um allt himinhvolfið.  Fjósakonurnar þrjár og rauð-græn blikkandi Síríus fylgdu okkur á leiðarenda

 

Skálinn (klakahöllin) í Nýjklakaholl_974464.jpgadal er því marki frystur, að vera kaldur með afbrigðum.  Formaðurinn taldi litlar líkur á að hægt væri að hækka hitastigið í kofanum og stakk sér fljótt í pokann og sofnaði vært.  Reynt var að kynda upp og tókst að ná örlitlum yl(Óli sá um það), sem var þó skammgóður vermir, því við vöknuðum kl. 7 um morguninn við brothljóð þegar formaðurinn var að brjóta klaka í kojunni sinni.

 

 

Laugardaginn 31.janúar kl. 9.00 var lagt upp frá Nýjadal og stefnan tekin norður og vestan við Tungnafellsjökul.  Hálendið, sem fram að þessu hafði verið að mestu snjólaust, skartaði nú sínu fegursta í morgunroðanum og hvít snjóbreiða lá yfir öllu. 

Komið að Gæsavatnaskála fyrir hádegi. har_laestur_gaesavatnaskali.jpg

Skálinn var reistur á síðasta ári og virtist stórglæsilegur en því miður var ekki að hægt að komast inn í hann með góðu móti.  Ekið meðfram jökulröndinni og strax og færi gafst, voru drifin læst og þeyst upp á jökulsporðinn, þaðan sem útsýnið var mikilfenglegt: 

Í nálægu norðri blasti Trölladyngjan 1459m og Bárðabungan í suðvestri.  Því næst var brunað að Kistufelli þar sem áð var við eitt mesta þarfaþing á hálendi Íslands.  A-laga lítið hús með holu í miðju.  Við Urðarháls var kíkt oní ógnarstóran sprengjugíg, sem mun hafa gosið á síðjökulsskeiði en þar var allt með kyrrum kjörum.   Haft var á orði að gígurinn gæti verið sjóndöpru glæfrafólki skeinuhættur, þar sem hengjurnar drupu langt út fyrir gígbarminn.

Nú blasti Dyngjujökull við gáróttur og öldóttur, svo langt sem augað eygði.  Vel sást til Kverkfjalla og Hrímaldan í norðri bar nafn með sóma og sanni.  Þá var stefnan tekin niður á við úr 1000 metra hæð niður í 700 metra og við blasti eggslétt snjóbreiðan eins langt og augu eygðu.  Jökulsá á Fjöllum sem kemur úr eystri Dyngjujökli hefur rutt þarna fram miklum sandi og segja bændur norðan jökuls, að allur uppblástur og gróðureyðing á Norðurlandi sé bölvuðum sandinum að kenna.

Lágskafrenningur var á sandinum, þannig að auðvelt var að ímynda sér tilfinninguna að líða áfram á hvítu skýi.  Þegar nær dróg Vaðöldu blasti við stórkostleg sýn í norðri; 

drottningathrenna_974467.jpg

Drottningin sjálf, Herðubreið séð á hlið og rjómatoppurinn með bleikrauðum bjarma draup tígurlega eins og Dairy Queen ísinn í Aðalstræti.  Margir ferðalangar voru að sjá drottninguna í svo mikilli nálægð í fyrsta sinn og hrifningin var ósvikin.  

Um fimmleytið komum við í Drekagil og skálann Dreka, þar sem ætlunin var að gista um nóttina.

 

Nú gat verkefni leiðangursins loks hafist og fóru vísindamennirnir með litlu rafstöðina upp í kofann þar sem jarðskjálftamælitækin voru, og hófu vinnu sína við að lesa af mælum og endurhlaða þá. 

Kvöldverður og kvöldvakan hófst snemma.  Þrátt fyrir brunagadd og hífandi rok sem nú var skyndilega skollið á, grilluðu ofurmennin Óli Ylur og Grettir minn gómsætar steikur.

Laxabræla, sönghefti kennt við Laxabakka var sungin hástöfum allt til enda og einnig sérlegt sönghefti Halldórs með revíum og limrum.   Gunna pecanpie, bauð Pecanpie í skiptum fyrir uppáhelt kaffi, sem enginn gat boðið, því allir voru uppteknir við hástafan söng.

Vísindamenn brugðu sér aftur upp í mælikofa til að kanna hvort hleðslan væri virk, sem reyndist vera.  Um eitt leytið skriðu allir upp á loft í fleti sín og Grettir Sig hóf ljúfa miðnætur-gítar-einsöngs- tónleika, og Gutti hóf reglulega næturgöngu sína að prófa öll bæli þreyttra en ánægðra leiðangursmanna.

Sunnudaginn 1. febrúar kl. 9.30 var fótaferðatími.  Veður hafði lægt um nóttina og var orðið gott.  Samandregin niðurstaða þessa vísindaleiðangurs við Öskju var: " Á morgun er einum degi styttra í næsta Öskjugos".

jar_skjalftamaelir_askja.jpg

Tækin voru nú tekin upp nokkru fyrr en áætlað var, þar sem sólarrafhlöður höfðu viðhaldið orkunni í einhverjum mæli svo ekki reyndist nauðsynlegt að hlaða eins lengi og búist hafði verið við.  Þá var brennt upp í Öskju og Víti í vetrarham skoðað.  Ekki  þótti fýsilegt að baða sig í Víti því vatnið var rétt volgt, og við  allt of góðu vön frá Landmannalaugum, og öðrum funheitum náttúrlaugum sem finna má víðsvegar um hálendi Íslands.

Síðan var reynt við Jónsskarð sem er norðaustur af Víti, færið reyndist of þungt og ekki talið ráðlegt að eyða meiri dagsbirtu við skarðið, en við hefðum örugglega  komist með smá þolinmæði.  Nú var Halldóri falið að vísa leiðina, sem kennd er við vísindamenn og bændur.  Þegar við komumst niður úr 1000 metra hæð varð útsýnið aftur stórfenglegt, því hnjúkaþeir og skafrenningur efra hafði birgt sýn.  

 

Stórkostlega falleg giltský birtust á himni og dönsuðu fyrir framan opinmynnta ferðalanga, sem margir höfðu aldrei séð slíka sjón áður.  Glitský er veðurfræðileg fyrirbæri sem sjást helst á Norðurlandi.  Þetta eru örþunn ský sem sólin nær að mynda stórkostlega litafegurð þegar ljósið brotnar í skýjakristöllunum.  Skýin tóku á sig undarlegustu myndir og mátti greina; hunda, hvali og geimskip í dulargervi, ef vel var að gáð.

Við mynni Dyngjufjallsjökuls blasti hinn tígurlegi Lokatindur 865m við í norðri og nú vorum við í miðju Ódáðahrauni og stefndum milli Kollóttudyngju í austri.  Leiðin var hrykkjót og skrykkjótt þar sem hraunnibburnar stóðu upp úr víðsvegar og ógnuðu dekkjakosti leiðangursins.  Kyrjuðum "Ríðum, ríðum rekum yfir sandinn rökkrið fer að síga Herðubreið."

Um kl. 19.00 náðum við Suðurárbotnum, þar sem einn einn kósí skáli hefur verið byggður í óbyggðum.  Þar sem sumir voru farnir að sjá sturtubað í hyllingum, var ákveðið að fara til Mývatns og njóta þar gestrisni Halldórs og Norrænu Eldfjallastöðvarinnar í glæsilegum húsakosti þeirra í Reykjahlíð.   Ekið var í hlað á Svartárkoti síðasta bænum í Bárðardalnum um kl. 21 og bóndanum heilsað að kurteisra manna sið.  Birgir og Einar höfðu ákveðið að keyra til Reykjavíkur um nóttina, en tælandi og freistandi kvölddagskrá, ostaveizla með rauðvíni, pecan pie og fleiru blés ákvörðun þessara annars staðföstu manna út í veður og vind.  

Allur hópurinn náði áfangastað í höfuðstöðvar Norrænu Eldfjallastöðvarinnar á Norðurlandi fyrir miðnætti.  Þegar til átti að taka kom í ljós að leiðangurinn (aðallega Óli Ylur) bjargaði pípulagningakerfi stöðvarinnar, því hitastigið í húsinu var nálægt frostmarki vegna bilunar í þrýstiloka í hitaveitu.  Allir tóku bað og sturtu og síðan hófst kvöld (nætur)vakan.

Mánudaginn 2. febrúar 1998 var fótaferðatími um 10 leytið og var látið vel að líkama og sál í rólegheitum fram að hádegi, þegar lagt var af stað suður heiðar, með útúrdúr í Vaglaskógi í vetrarham og nokkur sjoppustopp.  

vaglaskogur_i_vetrarham.jpg

Í hádegisfréttum var sagt frá því að íslensk Erfðagreining væri búið að gera milljarða samning við svissneskt lyfjafyrirtæki, sem kætti heldur flesta leiðangursmenn, enda öllum ljós nauðsyn þess fyrir íslenska þjóð að gera eitthvað annað en að veiða fisk.  Samningurinn átti auk þess að fela í sér frí lyf fyrir Íslendinga, sem þróuð yrðu, vegna erfðagreiningar á þeirra genum.

Öxnadalsheiðin var næstum ófær öðrum en okkur og flughálka var á þjóðveginum allt niður í Borgarnes.  Sigurjón hundskammaði Umferðarráð fyrir að gera ekki viðeigandi varúðarráðstafanir, s.s. eins og að breyta tilkynningu um hálkubletti, í; fljúgandi samfellda hálku, sem tæki á stáltaugar ónegldra fjallagarpa. 

 

 

Komum til höfuðborgarinnar kl 21 um kvöldið, svakalega ánægð og glöð með árangursríkan vísindaleiðangur á vegum "Princeton USA, Durham UK og Veðurstofu Íslands" undir heitinu " The International Hot Spot Project"

Ritarinn JSJ

Af tilefni sem er líklega óþarft að gefa, skal tekið fram að þessi ferð var "sjálfboðaferð" með öðrum orðum,  ferð með tilgang, fyrir víðáttu og náttúruelskandi ferðalanga eins og okkur.


mbl.is Vaxandi órói í eldgosinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Toppgígur Eyjafjallajökuls svona leit hann út á sumardegi fyrsta 1997!

Þreytist aldrei á að ylja mér við minningar um jökla- og vetrarferðir fyrir aldamót!

old_days_004_crop.jpg

Á þessum árum var notast við Garmin staðsetningartæki, tengda við fartölvu.  Einar Kjartansson vísindamaðurinn í hópnum hafði skrifað forrit sem skráði leiðina niður, þannig að ávallt var hægt að keyra eftir tölvuskjá  ef veðurofsinn blindaði sýn.  Þetta kort er teiknað eftir hnitunum sem skráð voru í fjölmörgum jöklaferðum á þessum árum.  Vatnajökull var vinsælastur, Langjökull líka, en Eyjafjalla- og Mýrdalsjökull voru trakkaðir nokkrum sinnum.

Við vorum hálfgert "slyddujeppagengi", á 36 tommum, þó fjárinn (ég)  hafi látið undan stöðugum þrýstingi, og fallist á að "fjárfesta" í 38 tommum þegar nær dróg aldamótum. 

Eyjafjallajökull var dagsferð, skemmtileg áskorun, hábrekkan flughál  undan brakandi sólbráð.

old_days_002_crop.jpg Á sumardaginn fyrsta 1997 var lagt á toppinn.

 

Þegar hápunkti var náð, blasti þessi hraukur við. 

Söguleg ferð af því að dóttla var að stíga fæti fyrsta sinn á jökul, þá rúmlega 6 ára, og auðvitað fór hún alla leið upp á blátoppinn, sem nú gæti gosið eins og fréttin greinir frá.

 Rauðbrúnaþústin undir hrauknum er Gutti okkar, víðförull jöklahundur sem þótti

líka æsandi að benda á rjúpur.  Sá gat nú tekið standinn á blessaðar

rjúpurnar.

 

 

 

Þessi mynd er tekin af slyddujeppa á Eyjafjallajökli, með frábært útsýni til Vestmannaeyja.old_days_005_crop_973855.jpg

old_days_001_crop.jpg


mbl.is Gos í toppgígnum ekki útilokað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Með glóandi hjörtu af þjóðernisást og stolti.

Þá er Olympíuleikunum í Vancouver lokið með stórkostlegri lokunarhátíð, þar sem "landar" mínir, klikkuðu ekki á að gera góðlátlegt grín af sjálfum sér, og lýstu þjóðareinkennum sínum "sorry that we are not frozen tundra" á beittan en skemmtilegan hátt, með sitt fræga "eyh" í endann.

Stórkostlega gaman að fylgjast með, taka þátt og hrífast með þessa 17 daga, og hámark hamingjunnar var sigur hockey liðsins yfir "erkivinunum" sunnan landamæra.

2010-olympics.jpg

Kanadamenn eru yfir höfuð, sérstaklega gott og vingjarnlegt fólk.  Afburðavinir vina sinna, kímnigáfan mér að skapi, þykja ekkert að því að gera grín að sjálfum sér, löghlýðið og öll umgjörð þjóðfélagsins fyrirsjáanleg og reglubundin.

Þeir eru hógværir, og eru ekkert mikið að berja sér á brjóst, eða þykjast vera stærri og meiri en þeir eru.  Þess vegna kom það öllum og jafnvel forseta Olympíusambandsins jafnmikið á óvart, hversu þjóðernisástin og stoltið óx með degi hverjum. 

 

Flöggin, rauða andlitsmálningin, allur rauði og hvíti fatnaðurinn og já svo var þjóðsöngurinn kyrjaður hvar sem tveir eða þrír komu saman.

Svona geta íþróttir farið með fólk.  Hörðustu naglar tárast af eintómri gleði, en líka af umhyggju og samhyggð með þeim sem ekki gengur eins vel.

Íslendingar eiga örugglega auðvelt með að setja sig í þessi spor.  Ég var stödd á Íslandi, þegar handboltaliðið íslenska gerði sína frægðarför í Bejing 2008.  Það voru ógleymanlegar gleðistundir, og gaman að finna samgleðina og samkenndina sem alls staðar ríkti.

Þess vegna eru svona íþróttamót mikilvæg.  

Af því að maður er kominn með fallega kanadíska þjóðsönginn á heilann, læt ég hann fylgja hér með.

 4954canadian_flag_m15.jpg

O Canada!
Our home and native land!
True patriot love in all thy sons command.

With glowing hearts we see thee rise,
The True North strong and free!

From far and wide,
O Canada, we stand on guard for thee.

God keep our land glorious and free!
O Canada, we stand on guard for thee.

O Canada, we stand on guard for thee.

 

 

 


Skattaprófið þyngist, gruggið í glasinu eykst.

Hugsaðu þér glas fullt af vökva.  Neðst á botninum er brún þykk leðja 10%.

Síðan tekur við gruggugt vatn, sem er gruggugara neðst en verður tærara eftir því sem ofar dregur 80%. Efsta lagið er svo krystaltær vökvi 10%.

Mannlegt eðli og afstaða gagnvart svindli, prettum, lygum,  svikum og þjófnaði lýsir sér í þessu glasi. glas-of-waterNeðsta lagið; leðjan eru þeir sem munu alltaf svíkja, stela og svindla, sama hvað gengur á.  Þeir eru gjörsamlega siðblindir og veruleikafirrtir. 

Grugguga vatnið endurspeglar tækifærissinnana; ef að tækifæri býðst, þá svindla þeir og stela líka.  Þeir sem eru nær leðjunni eru líklegri en þeir sem ofar eru, til að grípa glóðina þegar hún gefst,  hinir sem eru ofar, munu hugsa sig vel um, vega og meta ávinning og áhættu. 

Efsta lagið mun aldrei svindla, svíkja eða pretta hvað sem á gengur,  þetta er fólkið sem allir vilja vera í orði en ekki endilega á borði, því hætt er við að áhættufælnin og dýrlingabjarminn verði leiðinlegur til lengdar, trúlega algjörlega húmorslausir líka. 

Ofangreint hefur margsinnis verið kannað og enginn getur í raun „ekki séð þau tilvik“ þegar þeir gruggast svolítið,  t.d. gagnvart skattinum eða hverju því tilfelli þar sem mammon og pyngjan kemur við sögu.

Það er þess vegna mikilvægt hvort heldur það er á vinnustað, á heimili, eða í þjóðfélagi, að prófið sé ekki of þungt.  Tækifæri til undanskots og þjófnaðar verður að fyrirbyggja með skýrum, gegnsæjum leikreglum, þar sem allir sitja við sama borð.  Langflestir þrá að vera heiðvirtir borgarar, en þá verða þeir að geta staðist prófið, samkvæmt normalkúrfu.

Þegar t.d. skattprósenta er hækkuð úr hófi fram, þyngist prófið og gruggið eykst.  Þess vegna má færa fullgild rök fyrir því að hækkandi skattprósenta skili sér í meiri undirheimastarfsemi og svikum, og því skili hún í raun minni tekjum til ríkisins, en ef prósentan er hófstillt.

Átti í töluverðum tremma við að sannreyna þetta sjónarmið varðandi þá útrásarvíkinga, sem gátu ekki einu sinni greitt lægsta fjármagnstekjuskatt í heimi, og fluttu fjármuni sína til aflandseyja.  Þá komst ég að þeirri niðurstöðu að þeir væru í raun brúna leðjan á botninum.

Segja má að ástandið í dag á Íslandi megi líkja við að hrærivél hafi verið stungið oní glasið, og nú sé það löðrandi í brúnu gruggi.  Ekki endilega að tækifærin séu svo mörg, heldur að sá lögaðili sem er að leggja á  þyngri og þyngri byrðar, hefur gjörsamlega misst allan trúverðuleika og traust.  Það er búið að hrifsa eignir, lækka laun, hækka skatta, og svo á að skrifa undir margra ára áþján sem slekkur alla von um betri tíð um langa framtíð.   

Einasta von um að botnfall verði í glasinu aftur, er að skafa leðjuna burt, koma henni undir lög og reglur, sem allir héldu þó að ríktu í réttarríkinu.  

Síðan þarf að gæta þess alltaf að fækka og útrýma tækifærum, með því að hafa einfaldar og skýrar reglur, sem ekki er hægt að túlka til andskotans  og stóreflt eftirlitskerfi, sem allir aðilar treysta á að sé sanngjarnt og tryggi að allir sitji við sama borð.

Mannlegt eðli verður aldrei umflúið.

17.júní 2009   Jenný Stefanía J
mbl.is Misráðin skattastefna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband