Færsluflokkur: Bloggar
30.5.2012 | 19:24
Títuprjónar á fasteignabólu!
Stundum er talað um "lögmál" markaðar með spekingslegum svip.
Nær væri að tala um "syndrom" markaðar, eins og fasteignamarkaður á Íslandi lýsir sér 4 árum eftir hrun.
Einhvers staðar heyrði maður töluna 3-4000 íbúðir í eigu banka og íbúðalánasjóða, sem alls ekki mega lúta neinu venjulegu lögmáli og setja á markað, því þá væri 'hætta' á að verð myndi lækka.
Þetta er inngrip í markaðslögmál nákvæmlega eins og þegar bankar eru að reka gjaldþrota fyrirtæki í harðskeyttri samkeppni við aðila, sem hafa staðið af sér kreppuna.
Það er vissulega ákveðinn skilningur fyrir því að þessum eignum sé ekki frussað út á markaðinn, í einu vetfangi.
Fjórum árum eftir hrun, hlýtur samt að minnsta kosti ein kynslóð vera komin í spreng að komast í eigið húsnæði.
Fasteignabólan sem er að myndast er eitruð fyrir íslenskt hagkerfi í höftum. Hún hefur líka hælbítis áhrif til enn frekari hækkunnar á verðbólgu, til enn alvarlegri afleiðinga.
Ung fjölskylda, sem stendur mér nær, er búin að flytja þrisvar sinnum á þremur árum, af því að leigumarkaður á Íslandi er þjakaður af sama syndrómi og fasteignamarkaðurinn.
Myndi ekki góð gusa af fasteignum út á markaðinn, virka eins og títuprjónar á þessa illskeyttu og eitruðu bólu, sem nú er að myndast innan haftahagkerfisins á Íslandi?
Höftin mynda bólu á fasteignamarkaði | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
25.5.2012 | 18:06
Fagna óvægnum fréttaflutningi.
OR kallar fréttaflutning af Hellisheiðavirkjun of óvæginn og gengur svo langt að harma hann.
Líklega er verið að snupra manninn sem fékk "nátturuverndardaginn" tilnefndan í afmælisgjöf, fyrir að sýna okkur með eigin augum hvað er um að ræða þarna í nágrenni við virkjunina. Auk þess varpar Ómar fram smellnum spurningum, sem OR reynir að víkja sér undan.
Gott fólk, hér í nágrenni við mig býr maður að nafni Ross Beaty, aðaleigandi Alterra (fyrrum Magma) sem er svo aðaleigandi HS Orku, sem er með framtíðaráform á línuritum sem stefna öll í norð-norð austur.
Árið 2016 ætlar hann að vera kominn í 600 MW framleiðslu, þegar Eldvörp og önnur áform á Reykjanesinu hafa verið virkjuð.
Ross opnar aldrei svo munninn öðruvísi en að dásama hvað jarðvarmaorka er tær óþrjótandi snilld og mikill 'cash-generator'. Þar er á ferðinni maður, sem OR og fleiri ættu að ásaka fyrir óvæginn og ósannan fréttaflutning.
Ég harma það að OR skuli kalla fréttaflutning um virkjun á þeirra vegum óvæginn, sem veldur fólki hugarangri af mörgum ástæðum; jarðskjálftar þegar vatni er þrýst niður aftur, mengun grunnvatns ef ekki verður hægt að þrýsta vatninu niður, stöðug og algjörlega órannsökuð brennisteinsmengun yfir stærsta þéttbýlissvæði landsins og síðast en ekki síst óafturkræfar náttúruskemmdir.
Opinber fyrirtæki og stjórnsýslan eiga ekki að harma fréttaflutning sem bendir á yfirvofandi hættur og skaða fyrir fólk og/eða skemmdir á náttúru. Opinber fyrirtæki og stjórnsýslan eiga að gæta hagsmuna almennings fyrst og fremst.
Það virðist gilda annað lögmál um fyrirtæki eins og Ross rekur, sem geta bullað út í eitt og harmað gagnrýni einstaklinga á borð við Björk og talið slíkt óvægið. Þeir eru líka bara að gæta eigin hagsmuna og haga sér eins og þeim sé skítsama um fólkið og náttúruna sem það lifir í.
Harma óvæginn fréttaflutning | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 13.3.2013 kl. 22:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
16.3.2012 | 03:43
"Láttu ekki svona drengur!"
Nú hefur eitt íslenskt endurskoðunarfyrirtæki , PwC verið sótt tvisvar til saka af slitastjórnum tveggja fallinna banka. Svo virðist sem hluti af ákærunni beinist að skilgreiningu á tengdum aðilum og broti á lánareglum til eigenda og tengdra aðila.
Fræg eru ummæli fv. Seðlabankastjóra þegar þv. forstjóri Fjármálaeftirlitsins, sagði honum að Björgólfur og sonur hans Thor væru ekki tengdir aðilar. Þú talar ekki svona við mig drengur! sagði hann og byrsti sig, nema von! Hversu langt er hægt að flækja sig inn í flottum skilgreiningum en missa síðan sjónar á því augljósa. Slitastjórn Glitnis reynir að sýna fram á skuggastjórn og tengingu annarra aðila, hjóna, sem hrifsuðu titilinn brúðkaup aldarinnar og öldin rétt nýbyrjuð.
Lítið sem eiginlega ekkert hefur heyrst í endurskoðendum almennt, í kjölfar hrunsins. Þeir, eins og allir aðrir bera af sér sakir, benda á einhvern annan, og bæta því við hróðugir; að þeir hafi í einu og öllu farið eftir Alþjóðlegum endurskoðunarstöðlum og reglum. Íslenskir endurskoðendur, hafandi farið í einu og öllu eftir þessum stöðlum, gætu varpað mikilvægu ljósi á hvar staðallinn klikkaði. Enron var býsna stórt áfall fyrir stéttina, en uppgjörið við íslenska bankahrunið af þeirra hálfu er óklárað og komið á gjalddaga.
Hvar er opinskáa og heiðarlega umræðan um ISA 240 alþjóða staðalinn, sem samþykktur var beinlínis til höfuðs stjórnendum sem manipúlera fjárhagsreikninga fyrirtækja?
Á árinu 2004 var þessi alþjóðlegi endurskoðunarstaðall samþykktur, sem tekur sérstaklega til fjársvika og fölsun ársreikninga. Þessi staðall var svar stéttarinnar við Enron málinu, en sem kunnugt er tók ein af stóru endurskoðunarskrifstofa heims Arthur Andersen fullan og einbeittan þátt í svikunum sem þar áttu sér stað.
Markmiðið með staðlinum felst aðallega í grundvallar hugarfarsbreytingu endurskoðandans, þannig að hann megi ekki gera ráð fyrir (treysta því) að stjórnendur fyrirtækja segi satt og rétt og frá , enda þótt hann hafi aldrei haft ástæðu til að véfengja þá áður. Grundvallarbreyting frá því sem áður var og endurskoðendur máttu vera í góðri trú um heilindi stjórnenda.
Þess er krafist að endurskoðendur beiti faglegri tortryggni (e: professional scepticism) í gegnum allt endurskoðunarferlið, og geri ráð fyrir möguleika á sviksamlegum rangfærslum í bókhaldi, sem gefi ranga mynd af stöðu fyrirtækisins.
Staðallinn skilgreinir tvenns konar einkenni fjársvika:
Rangfærslur í fjárhagsbókhaldi geta annað hvort stafað af svikum eða villum. Munurinn þar á milli ræðst af því hvort ásetningur liggi fyrir.
1. Rangfærslur á fjárhagsupplýsingum (dæmi : uppsprengt verð eigna rangar tekjufærslur eignfærsla rekstrarkostnaðar o.þ.h.)
2. Misnotkun eigna (dæmi: þjófnaður á eignum fyrirtækisins peningar eignir, persónulegur kostnaður greiddur af fyrirtæki, ólögleg lán til eigenda o.þ.h.)
Megin ábyrgð til að fyrirbyggja slík svik, hvílir á stjórn og stjórnendum fyrirtækisins .
Vandamálið er hins vegar að í 89% tilvika eru svikararnir einmitt æðstu stjórnendur og/eða stjórn fyrirtækisins.
Ábyrgð endurskoðendans er: Að afla nægjanlegrar staðfestingar á að í fjárhagsreikningi séu ekki að finna rangfærslur af völdum svika eða villna, sem hafa efnisleg áhrif á niðurstöðu reikningsins og blekkja þannig væntanlega og núverandi fjárfesta.
Staðallinn er upp á tugir blaðsíðna þar sem farið er yfir margvísleg tilvik og viðeigandi viðbrögð við þeim. Það er sérstaklega tekið fram að endurskoðandi geti ekki borið ábyrgð á sérlega tæknilegum og einbeittum svikum, þar sem stjórnendur jafnvel taki höndum saman til þess að leyna endurskoðenda ákveðnum viðskiptafærslum. Við mat á áhættu um rangfærslur í ársreikningi , þarf endurskoðandinn að framkvæma ákveðnar æfingar til að réttlæta mat sitt.
Auk þess verður að líta á hlut eða hlutleysi endurskoðenda í bankahruninu sérlega alvarlegum augum, með tilliti til mikilvægi starfseminnar fyrir efnahagskerfi þjóðar.
Það hlýtur að þurfa alþjóðlegan sérfræðing til að leggja mat á meinta vanrækslu endurskoðenda, annað er óhæfa.
PwC hafnar málatilbúnaði bankana | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
4.3.2012 | 18:31
Verður framtíðarsöngur 2016 ; "Af hverju varaði enginn við?"
Eignabóla - verðbólga - hrun!
Stórir gjalddagar næstu 4 ár í erlendri mynt, innstreymi gjaldeyris mun ekki standa undir greiðslum.
Uppgjör við kröfuhafa slitastjórna - heldur áfram að veikja gengi ÍSK.
Flaggskip íslenskra fyrirtækja, búa sig undir brottför af íslenska myntsvæðinu
Biðin eftir Evru - verður of löng og mörkuð blóðugum átökum.
Framtíðin með íslensku krónunni er ekki björt.
Þeir sem helst hafa sig í frammi og telja að krónan sé fín sjá ekki lengra en til mánaðarmóta, kannski líka þeir, sem "vinna frítt" (sic) fyrir íslenska Ríkið, af því að gullfallhlífin (eftirlaunin) er vel pökkuð í bakpokanum af þeim sjálfum.
Þá eru enn aðrir sem telja að pessimistar hljóti að stýrast af annarlegum hvötum, svo þegar skellurinn kemur, er gargað með frekjulegum tón; Af hverju varaði enginn við?
Kannski er okkur ekki viðbjargandi!
Við dræpumst trúlega frekar úr þorsta í hávaðariflildi við vatnsberann, en að þiggja sopa úr ausunni hans.
Eignasvipting og upptaka á sparnaði almennings á Íslandi yrði skilgreint sem stjórnarskrár- og mannréttindabrot í mörgum löndum. Á Íslandi kærir dæmdur innherjasvikari mál sitt til mannréttindadómstóls, en almenningur drúpir höfði og kyngir.
Þurfum alþjóðlega peningastefnu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
11.11.2011 | 05:47
Innherji - útherji !
Gætir ekki ákveðins misskilnings í "túlkun" á innherja hjá sjálfum innherjum Íslands?
Þetta kom t.d. skýrt fram í viðtali við einn af fyrrverandi framkvæmdastjórum Kaupþings þegar hann fullyrðir að " hann hafi engar innherjaupplýsingar haft" þegar hann tók þá heppilegu ákvörðun að færa áhættusöm hlutabréfakaup yfir í einkahlutafélag.
Tel jafnvel vera þörf á endurmenntun í skilgreiningu á innherja!
Ekki aðeins hafði þessi framkvæmdastjóri innherjaupplýsingar, heldur var hann "fruminnherji" skv. skilgreiningu laganna og hafði því upplýsingar úr innsta kjarna!
Hér er skilgreiningin í 17 bls. Handbók
Innherjar, þ.e. fruminnherjar, tímabundnir innherjar og aðrir innherjar.
58. gr. vvl:
Með innherja er átt við:
1. fruminnherja, þ.e. aðila sem hefur að jafnaði aðgang að innherjaupplýsingum vegna aðildar að stjórn, rekstri eða eftirliti eða vegna annarra starfa á vegum útgefanda verðbréfa,
2. tímabundinn innherja, þ.e. aðila sem telst ekki fruminnherji en býr yfir innherjaupplýsingum vegna eignaraðildar, starfs síns, stöðu eða skyldna, og
3. annan innherja, þ.e. aðila sem hvorki telst fruminnherji né tímabundinn innherji en hefur fengið vitneskju um innherjaupplýsingar, enda hafi viðkomandi vitað eða
mátt vita hvers eðlis upplýsingarnar voru.
Til fruminnherja teljast t.d. stjórnarmenn og varamenn, lykilstarfsmenn og ráðgjafar,t.a.m. lögmenn og endurskoðendur.
Ekki skiptir máli hvort aðilar eru sjálfstætt starfandi
eða þiggji laun sín frá útgefanda. Til lykilstarfsmanna teljast t.d. forstjórar, framkvæmdastjórar, innri endurskoðendur og aðrir helstu stjórnendur.
Taktu þessa skilgreiningu til Jóa útherja og vittu hvað hann segir!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 07:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.11.2011 | 05:06
Skipulagt samsæri eða hagkerfis-anorexía.
Skattsvik er alvarlegur glæpur hérna megin hafs. Skattaprósentan hér í Kanada er meira að segja hærri en á Íslandi, allt að 50% í hæstu þrepum. Vaxtatekjur eru skattaðar eins hver önnur innkoma og 50% eignatekna bera fullan tekjuskatt, að frádregnum kostnaði.
Hef alltaf haft ákveðna samúð með baráttu Skúla Eggerts, sem er háréttur maður á réttum stað hvort sem það er við skattarannsóknir, eða sem ríkisskattstjóri.
Samúðin er fyrst og fremst sprottin af því "umhverfi" sem Ísland er og hversu töff og sjálfsagt það þykir almennt að svíkja undan.
Þegar fólk fremur fjármálaglæpi, (t.d. skattsvik) þá er réttlæting ríkur þáttur, sem skilur á milli þess að heiðarlegasta fólk allt frá bændum til iðnaðarmanna, einyrkja og sölufólks leggst í skattsvik, eða lætur það vera og fordæmir þau sem það gera.
Af orðræðunni í netheimum að dæma, jafnast sú réttlæting nánast við synda-aflausn til eilífðarnóns, vegna þeirra svika og pretta sem framin hafa verið í íslensku efnahagslífi og eru enn, ef marka má þær skulda-aflausnir og endurfæðingu flottustu fyrirtækja Íslands, með sömu eigendum.
Já, ég leyfi mér nefninlega að tengja þetta tvennt sterkum böndum, og skil raunar ekkert í því að eitthvað í sambandi við þessa "svörtu atvinnukönnun" hafi komið verulega á óvart, nema að þeir séu alveg ótengdir pöpulnum.
Prófið þyngist meir og meir á meðan "frústrasjónin" eykst á tvöföldum hraða.
Sendi Skúla Eggerti baráttukveðjur að vanda, því verkefnið er ærið, að afla tekna til að reka batteríið sem er farið að leka sýru. Fjármálaráðherra mætti líka alvarlega huga að fleiri þáttum, en að troða hækkandi skattprósentu stöðugt oní háls á borgurum þessa land. Slíkt veldur alvarlegri uppsölu, veikindum og jafnvel anorexíu í hagkerfi sem hefur alla burði til að plumma sig.
Skoðaði og skýrði þetta tregðulögmál í skattheimtu í þessum pistli um "grugguga eðlið"
Magn svartrar vinnu kemur á óvart | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.10.2011 | 17:01
Ekki skynsamlegt og ekki við hæfi að hafa skoðun á þessari ráðningu!
segir fjármálaráðherra.
Á hverju er þá skynsamlegt að hafa skoðun? Væri þetta ekki prýðisvörn hjá fyrrverandi forsætisráðherra sem situr fyrir landsdómi m.a. fyrir að hafa ekki þótt skynsamlegt að hafa (opinbera) skoðun á aðgerðum og aðgerðarleysi, sem að lokum keyrði landið í kaf.
Páll Magnússon er laskaður af hagsmunaárekstrum fyrst og fremst sem gera hann vanhæfan í forstjóraembætti Bankasýslu ríkisins. Þess vegna er fáranlegt að vera að skella fram árangri í einhverjum lestrar og skriftarprófum.
Það er alveg bráðnauðsynlegt að "hagsmunir og tengsl" við gjörninga sem felldu Ísland, verði taldir valda alvarlegu vanhæfi í störf, sem miða að því að endurreisa rústirnar. Hefur nákvæmlega ekkert að gera með manngæsku eða færni.
Steingrímur hlýtur að skilja þetta, því þetta er jú ein megin ástæðan fyrir að fólk sem aldrei gat sagt kommúnisti án þess að skeyta orðinu "helvítis" fyrir framan, kaus hann í síðustu kosningum.
Eða ætlar hann að beita þessu "skynsamlega" skoðanaleysi, þegar Páll kynnir til sögunnar góðkunningja hrunsins sem nýja kjölfestufjárfesta í Landsbankanum?
Get a grip man!
Metur rökstuðning | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
23.9.2011 | 19:28
Glannalegt!
Finnst engum nema mér að framköllun jarðskjálfta með þessum hætti sé háskaleikur!
Hver getur fullyrt að mönnum og húsum stafi ekki hætta af tiltækinu?
Fjöldi skjálfta við Hellisheiðarvirkjun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
18.9.2011 | 07:29
Stalst í Styrmi!
Stelst stundum að lesa innlendan vettvang fyrrverandi ritstjóra MBL af ýmsum ástæðum.
Ein stærsta ástæðan er sú að hann snuðaði okkur um skýringar á margtuggðum og líklega frægustu ummælum sem lesa má í skýrslu RNA um "ógeðslega og prinsipplausa þjóðfélagið s.l. 50 ár".
Greinaflokkurinn innlendur vettvangur er nefninlega alveg fyrirtaks vettvangur fyrir hann til að skýrgreina nánar hvað og við hvern er átt! Dæmi eru líka vel þegin, því ef heimildir mínar eru réttar mun "Spillingarsaga Íslands" vera í skrásetningu hjá Þjóðminjasafninu þessi misserin.
Þangað til kýs ég að skilja ummæli Styrmis mjög vítt, sem aftur á móti gera allar "tóld jú só" sögur hálfógeðslegar líka.
Fleiri ástæður lúta m.a. af fyrri kynnum af ritstjóranum og lestri leiðara eftir hann, sem stundum fengu hárin til að rísa af fögnuði, þegar hann fjallaði um gjafakvótann og ruglið í kringum hann, en líka af því að umfjöllun blaðsins var oftast í sæmilegu jafnvægi milli ólíkra skoðana, nema rétt fyrir kosningar að sjálfsögðu. Auk þess veit ég frá fyrstu hendi að ritstjórinn kynnti sér flestar hliðar mála af yfirvegun, og dróg sínar ályktanir út frá þeim.
Lestur innlends vettvangs í dag 18. september 2011, fær mann til að gúggla hvort einhver á jörðinni hafi orðið var við geimskip, sem skilaði Styrmi aftur til jarðar, eftir 3ja ára útlegð.
Þjóðarbúið er of dýrt í rekstri er yfirskriftin, og svo virðist að uppljómunin hafi birst eftir viðtal við "mann af nýrri kynslóð Íslendinga, sem hefur gengið hægt um gleðinnar dyr og uppskorið í samræmi við það."
Gott og vel. Sjálf hef ég verið ötull talsmaður þess að "ný kynslóð" Íslendinga fái svig- og ráðrúm til að feta sig t.d. á stjórnmálasviðinu. Því miður er það svo að kynslóð Styrmis; er þrásetnari en Gaddafi og Saddam til samans; og hún má þakka fyrir að "breiðu blóðugu spjótin" eru týnd og tröllum gefin s.l. þúsund ár, því fæstir nútíma Íslendingar vilja berjast á banaspjótum, þó tunga þeirra geti verið bæði hárbeitt en líka þvoglu og þrástagakennd.
Ég tek undir allt tal um óhagkvæmni í ríkis og sveitafélagarekstri, en þegar kemur að "einka" pakkanum þá verður brekkan fljúgandi hál!
Er ein af þeim sem snupraði stofnanda Bónus á hádegisfundi um árið, af því að mér fannst "rjómafleyting" þeirra á bókamarkaðnum (hálf) ógeðsleg. Þessi fleyting þurrkaði enda út allar litlu bókaverslanirnar sem settu svip á bæinn.
Í nafni frjálsrar samkeppni urðu til stórar einingar sem enginn gat keppt við í verði, og því auðgaðist flóra viðskiptanna á þverveginn, eins og t.d. í þjónustu og jafnvel undarlegheitum allskonar. Nú spyr Styrmir eins og geimvera; "Hvað ætli valdi því að ritfangaverzlun hefur allt í einu aukizt svona mikið?" Sjálfri finnst mér þetta spennandi spurning ef rétt er, því slíkt bendir til að grundvöllur sé aftur fyrir hverfisverzlunum og rómantík! Það má jafnvel skilja skrif Styrmis á þann hátt að hugmyndafræði Marteins Mosdal um eina ritfangaverslun, eina kjörbúð, eina bílasölu, eina Húsasmiðju osv fr. sé freistandi. Ég sagði má skilja ...... trúi samt ekki fyrr enn í fulla hnefana að fyrrverandi ritstjórinn sé að meina slíkt.
Allt þetta tal um rekstur þjóðarbúsins, má samt ekki undanskilja grundvöllinn sjálfan; sem er að fólk hafi atvinnu og laun til að kaupa vörur og þjónustu hvort af öðru. Og að greiða skatta og skyldur til samfélagsins til að standa undir öllum þingmönnunum og aðstoðarfólki þeirra, sem ritstjórinn bendir réttilega á að er svona meira í okkar valdi að skera "fituna" af.
Hér í Kanada eru 98% af fyrirtækjum skilgreind sem "lítil" fyrirtæki sem njóta sérstakrar ummönnunnar (lesist skattaívilnunar) af yfirvöldum, vegna þess að þau skilja að einyrkjar og fjölskyldur þeirra, sem sjá fyrir sér sjálf eru "púðrið og dýnamítið" í atvinnulífinu. Vaxtarkúrfa einyrkja og lítilla fyrirtækja er enda aðalmælikvarðinn á "heilbrigði" kanadíska hagkerfisins!
Ég er búin að fylgjast með þessu þjóðfélagi í 30+ ár. Ég er sannfærð um að ef við náum að lama spillinguna og örva tæra útsjónarsemi og hugvit sem að sönnu býr í landanum, ekki sízt í þessari nýju kynslóð Íslendinga, sem Styrmir fjallaði um, þá getur kynslóðin sem nú stendur á ellilífeyrisbrúninni, um frjálst höfuð strokið, allavega enn um sinn.
Hún verður samt að láta af "ofsanum og bræðinni" sem hún hefur prjónað um sig þessi 50 ár. Hvort þeir kjósa að dvelja sitt ævikvöld í raðhúsi í Mosfellsbænum allir saman,hlið við hlið, hljóta þeir samt að fara að skynja sinn vitjunartíma, því það er einhvern veginn eins með þá og rokkið gamla, ....... það hafa ekki komið almennilegar hljómsveitir eftir 1971 ........ að þeirra mati!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
24.8.2011 | 19:48
Lagskiptur rekstur OR
Áhugaverð ummæli stjórnarformanns um rekstur þessarar fyrrum mjólkurbelju Reykjavíkurborgar, sem margir voru sammála og göntuðust með að það tæki tæran snilling, að setja Hitaveituna og Rafmagnsveituna á hausinn!
Hin tæra snilld spratt auðvitað fram, skorin voru júgrin af beljunni og beintengt inn á kirtlana með haugsugu, og "undirliggjandi" rekstrarafkomu næstu 100 ára fretað út um borg og bý og byggð eldhúskompa á heimskvarða oflætis.
Nú þurfa, nei verða, notendur veitunnar að draga blóðuga beljuna að landi og greiða 40% hærra orkuverð. Sú montsaga í útlöndum gildir því ekki lengur að Íslendingar hiti upp öll hús sín með ódýrustu og vænustu orku í heimi.
Hvað er annars þessi undirliggjandi "batnandi" rekstur annað en hærri tekjur vegna þessarar hækkunnar og svo e.t.v. niðurskurður í eldhúsvinnslu rekstrarins?
Mið- og yfirliggjandi rekstur sjoppunnar; vextir - gengismunur og rekstur "blætis fjárfestinga" fyrri ára fer seint batnandi í þessu árferði.
Ekkert fer eins í fínu taugarnar á undirritaðri eins og að lesa um "bókhaldslegt tap og hagnað" eins og fyrirbærið væri óþægilegur steinn í skónum og væri alls ótengt sjálfum rekstrinum, undir eða yfirliggjandi og allt um kring.
Rekstur OR á uppleið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)