Refsiábyrgð - Skaðabótaábyrgð

Hér má finna fyrirlestur á glærum um  Ábyrgð endurskoðenda sem fluttur var á Skattadegi FLE (félags löggiltra endurskoðenda) í janúar árið 2007 af  Garðari G Gíslasyni hdl.

Sérstök athygli vakin á eftirfarandi um Refsiábyrgð

  • Refsiábyrgðin tekur hvort tveggja til athafa og athafnaleysis, þ.e. hvort sem eitthvað er gert sem ekki átti að gera eða eitthvað er látið ógert sem átti að gera.
  • Ekki stoðar almennt að bera fyrir sig vanþekkingu um refsiákvæði.  Gera má þá kröfu að endurskoðandi þekki til þeirra reglna sem gilda á réttarsviðinu.
  • Ekki stoðar að bera því við að viðkomandi endurskoðandi hafi annan skilning á merkingu eða umfangi refsiákvæðis.
  • Ekki stoðar fyrir endurskoðanda að bera því við að hann hafi einungis verið að framkvæma vilja viðskiptamanns.

Skaðabótaábyrgð endurskoðenda er sérfræðiábyrgð

Almenn skilyrði skaðabótaábyrgðar
–Sök
•Ásetningur(tjóni valdið viljandi eða tjónvaldi má vera ljóst, að tjón sé óhjákvæmileg afleiðing af hegðun hans, eða yfirgnæfandi líkur eru á því að tjón verði)
•Gáleysi(dugar til; endurskoðandi gætir ekki þeirra reglna sem ætlast má til að hann gæti íljósi stöðu hans)
•Tekur bæði til athafna og athafnaleysis.

Af því að skaðabótaábyrgð endurskoðenda er skilgreind sem sérfræðiábyrgð  er ábyrgð þeirra strangari, sem birtist í

1.Ríkari krafna til aðgæslu og vandvirkni (hlutlægt mat)
2.Ríkari kröfur til þess sem endurskoðandi átti eða mátti vita (huglægt mat)
3.Slakað ásönnunarkröfum miðað við það sem almennt er í skaðabótamálum


mbl.is PwC: Ábyrgðin hjá stjórnendum bankanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sefur þú um nætur?

Þannig endar 20 blaðsíðna bæklingur um siðareglur PwC og ber yfirskriftina "Hvernig við högum okkur í viðskiptum"

Fróðleg og falleg lesning, ef ég væri að leita mér að ærlegum endurskoðendum myndi þessi bæklingur falla vel í kramið.

Eftir að hafa lesið um ásakanir sem koma fram í Glitnisákærunni í New York, þar sem PwC skrifaði svokallað comfort letter til að halda þægindastuðli væntanlegra fjárfesta í lagi, og síðan þessar ásakanir vegna Landsbankans, er ekki laust við að maður sé í nettu áfalli.

Orðspor allrar stéttarinnar hefur verið tröðkuð í svaðið.

Allt tal um að sækja megi  skaðabætur til PwC LLP aðalstöðvanna er þó út í hött, og þegar lögfræðingar tala þannig afhjúpa þeir fjarvistasönnun úr kennslustund í félagarétti.  LLP er fyrir aftan öll helstu endurskoðunar og lögfræðingafyrirtæki heimsins, og þýðir takmörkuð ábyrgð, sem þýðir að félögin bera enga skaðabótaábyrgð ef að önnur fyrirtæki í keðjunni gera sig sek um vanrækslu eða saknæmar athafnir.

Löggiltum endurskoðendum er skylt að hafa ábyrgðartryggingu sem bætir slík tjón, og af fréttum að dæma er tryggingafélag flestra þeirra í London.

Væri það ekki ískrandi ærónískt, ef að það kemur til kasta breskra félaga að greiða íslenskum stjórnvöldum og fyrirtækjum skaðabætur vegna vanrækslu íslenskra endurskoðenda?

Tilhugsunin sker í eyrun!

 

Hér er hlekkur í bloggfærslu í maí þegar William Black fjallaði um "djúpu vasana" í endurheimtum

 


mbl.is Rannsókn hafin á PwC
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svona hefðu kanadísk stjórnvöld afgreitt íslenskt Magma!

Iðnaðarráðherra Tony Clement, bannaði "óvinveitta yfirtöku" erlends fyrirtækis á náttúrauðlindum í Kanada s.l. miðvikudag. 

Málavextir eru þeir að ástralska fyrirtækið BHP Billition´s gerði óvinveitt yfirtökutilboð í Pottöskunámufyrirtæki í Saskatchewan fylki í miðríkjum Kanada.  Tilboðið nam 39 milljörðum dollara.

Pottaska er "hvíta gullið" og notað sem áburður út um allan heim.  Kanada er helsti framleiðandi hvíta gullsins og þetta fyrirtæki í Saskatchewan er það stærsta sinnar tegundar í heimi.

Í orði eru stjórnvöld í Ottawa að laða að erlenda fjárfestingu, þar sem hún muni hafa jákvæð áhrif á hagkerfi í Kanada og fjölga störfum.  Slíkt myndi auk þess stuðla að því að kanadísk fyrirtæki hefðu frelsi til að fjárfesta í öðrum löndum.

Á borði, eftir þessa ákvörðun er það alls ekki svo.  Rökin fyrir þessu banni segir ráðherrann vera þau að yfirtakan " sé ekki líkleg til að auka heildarhagsmuni".  

f52fb2a2-aed7-11df-8e45-00144feabdc0.jpg

 

Hér er um algjöra pólitíska ákvörðun að ræða, þar sem ráðherra beitir valdi sínu til að koma í veg fyrir óvinveitta yfirtöku erlends fyrirtækis á náttúruauðlind.

Íslenskir ráðherrar geta ef þeir vilja gert slíkt hið sama, en spurningin er af hverju er það ekki gert.  Var þessi yfirtaka Magma ekki nógu "óvinveitt".

 

PS í blaðaviðtali við Ross Beaty nýlega, lýsti hann þeirri skoðun sinni að það yrði "bölvanlegt" ef að pottaskan lenti í höndunum á erlendum fjárfestum.


Skuggastjórnun í hnotskurn!

Þessi töluliður úr minnisblaði forstjóra FL Group hlýtur að fara inn í skólabækur, sem dæmi um skuggastjórnun.

4.  FL group mun hlutast til um að Glitnir klári samkomulag við Hnotskurn um losun á 250 milljónum á morgun en félagið (Hnotskurn) hefur verið í viðræðum um þau viðskipti við Glitni.

 

Það hljóta að vera skýr lagafyrirmæli í flestum heimsálfum, sem eiga að koma í veg fyrir að "stjórnarmenn" í almenningshlutafélagi hlutist til að hygla sér og sínum.

 


mbl.is Beitti sér innan Glitnis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frískleg nýbreytni að endurskoðandi afhjúpar fjársvik.

Árangur endurskoðenda almennt í að uppgötva fjársvik (fraud) hvers konar hefur vægast sagt verið slakur.

Ein skýringin sem Lee Seidler gefur á þessu  er að enduskoðendur gefi sér þær forsendur að aðskilnaður verkferla sé mikilvægasti forvarnarþátturinn, því almennt hópi fólk sig ekki saman til að stunda fjársvik, alla vega ekki til lengri tíma.  Þetta sé einfaldlega rangt, og nefnir dæmi um margmilljóna tryggingasvik, þar sem 20 einstaklingar tóku sig saman og gáfu út falskar líftryggingar með fölskum einstaklingum sem þeir svo "drápu" og hirtu tryggingarféð.

Væntingar almennings og réttarkerfisins eru á þá leið að endurskoðendur eigi og skuli einmitt vera sá aðili sem uppgötvar fjársvik.  Þess vegna hefur verið bætt inn staðli í alþjóðlegri endurskoðun, með beinlínis það að markmiði að brúa þessa væntingargjá.

Endurskoðendur mega ekki taka heilindi og heiðarleika stjórnenda fyrirtækja sem gefna stærð.  Hana þarf að prófa og prófa síðan aftur.

 

Hér er því um frísklega nýbreytni að ræða hjá Ríkisendurskoðun, sem kannski á sér líka skýringar í "sjálfstæði" stofnunarinnar.

 

 


mbl.is Stendur við útreikninginn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mælistikur að verða raunhæfari.

Þó svo Transparency International hafi mistekist gersamlega að mæla þá "ógeðslegu" spillingu sem á Íslandi hefur grasserað í fjölda ára og birtist aðallega í einkavinabittlingum hvers konar, og þegar menn í valdastöðum hafa misnotað vald sitt í eigin þágu og sinna vina og mulið undir sig almannafé og eigur, þá verður samt að taka viljann fyrir verkið og skoða niðurstöður í víðara samhengi.

TI mælir aðallega "mútur" og stjórnmálaspillingu, sem þyrfti að skilgreina alveg upp á nýtt á Íslandi, því það sem viðgengist hefur hér, flokkar enginn undir mútur eða stjórnmálaspillingu, allra síst þeir sem spurðir eru.

Aðeins einu sinni svo vitað sé hefur því verið haldið fram að stjórnmálamanni hafi verið mútað, 300 milljónir til DO ef hann yrði góður.  Hér eru orð gegn orði, því hinn meinti múturbjóðandi viðurkennir ekki neitt.

Sú staðreynd að þessi vísitala mælir Rússland eitt af spilltustu löndum í heimi á pari við Írak, Afganistan og fleiri með rúmlega 2 í einkunn, er vísbending um að þessar mælistikur eru marktækar, þó ekki sé það í okkar tilfelli.

Hér lýsir rússneskur stjórnandi TI stofnunar í Moskvu niðurstöðum sem "þjóðarskömm".

"How can a country claiming to be a world leader, claiming to be a major energy power, be in such a position?" asked Yelena Panfilova, director of the Moscow office of Transparency International. "It's a situation of national shame." 

transparency-international.png


mbl.is Spillingareinkunn Íslands lækkar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hefjum frekar innflutning á hjartaaðgerðum.

Einu sinni var ég um borð í flugvél Air Canada á leið til Toronto, og áframhaldandi flugs til Íslands.

Flugfreyjunni hefur líklega fundist ég vera þungt hugsi, því hún spurði mig hvert ég væri að fara og yfir hverju ég væri áhyggjufull.  Af því að hún var viðkunnaleg þá sagði ég henni að það væru nú hjartveiki í fjölskyldunni sem angraði hugann.

Elsku vina, þú veist líklega að á Íslandi eru bestu hjartaskurðlæknar í heimi, svo þú getur allavega þakkað fyrir það.    Nú sagði ég og var hvumsa yfir þessari yfirlýsingu kanadísku flugfreyjunnar.   Jú jú þetta er alþekkt, við höfum stundum þurft að millilenda á Íslandi með hjartveika farþega, og það hefur undantekningalaust farið vel.

Þessari ömurlegu þróun og atgervisflótta í verstu mynd þarf að snúa við.  Með slíka sérfræðinga og slíkt umtal, ættu við frekar að hefja innflutning á hjartaaðgerðum.


mbl.is Hjartaaðgerðir hugsanlega fluttar til útlanda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heilabrot um skaðabótarkröfur.

Allir stjórnarliðar og háttsettir embættismenn á árinu 2008, hafa staðfest vitneskju um alvarlega erfiðleika í fjármálakerfinu.

Dagsetninginn í byrjun febrúar 2008 virðist vera sú dagsetning, sem eðallýðnum var ljóst að kerfið væri að hruni komið.  Nokkrir brugðu sér af bæ, og komu sínum eignum í skjól, m.ö.o. seldu hlutabréfin sín. 

Það er algjörlega ljóst að óvarlegt tal um veikleika fjármálakerfis eða banka getur beinlínis flýtt atburðarrás, áhlaupi og hruni, eins og ISG staðfestir í þessari tilvitnun: 

"Ég leit aldrei svo á að þetta væru sérstakir trúnaðarfundir enda var aldrei minnst á að ekki mætti segja trúnaðarmönnum flokkanna frá því sem þarna fór fram, þó öllum væri auðvitað ljóst að allar upplýsingar um erfiðleika fjármálakerfisins voru mjög viðkvæmar."(Pressan)

Á hinn bóginn er það saknæmt að "tala upp" fjármálakerfið gegn betri vitund.  Fjölmargir fjárfestar og aðrir viðskiptamenn bankanna, gætu þannig átt möguleika á skaðabótum vegna fjármálagerninga eftir að vitneskjan var kunn elítunni í febrúar 2008, en engu að síður hélt hún áfram að mæra og stæra sig af styrkleika íslenska fjárhagskerfisins.  Þessa fjármálagerninga gerðu viðkomandi í góðri trú, og trausti á forystumenn stjórnmála, seðlabankastjóra, bankastjóra, yfirmenn fjármálaeftirlits og fleiri aðila.

Svo treysti ég því að þessir háttsettu aðilar og valdamenn, hafi í síðasta sinn sagt:

"ég hafði ekki vitneskju"  " það var logið að mér" "enginn sagði mér neitt"

Hin mikla ábyrgð starfsins felst nefninlega í því að:  Vita það sem ekki er vitað, kynna sér málavöxtu og rótdraga sannleikann úr lygavafningum.

 

 

 


mbl.is Ingibjörg Sólrún ræðir stöðu sína
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skaðleg síbylja ritstjóra.

Þessa dagana hefur umræðan um síbylju ritstjórans á Hádegismóum aukist mikið.  Líklega má "þakka" þessa auknu athygli ummælum Jóns Baldvins um manninn sem var æðsti valdhafi íslenska ríkisins í 13 ár, seðlabankastjóri strax á eftir, numinn á brott með byggingakrana úr rústum íslensks efnahagslífs, sem hrundi með manni og mús fyrir bráðum 2 árum, og telur enn að hann beri nákvæmlega enga ábyrgð, það sé engin ástæða til afsökunar, enda var hann eini maðurinn sem varaði við.

Allan þennan valdatíma fór það ekki fram hjá neinum ef manninn mislíkaði við einhvern.  Hann beitti "uppistands" aðferðum við að tala niður "götustráka" og önnur hrekkjusvín og þótti alveg drepfyndinn í ákveðnum hópum og klíkum, sem maðurinn hélt að væri (heldur að sé) þverskurður þjóðfélagsins.

Ég fullyrði að ástæðan fyrir því að um miðbik Baugsmálsins svokallaða fór síbylja mannsins að hafa þveröfug áhrif.    Mörgu fólki fraus hugur við því að horfa á hvernig persónuleg óvild hans skyggði á málefnin og meint fjármálasvik, sem mótaðilinn nýtti sér til ýtrasta og skapaði þannig meðbyr með sjálfum sér, sem kannski hefur haft áhrif alla leið inn í dómshús, og kannski ekki.

Nú er maðurinn orðinn ritstjóri fyrrum virtasta blaðs landsins, og skrifar þar leiðara og staksteina sem bæði upplýsa DNA, fingrafari og hugarfari ritarans, svo algjör óþarfi er að manngreina höfund.

Til skamms tíma, var hægt að setja athugasemdir inn á þessi leiðaraskrif á blogginu, en því lokaði maðurinn fljótlega, þannig að einungis þeir sem greiða fyrir áskrift af síbyljunni mega rita athugasemdir.  Fjölmargir sem sagt hafa upp blaðinu eftir áralanga áskrift, gerðu grein fyrir uppsögn sinni, m.a. á bloggi.is

Nú er svo komið að það þykir stórhættulegt mannorði og trúverðugleik einstaklings ef leiðari blaðsins eða staksteinn mærir hann, enda sé þessi einstaklingur ekki venjulega talinn vera meðhlæjandi ritstjórans.

Er viss um að enn situr prýðilegt fagfólk upp í Móum, sem svíður að vera brigslað við síbylju eða undirlægjuhátt á kostnað fagmennsku í blaðamennsku.  

Á sama hátt og síbyljan þegar Baugsmálið stóð sem hæst og sneri almenningsáliti upp í andhverfu við síbyljuna, "óttast" ég að áframhaldandi síbylja mannsins í ritstjórastól muni stórskaða jafnvel fólkið sem ann honum mest.

Það er enn tími til að taka fyrsta skrefið. 

 

 


Sleppur lávarðurinn Konni svarti?

Hinn dæmdi fjársvikamaður og fjölmiðlamógúll Lord Conrad Black hefur átt frábært sumar.

Í lok júlí s.l. var honum sleppt úr fangelsi í Florida eftir rúmlega tveggja ára setu af sex og hálfs árs dómi, sem hann hlaut fyrir fjársvik gagnvart hluthöfum í Hollinger International Inc. fyrirtæki sem hann stýrði og átti auk þess stóran hlut í, og meirihluta atkvæðaréttar í gegnum skuggafyrirtæki sín.

"Ég á ´etta, ég má´etta" voru einkunnarorð hans og æðstu yfirmanna, þegar þeir á frjálslegan hátt skilgreindu einkarekstur sinn; ótal flugferðir fjölskyldu í einkaþotu fyrirtækisins, afmælisveizlur eiginkvenna, innbú og innréttingar í einkaíbúð á Manahattan og fleira, sem rekstrarkostnað almenningshlutafélagsins Hollinger. Með hans eigin orðum; "Ég á þetta fyrirtæki og ég ákveð hvenær og hvað er upplýst til stjórnar fyrirtækisins"  Hollinger var þó almenningshlutafélag á markaði sem laut þar að leiðandi ströngum reglum yfirvalda og eftirlitsstofnana.

conrad-black-leaves-a-bail-hearing-in-chicago-with-wife-barbara-amiel-july-23-2010.jpg Conrad var sleppt gegn 2ja milljón dala tryggingu, sem góðvinur hans greiddi, gegn því að mæta í áfrýjunarrétt í lok ágúst, þar sem lögmenn lávarðarins munu fara fram á að fjórar ákærur verði afturkallaðar. 

Upphaflegu ákærurnar gegn Conrad og æðstu yfirmönnum voru þrettán, níu af þeim var vísað frá vegna ónógra sannana, en dæmt var í þremur fjársvikabrotum auk  brots  fyrir að reyna að eyða sönnunargögnum "obstruction of justice" þegar hann lét flytja kassa af gögnum frá skrifstofu sinni í Toronto, sem höfðu verið kyrrsett með dómi.

 

Þeir þrír ákæruliðir sem stóðu eftir, snerust um "samkeppnishamlandi þóknanir" (no-competence fee) sem saksóknari taldi að hefði átt að greiðast inn í fyrirtækið Hollinger,  til hagsbóta fyrir alla hluthafa, en ekki sem einkagreiðslur til Conrads og nokkurra yfirmanna fyrirtækisins í formi skattfrjálsra tekna.  Tilurð þessara greiðslna voru með þeim hætti, að Hollinger sem átti fjölmörg dagblöð víðs vegar um Kanada, Bandaríkin og Bretland, seldi þessi dagblöð og kaupandinn setti samkeppnishamlandi skilyrði, sem fólu í sér að Hollinger gæti ekki sett nýtt dagblað á laggirnar á sama markaðssvæði í ákveðinn tíma. Fyrir þessi skilyrði voru kaupendur tilbúnir að greiða umtalsverða þóknun, sem eins og áður segir, Conrad og félagar rökuðu beint í eigin vasa.

Sterkustu rök saksóknara í þessu tilefni, hefur vafalaust verið í því tilfelli þegar Hollinger seldi dagblað út úr samsteypunni til félags í eigu Conrads sjálfs, sem krafðist þess að "Conrad Hollinger fyrirtækið" færi ekki í samkeppni við "Conrad nýja fyrirtækið" og fyrir þessi skilyrði átti "Conrad sjálfur" að fá umtalsverða þóknun í eigin vasa. 

Rannsóknarskýrsla upp á rúmar 500 blaðsíður var skrifuð af Richard Breeden, fyrrum yfirmanni hjá "SEC" (Securities and Exchange Commission) þar sem meint fjársvik Conrads og yfirmanna voru skilgreind í öreindir. (Breeden skýrslan sambærileg við RNA skýrsluna).  Listi yfir einkakostnað, flugferðir, risnuferðir, vínreikninga, ferðalög til Bora Bora  og fleira og fleira.  Tölvuskeyti og aðrar sannanir rakin lið fyrir lið.    Saksóknari lagði þessa skýrslu til grundvallar, en hafði auk þess "stjörnuvitni" á sínum snærum, nánasta og næstæðsta yfirmann í Hollinger, David Radler.   David, játaði fjársvikin snemma í ferlinum og samþykkti jafnframt að vitna gegn fyrrum félaga sínum, gegn vægari dómi.

David fékk 27 mánaða dóm.  Conrad fékk 78 mánaða dóm, en eins og áður segir er nú laus gegn tryggingu eftir rúma 25 mánuði  vegna áfrýjunarmálsins.

Helsti grundvöllur fyrir áfrýjun Conrads er byggður á nýrri og þrengri skilgreiningu hæstaréttar BNA á  "honest services" í fjársvikamálum, sem í nýrri skilgreiningu á aðeins við um mútur og "kickbacks" fremur en að skilgreiningin næði til tilfella þegar málsaðili er sakaður um að brjóta trúnað og traust við fyrirtæki, eins og áður var.

Aha! hugsuðu lögmenn Conrads með sér, skjólstæðingur okkar hefur aldrei gerst sekur um mútur eða faldar þóknanir.  Við áfrýjum strax, það gerðu þeir, með glimrandi undirtektum dómarans.

Gífurlegur áhugi er fyrir þessu máli hér í Kanada, ekki sízt vegna þess að Conrad er fæddur í Kanada, en 2001 gaf hann upp ríkisborgararétt sinn, fyrir þann brezka, til þess að geta verið aðlaður sem Baron Black of Crossharbour, og getað titlað sig Lord Black!  Fyrrum forsætisráðherra Kanada hafði þó gefið honum svokallað "diploma" vegabréf, þannig að uppgjöf ríkisborgararéttar var kannski ekki stórt mál, í skiptum fyrir svona mikla upphefð.

Þó áhuginn sé mikill, er ekki þar með sagt að hann sé tengdur neinni samúð eða samhyggð.  Kanadamenn, elska að hata Konna svarta og meint fjársvikamál hans ná langt aftur fyrir þessi tilteknu réttarhöld.

 

Því er ég að þræla áhugasömum lesendum í gegnum þessa sögu?  Af því að hún hefur klára skírskotun til íslensks veruleika, og slær kannski aðeins á ofurvæntingar um að "réttlætið sigri að lokum".  

Munurinn á Madoff og Black er þó nokkur;

-  Madoff játaði að 25 ára fjármálaferill sinn, hefði hafist með PONZI scheme og verið PONZI scheme til síðasta dags.  Hann játaði og því var eftirleikurinn auðveldur, 150 ára dómur.

-  Conrad hefur aldrei játað eitt né neitt, lögmaður hans (Greenspan) segir að Conrad trúi því í hjarta sínu að hann hafi aldrei gert neitt rangt. Conrad á eignir og mikið fé til að verja sig.  Honum er mikið í mun að flytja aftur til Kanada (Toronto) þar sem hann á óðalssetur, en jafnframt að endurheimta virðingu "fyrrum" landa sinna. 

Verðmiði á virðingu samborgara getur verið stjarnfræðilegur og líklega ekki keypt fyrir nokkurt fé.

Hefði Conrad verið ákærður um alla þrettán ákæruliðina, hefði dómurinn vel getað náð einni öld.  Hann var hins vegar ákærður um fjóra liði, og nú eru þrír af þeim upp í lofti, út af þrengri skilgreiningu Hæstaréttar.

Virðing Kanadamanna fæst hvorki keypt með tárum eða seðlum.  Það verður á brattan að sækja fyrir Conrad Black að endurheimta hana, en víst er að óvilhöll vitni og fyrrum viðskiptafélagar, eru líklega með kuldahroll hríslandi niður bak, því tími hefnda er ef til vill runnin upp fyrir hinn 65 ára gamla Konna svarta.

Siðferðisbrot eru ekki brot á lögum, og sönnunarbyrði í fjársvikamálum er ógnarsterk, hér í Norður-Ameríku.   Löglegt en siðlaust, ógeðfelld setning, en sönn.

Ég held áfram að fylgjast með af faglegum áhuga, býst við því versta og vona það besta og sef bærilega á næturnar.

 

338420_f520.jpg

 

 

 

 

 

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband