"Láttu ekki svona drengur!"

Nú hefur eitt íslenskt endurskoðunarfyrirtæki , PwC verið sótt  tvisvar til saka af slitastjórnum tveggja fallinna banka. Svo   virðist sem hluti af ákærunni beinist að skilgreiningu á tengdum aðilum og broti á lánareglum til eigenda og tengdra aðila.  

 Fræg eru ummæli fv. Seðlabankastjóra  þegar þv. forstjóri Fjármálaeftirlitsins, sagði honum að Björgólfur og sonur hans Thor væru ekki tengdir aðilar.  „Þú talar ekki svona við mig drengur!“ sagði hann og byrsti sig, nema von!   Hversu langt er hægt að flækja sig inn í „flottum skilgreiningum“ en missa síðan sjónar á því augljósa.  Slitastjórn Glitnis reynir að sýna fram á skuggastjórn og tengingu annarra aðila, hjóna, sem hrifsuðu titilinn „brúðkaup aldarinnar“ og öldin rétt nýbyrjuð.

Lítið sem eiginlega ekkert hefur heyrst í  endurskoðendum almennt, í kjölfar hrunsins.  Þeir, eins og allir aðrir bera af sér sakir, benda á einhvern annan, og bæta því við hróðugir; að þeir hafi í einu og öllu farið eftir Alþjóðlegum endurskoðunarstöðlum og reglum.  Íslenskir endurskoðendur, hafandi farið í einu og öllu eftir þessum stöðlum, gætu varpað mikilvægu ljósi á hvar staðallinn klikkaði.  Enron var býsna stórt áfall fyrir stéttina, en uppgjörið við íslenska bankahrunið af þeirra hálfu er óklárað og komið á gjalddaga.

Hvar er opinskáa og heiðarlega umræðan um ISA 240 alþjóða staðalinn, sem samþykktur var beinlínis til höfuðs stjórnendum sem manipúlera fjárhagsreikninga fyrirtækja?

Á árinu 2004 var þessi   alþjóðlegi  endurskoðunarstaðall samþykktur, sem tekur sérstaklega til fjársvika og fölsun ársreikninga.  Þessi staðall var svar stéttarinnar við Enron málinu, en sem kunnugt er tók ein af stóru endurskoðunarskrifstofa heims Arthur Andersen fullan og einbeittan þátt í svikunum sem þar áttu sér stað.    

Markmiðið  með staðlinum felst aðallega í  grundvallar hugarfarsbreytingu endurskoðandans, þannig að hann megi  ekki gera  ráð fyrir (treysta því)  að stjórnendur fyrirtækja segi satt og rétt og frá , enda þótt hann hafi aldrei haft ástæðu til að véfengja þá áður. Grundvallarbreyting frá því sem áður var og endurskoðendur máttu vera í góðri trú um heilindi stjórnenda.

Þess er krafist að endurskoðendur  beiti  faglegri tortryggni (e: professional scepticism) í gegnum allt endurskoðunarferlið, og geri ráð fyrir möguleika á sviksamlegum rangfærslum í bókhaldi, sem gefi ranga mynd af stöðu fyrirtækisins.   

Staðallinn skilgreinir tvenns konar einkenni fjársvika:

 Rangfærslur í fjárhagsbókhaldi geta annað hvort stafað af svikum eða villum.  Munurinn þar á milli ræðst af því hvort ásetningur liggi fyrir.

1.       Rangfærslur á  fjárhagsupplýsingum (dæmi : uppsprengt verð eigna – rangar tekjufærslur – eignfærsla rekstrarkostnaðar o.þ.h.)

2.       Misnotkun eigna  (dæmi: þjófnaður á eignum fyrirtækisins peningar – eignir, persónulegur kostnaður greiddur af fyrirtæki, ólögleg lán til eigenda o.þ.h.)

Megin ábyrgð til að fyrirbyggja slík svik, hvílir á stjórn og stjórnendum fyrirtækisins .

Vandamálið er hins vegar að í 89% tilvika eru svikararnir einmitt æðstu stjórnendur og/eða stjórn fyrirtækisins. 

Ábyrgð endurskoðendans er:   Að afla nægjanlegrar staðfestingar á að í fjárhagsreikningi  séu ekki að finna  rangfærslur af völdum svika eða villna, sem hafa efnisleg áhrif á niðurstöðu reikningsins og blekkja þannig væntanlega og núverandi fjárfesta.

Staðallinn er upp á tugir blaðsíðna þar sem farið er yfir margvísleg tilvik og viðeigandi viðbrögð við þeim.    Það er sérstaklega tekið fram að endurskoðandi geti ekki borið ábyrgð á sérlega tæknilegum og einbeittum svikum, þar sem stjórnendur jafnvel taki höndum saman til þess að leyna endurskoðenda ákveðnum viðskiptafærslum.    Við mat á áhættu  um rangfærslur í ársreikningi , þarf endurskoðandinn að framkvæma  ákveðnar  æfingar til að réttlæta mat sitt.

Auk þess verður að líta á hlut eða hlutleysi endurskoðenda í bankahruninu sérlega alvarlegum augum, með tilliti til mikilvægi starfseminnar fyrir efnahagskerfi þjóðar.

Það hlýtur að þurfa alþjóðlegan sérfræðing til að leggja mat á meinta vanrækslu endurskoðenda, annað er óhæfa.


mbl.is PwC hafnar málatilbúnaði bankana
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Sæll Jenný.  Takk fyrir að benda á þetta.  

Það var ekki vonum seinna að skilanefndir hjóluðu í endurskoðunarfyrirtæki bankanna.  Hrunið var teiknað upp af Jóni Ásgeiri og Hannesi Smárasyni einmitt með Enron svikamylluna að fyrirmynd.  En það er óskiljanlegt að bankastjórnendurnir og endurskoðendurnir skuli ganga hér lausir ennþá 3 árum eftir gjaldþrot Íslands og rífa kjaft.  Að vísu ganga allir lausir nema Baldur en hann rífur þó líka kjaft.  Það eru vist samantekin ráð um að sýkna Geir og þarmeð stjórnmálastéttina.  Og hrunkvöðlarnir og bankabófarnir munu sleppa líka annars gætu þeir kjaftað frá stjórnmálastéttinni.  Við sjáum hvernig fór fyrir Gunnari Andersen þegar hann var að verða heitur í sambandi við Landsbankann og Sjálfstæðisflokkinn.  Og skiljanlega vill Samfylkingin ekki að farið sé nánar út í það hvernig ráðherrar hennar voru bara leiksoppar í bandi Jóns Ásgeirs og glæpaklíkunnar hans.  Björgvin rekinn á fætur um miðja nótt að kröfu Sigurðar G. þegar Glitnir féll og Ingibjörgu skipað af Gesti Jónssyni, að senda Össur á fund Geirs og Davíðs þegar átti að yfirtaka Glitnir.  Og allar þessar rannsóknir sérstaks saksóknara.  Er ekki skýringin á töfunum sú að það eru fleiri flæktir í málin en beinir gerendur.  Þarna koma við sögu þúsundir manna sem nutu greiða og hirtu mola af borði manna eins og Björgólfs.  Nýlega hefur Hrannar Björn viðurkennt að hafa verið virkur þátttakandi í hlutabréfaspilavítinu með láni frá einum bankanum! Það voru nefnilega sumir sem fengu þessa fyrirgreiðslu en aðrir ekki.  Og sumir seldu á réttum tíma en aðrir ekki. Þetta eru allt aumingjar og illmenni þeir sem betur máttu. Hér verður bara bylting ef ekki fer að vora í uppgjörinu fljótlega.  Og það verður engin búsáhaldabylting í það skiptið. 

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 16.3.2012 kl. 05:27

2 Smámynd: Sigurður Kristján Hjaltested

Mikið er þetta góð færsla hjá þér og ansi fræðandi. Takk fyrir það.

Sigurður Kristján Hjaltested, 16.3.2012 kl. 06:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband